Almennt um slysatryggingar við íþróttaiðkun

Hvað telst vera slys? Til að meiðsli leikmanna teljist vera slys þurfa þau að uppfylla ákveðin skilyrði. Þannig telst það t.d. ekki vera slys ef innri verkan í líkama leikmanns verður til þess að hann verður fyrir meiðslum. Á það t.d. oft við í tilfellum þar sem hásin og krossbönd slitna. Til að um slys sé að ræða þarf að koma til skyndilegur og utanaðkomandi atburður sem veldur meiðslum á líkama leikmanns og gerist án vilja hans. Til dæmis hefur verið litið svo á að misstig sé ekki utanaðkomandi atburður nema t.d. ef um misfellu í jarðvegi er að ræða eða ef leikmaður lendir í samstuði og misstígur sig við það eða annað slíkt. Mikilvægt er að taka fram í fyrstu komu til læknis hvernig slys bar að höndum því litið verður til áverkavottorðs frá fyrsta lækni sem leitað er til þegar tekin er ákvörðun um bótaskyldu hjá bótaskyldum aðilum.

Allir sem lenda í slysum þurfa að halda til haga og skila inn áverkavottorði frá þeim lækni sem leitað var til fyrst eftir slys og frumritum reikninga/kvittana vegna sjúkrakostnaðar auk tilkynningar um slys á viðeigandi formi eftir því hvar sótt er um bætur. Þeir sem lenda í slysi við knattspyrnuiðkun hjá Sindra geta leitað til framkvæmdastjóra félagsins eftir ráðleggingum og aðstoð við að sækja um endurgreiðslu á sjúkrakostnaði og eftir atvikum vegan kröfu um bætur fyrir ófjárhagslegt tjón svo sem miska.

Börn og unglingar upp að 16 ára aldri

Samkvæmt íslenskum lögum bera íþróttafélög ekki sjálfkrafa ábyrgð á slysum sem börn verða fyrir í starfinu. Börn og ungmenni fá tjón af völdum slyss, t.a.m. tannlæknakostnað, ekki greiddan af öðrum, nema einhver beri skaðabótaábyrgð á slysinu. Þannig þarf einhver að hafa átt sök á slysinu til að tjónið greiðist af öðrum og þá af viðkomandi aðila eða úr tryggingu viðkomandi aðila.

Ef barn eða ungmenni slasast í óhappi sem engum verður kennt um ber sá sem stendur fyrir félags- og tómstundastafinu EKKI skaðabótaábyrgð á því. Hins vegar ber íþróttafélagið ábyrgð ef starfsmenn þess, launaðir eða ólaunaðir, hafa sýnt af sér sök og það veldur slysi. Þá getur sá sem stendur fyrir starfinu eða umráðamaður aðstöðu orðið bótaskyldur ef aðbúnaður er ófullnægjandi og slys verður vegna þess.

Þá geta börn og ungmenni þurft að bæta öðrum börnum tjón sem þau valda þeim.

Flestar heimilistryggingar fela í sér ábyrgðartryggingu vegna tjóns sem börn valda og jafnvel slysatryggingu vegna slysa sem börn verða fyrir í frítíma. Þar sem slíkum slysatryggingum sleppir er barn eða ungmenni ekki tryggt í íþróttastarfi. Mikilvægt er fyrir foreldra að kynna sér hvað felst í þeirra heimilistryggingu þar sem slys við íþróttaiðkun geta verið dýrkeypt og sjúkrakostnaður mikill.

Ef barn lendir í slysi við íþróttaiðkun þá er mikilvægt fyrir foreldra að byrja á að hafa samband við sitt tryggingafélag og kanna hver réttur þeirra er. Yfirleitt þarf að tilkynna um slys til tryggingarfélagsins innan árs frá því það átti sér stað. Þá er einnig mikilvægt að halda til haga öllum kvittunum vegna meðferða vegna slyssins þar sem endurgreiðsla fæst í flestum tilfellum ekki nema frumrit kvittana séu lögð fram.

Ef foreldrar telja að skaðabótaábyrgð sé fyrir hendi þá þurfa þeir að sækja greiðslu bóta á hendur viðkomandi ábyrgum aðila.

Athugið að ef ungmenni sem er undir 16 ára aldri keppir í efsta aldursflokki sinnar íþróttagreinar og verður fyrir slysi á það þó rétt á endurgreiðslu samkvæmt reglugerð ÍSÍ um greiðslu bóta vegna íþróttaslysa (sjá hér fyrir neðan).

Frekari upplýsingar um tryggingamál félagasamtaka má finna í bæklingi sem gefinn var út af menntamálaráðuneytinu haustið 2010:    http://www.menntamalaraduneyti.is/frettir/Forsidugreinar/nr/5685

 

Iðkendur 16 ára og eldri

Ýmsar leiðir eru fyrir iðkendur sem eru 16 ára og eldri til að fá endurgreiðslu á sjúkrakostnaði vegna íþróttaslysa. Mikilvægt er að halda til haga öllum kvittunum og tilkynna um slys til veiðeigandi bótaskylds aðila innan árs frá slysdegi.

Eftirfarandi aðilar bæta fjárhagslegt tjón að hluta til eða að öllu leyti:

 

  • Slysatrygging almannatrygginga https://www.sjukra.is/slys/slysatryggingar/til-hvada-slysa-taka-tryggingarnar/ithrottaslys/ Tryggingin nær til íþróttafólks sem er orðið 16 ára og tekur þátt í íþróttaiðkunum og slasast við æfingar, sýningar eða keppni. Bótaskylt slys þarf að hafa valdið óvinnufærni í minnst 10 daga til að sjúkrakostnaður sé greiddur af Sjúkratryggingum. Hins vegar er mögulegt að fá ófjárhagslegt tjón bætt, svo sem miska, ef um slíkt er að ræða þótt tjónið valdi ekki 10 daga óvinnufærni.
    Einnig bæta Sjúkratryggingar Íslands í einhverjum tilfellum tjón vegna tannslysa (skv. gjaldskrá) ef ekki er réttur til endurgreiðslu annars staðar:

http://www.sjukra.is/heilbrigdisthjonusta/tannlaekningar/alvarlegar-afleidingar-faedingargalla-sjukdoma-og-slys/

 

  • Vátryggingar Leikmenn sem eru 16 ára og eldri eru ekki tryggðir í fjölskyldu- eða heimilistryggingu foreldra sinna þegar þeir verða fyrir slysi í keppnisíþróttum. Hins vegar er hægt að óska eftir sérstakri tryggingu vegna íþróttaiðkunar sem bætist við heimilistrygginguna og mælum við sérstaklega með því að leikmenn og eftir atvikum foreldrar þeirra, sjái til þess að slík trygging sé til staðar, því eins og einhver sagði þá tryggir maður ekki eftir á ef slys verða.

 

ATHUGIÐ AÐ KNATTSPYRNUDEILD SINDRA GREIÐIR EKKI SJÚKRA- EÐA FERÐAKOSTNAÐ VEGNA MEIÐSLA OG SLYSA NEMA AÐ GEFNU FYRIRFRAM SAMÞYKKI FYRIR MEÐFERÐ OG SJÚKRAKOSTNAÐI OG AÐ ÁKVEÐNUM SKILYRÐUM UPPFYLLTUM!

 

Samningsbundnir leikmenn knattspyrnudeildar Sindra eru tryggðir með hópslysatryggingu hjá VÍS. Þeir leikmenn sem eru tryggðir fá senda vátryggingarskilmálana og ber knattspyrnudeildin ábyrgð á sjúkrakostnaði vegna slysa sem þeir verða fyrir undir þeirri tryggingu. Knattspyrnudeildin ber hins vegar ekki ábyrgð á sjúkrakostnaði sem fellur til vegna meiðsla sem leikmenn verða fyrir og teljast ekki sem slys heldur innri verkan eða krankleiki í líkama leikmanns. Leikmenn bera ábyrgð á sjúkrakostnaði vegna þess sjálfir.

 

Stefna knattspyrnudeildar er að allir leikmenn sem leika í meistaraflokki félagsins í Íslandsmóti og eru 16 ára og eldri séu tryggðir með hópslysatryggingu. Knattspyrnudeildin sér til þess að þeir leikmenn sem eru tryggðir fái senda vátryggingarskilmála frá VÍS. Knattspyrnudeildin ábyrgist þó ekki að allir leikmenn séu tryggðir og skulu þeir sem ekki hafa fengið senda vátryggingarskilmála hafa samband á tölvupóstfangið knattspyrna@umfsindri.is og óska eftir tryggingu. Það er því á ábyrgð leikmannanna sem ekki eru samningsbundnir að fá upplýsingar um og fylgjast með að þeir séu tryggðir.

 

Í öðrum tilfellum en þeim sem hópslysatryggingin tekur til greiðir félagið ekki sjúkrakostnað leikmanna og er því mikilvægt fyrir alla að sjá til þess að þau tilfelli séu tryggð með öðrum hætti, t.d. í heimilistryggingu.  

 

Ef leikmaður Sindra sem er 16 ára eða eldri (eða yngri leikmaður sem leikur með meistaraflokki) verður fyrir slysi eða meiðslum er mikilvægt að hann byrji á að fara á fund með framkvæmdastjóra félagsins og fá upplýsingar um ferlið sem málið fer í og fá samþykki fyrir greiðslu sjúkrakostnaðar.