Ágæta Sindrafólk

Ágæta Sindrafólk

Mig langar mikið að þakka fyrir þann stuðning sem þið sýnduð okkur í fyrsta leik sumarsins gegn Kára síðasta laugardag.

Það var mikill munur að fá trommur, söng og gleði inn í stuðninginn. Ég vona svo sannarlega að það verði framhald á og að við getum búið til umgjörð utan um þetta. Það er svo miklu skemmtilegra að vera í kring um þetta svona.

Að skapa stemningu fyrir bæjarliðin er svo auðvelt að gera með smá viðhorfsbreytingu. Við þurfum ekki endilega að vera í efstu deild til að byrja á því að móta okkar umgjörð.

Fólk á að mínu mati einfaldlega að hugsa um að gera eitthvað sérstakt, hugsa út fyrir boxið og búa til eitthvað sem gerir fótboltaleik skemmtilegan.

Að láta sig dreyma og ætla sér að gera eitthvað stórt þarf að byrja einhverstaðar.
Það auðveldasta er að byrja að taka til í okkar eigin garði og gera leiki á Sindravöllum spennandi, með jákvæðri stemmingu þar sem allir finna sínar forsendur fyrir því að koma í tvo tíma og eiga þá stund saman sem bæjarbúar.

Það er svo mikið af fólki hér á Höfn sem elskar fótbolta. Sumt fólk mælir sér mót tvisvar sinnum í viku í vinahúsi eða á veitingastað til þess að horfa saman á enska fótboltann, eða meistaradeildina. Fólk hér á Höfn fer jafnvel á leiki erlendis til að styðja sitt erlenda lið og upplifa stemningu þar. 
Fólk eyðir miklum peningum í erlenda búninga og fatnað merkt sínum erlendu liðum.
Af hverju ekki að mæta á Sindravelli að styðja sín bæjarlið eins dyggilega og það styður Man Utd, Liverpool eða Arsenal?

Að mæta á leiki merkt Sindra hér á Höfn á að vera heilög stund fyrir þá sem hafa áhuga á fótbolta yfir höfuð. Þar getur fólk fundið gildi eins og samheldni og samstöðu í því að styðja okkar bæjarlið í gegnum súrt og sætt.

Þetta snýr ekki bara að fótboltaleiknum sjálfum heldur er verið að styðja starfið og sýna þeirri vinnu sem þar er í gangi áhuga og um leið styðja gildisvinnuna og forvarnarvinnuna sem stoltur Hornfirðingur og stoltur Sindramaður.

Höldum áfram að búa til stemningu hér á Höfn og styðjum okkar lið í blíðu og stríðu.
Hendum út hugarfarinu „við erum ekki nógu góð“ eða „við erum ekki nógu mörg“

Hendum líka út því ríkjandi hugarfari hér á Höfn að þetta sé nógu gott fyrir okkur og færum okkur algjörlega að okkur hugarfarinu „aðeins það besta fyrir okkar iðkendur“ 

Með von um áframhaldandi söng og gleði í þeim fjölmörgu leikjum í öllum flokkum á Sindravöllum í sumar.

Óli Stefán Flóventsson