Efnisyfirlit

Uppbygging starfsins. 2

Skipun stjórnar – hlutverk stjórnarmanna. 2

Helstu verkefni aðalstjórnar: 3

Helstu verkefni stjórna íþróttadeilda: 3

Hlutverk meðstjórnenda. 4

Siðareglur stjórnarmanna og starfsmanna. 4

Forvarnarstefna Umf Sindra. 4

Forvarnir í einelti 6

Viðbrögð við kynferðislegu ofbeldi 6

Umhverfisstefna Ungmennafélagsins Sindra. 7

Þjálfarar 8

Siðareglur þjálfara. 8

Keppnis- og æfingaferðir 9

Iðkendur 10

Siðareglur iðkenda. 10

Góðir siðir fyrir iðkendur 11

Foreldrar 11

Siðareglur foreldra. 11

Tenglar 12

Fararstjórar 12

Góðir siðir fyrir foreldra. 13

 

Að mörgu er að hyggja í starfi íþróttafélags. Það eru margir aðilar sem koma að slíku félagi og til að hlutirnir gangi upp eins og best verði á kosið er þarft að hafa reglur og verklag þessara aðila skýrt. Þá er einnig mikilvægt að forvarnar- og umhverfisstefna séu hafðar að leiðarljósi í starfi félagsins.

Uppbygging starfsins

Helstu markmið Umf Sindra er rekstur íþróttadeilda og efling íþróttaiðkunar á Höfn í Hornafirði. Framboð íþróttagreina er með ágætum en innan félagsins er hægt að æfa blak, fimleika, frjálsar íþróttir, knattspyrnu, lyftingar, körfuknattleik og sund. Grunngildi félagsins eru heiðarleiki, samvinna og metnaður. Félagið vill leitast við að gefa öllum jöfn tækifærti til að stunda þær íþróttir sem í boði eru.

Markmið félagsins er að öllum börnum og unglingum sé skapaður vettvangur til að vera í íþróttum hvort sem þau hafa áhuga á félagslegum- eða keppnishluta íþróttarinnar. Félagið vill skila af sér góðum félagsmönnum hvort sem þeir verða leikmenn í meistaraflokkum eða gallharðir stuðningsmenn, stjórnarmenn eða dómarar.

Brottfall á unglingsárum er ekki valkostur en nokkrar ástæður geta verið fyrir því, t.d. óánægja með eigin getu, of mikil áhersla á keppni og árangur, óánægja með þjálfara, meiðsli, fjárhagsvandræði foreldra, einhæfur félagsskapur og eigið áhugaleysi.

Félagið reynir eftir fremsta megni að ráða þjálfara með þjálfaramenntun og/eða aðra uppeldis- og kennslufræðimenntun og sendir fólk úr sínum röðum á námskeið hjá viðkomandi sérsambandi.

Stefnt er að því að ungir iðkendur fái æfingatíma sem hentar þeirra aldri og æfingar verði ekki langt fram á kvöld, sé þess kostur.

Hjá félaginu er lögð áhersla á að finna verkefni við hæfi iðkenda, hvort heldur er getumikla eða getulitla einstaklinga.

Skipun stjórnar – hlutverk stjórnarmanna

Stjórn er kosin á aðalfundi sem skal haldinn eigi síðar en 1. mars ár hvert. Stjórnarmenn eru kjörnir til eins árs í senn. Kosinn er formaður, gjaldkeri og ritari en í aðalstjórn eru einnig allir formenn deilda félagsins.  Skylt er að halda stjórnarfundi reglulega og rita fundargerðir um þá.

Hver deild innan Sindra hefur á að skipa stjórn sem ber ábyrgð á rekstri deildarinnar. Stjórnir deilda bera ábyrgð á því að kynna þjálfurum sínum þessa handbók. Aðalfund deildar skal halda að minnsta kosti tveimur vikum fyrir aðalfund félagsins.

Samkvæmt lögum félagsins skal rekstur þess og hverrar deildar vera hallalaus á hverju ári. Aðalstjórn félags setur verklagsreglur um fjárreiður og bókhald félagsins og hefur framkvæmda-stjórn eftirlit með því að þeim sé fylgt. Aðalfundur skal samþykkja fjárhagsáætlun.

Helstu verkefni aðalstjórnar:

 • Að móta starf og stefnu félags, setja markmið og gera áætlanir.
 • Að framfylgja eða sjá til þess að stefnu, markmiðum og áætlunum sé hrint í framkvæmd.
 • Að skipa í ráð og nefndir, skilgreina verksvið þeirra og fylgjast með að unnið sé samkvæmt því.
 • Að taka á móti erindum er félaginu berast og afgreiða þau.
 • Að leysa vandamál er upp kunna að koma.
 • Að móta hugmyndir og tillögur um ný viðfangsefni.

Formaður aðalstjórnar hefur yfirumsjón með starfsemi félagsins og sér til þess að stefnu þess sé fylgt. Hann sér til þess að félagsmenn séu alltaf vel upplýstir um tilgang, stefnu og markmið félagsins. Formaður undirbýr stjórnarfundi, boðar til þeirra og stýrir þeim.

Gjaldkeri aðalstjórnar er ábyrgur fyrir öllum fjármálum og bókhaldi félagsins. Gjaldkeri sér um gerð fjárhagsáætlunar og leggur hana fyrir stjórn ásamt formanni. Gjaldkeri samþykkir greiðslur en framkvæmdastjóri sér um að greiða reikninga fyrir hönd aðalstjórnar.

Ritari er ábyrgur fyrir fundargerðum, ritun þeirra, dreifingu og varðveislu. Fundargerðir skal rita á öllum fundum félagsins, þar sem fram koma þau mál sem tekin eru fyrir, ákvarðanir og framkvæmd þeirra. Fundargerð skal senda á stjórnarmenn/fundarmenn strax eftir fund eða eins fljótt og auðið er. Ritari sér um bréfaskriftir í samráði við formann og stjórn og hefur umsjón með útgáfu- og kynningarmálum félagsins.

Helstu verkefni stjórna íþróttadeilda:

 • Að framfylgja eða sjá til þess að stefnu, markmiðum og áætlunum sé hrint í framkvæmd.
 • Stjórnun fjármála deildarinnar, gerð fjárhagsáætlana ásamt bókhalds- og fjárhagslegu aðhaldi.
 • Að sjá um ráðningu þjálfara og annarra starfsmanna deildarinnar.
 • Innheimta æfingagjalda og árgjalda.
 • Að halda utan um félagsstarfið ásamt foreldraráðum.
 • Að leysa vandamál er upp kunna að koma.
 • Að móta hugmyndir og tillögur um ný viðfangsefni.

Formaður deildar er fulltrúi hennar út á við og málsvari gagnvart öðrum aðilum. Formaður situr formanna- og samráðsfundi viðkomandi sérsambands ÍSÍ. Formaður hefur ásamt gjaldkera umsjón með gerð fjárhagsáætlunar fyrir deildina. Formaður undirbýr stjórnarfundi, boðar til þeirra og stýrir þeim.

Gjaldkeri deildar er ábyrgur fyrir fjármálum og bókhaldi deildarinnar. Gjaldkeri sér um gerð fjárhagsáætlunar og leggur hana fyrir aðalstjórn ásamt formanni. Gjaldkeri hefur umsjón með innheimtu æfingagjalda, samþykkir greiðslur, greiðir reikninga, ásamt því að halda utan um sjóði deildarinnar. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjáröflunum deildarinnar.

Ritari sér um að halda utan um félagatal deildarinnar. Ritari er ábyrgur fyrir fundargerðum, ritun þeirra, dreifingu og varðveislu. Fundargerðir skal rita á öllum fundum deildar, þar sem fram koma þau mál sem tekin eru fyrir, ákvarðanir og framkvæmd þeirra. Fundargerðir skulu vera aðgengilegar á skrifstofu félagsins.

Hlutverk meðstjórnenda

Meðstjórnendur taka virkan þátt í að fylgja stefnu og markmiðum félags. Einn meðstjórnandi skal kosinn varaformaður og vera staðgengill formanns. Stjórn getur falið einstökum stjórnarmönnum að vera tengiliður við ráð eða nefndir innan félagsins.

Siðareglur stjórnarmanna og starfsmanna

Þú sem stjórnarmaður eða starfsmaður:

 1. Stendur vörð um anda og gildi félagsins.
 2. Kemur fram við alla félagsmenn sem jafningja.
 3. Hefur ávallt lýðræðisleg vinnubrögð í heiðri.
 4. Heldur félagsmönnum vel upplýstum og gerir þá virka í ákvarðanatökum eins og hægt er.
 5. Ert ávallt til fyrirmyndar í hegðun og framkomu, bæði innan félags og utan.
 6. Tekur alvarlega þá ábyrgð sem þú hefur gagnvart félaginu og iðkendum.
 7. Notfærir þér aldrei stöðu þína hjá félaginu til eigin framdráttar á kostnað félagsins.
 8. Tekur og beitir gagnrýni á jákvæðan hátt.

Forvarnarstefna Umf Sindra

 1. Forvarnargildi íþrótta.

Íþróttahreyfingin gegnir mikilvægu hlutverki í vímuvörnum. Rannsóknir á högum barna og ungmenna sýna að ungmenni sem eru virk í íþróttastarfi reiðir betur af og neyta síður vímuefna en þau sem ekki taka þátt. Einnig sýna rannsóknir að neysla tóbaks og annarra vímuefna hefur neikvæð áhrif á árangur í íþróttum. Félagið vill efla enn frekar vímuvarnagildi íþrótta með því að taka skýra afstöðu gegn neyslu í tengslum við íþróttir. Í þessari stefnuyfirlýsingu er talað um „vímuefnaneyslu“, þá er átt við neyslu tóbaks, áfengis og annarra vímuefna.

 1. Neysla vímuefna og tóbaks

Öll notkun vímuefna og tóbaks er bönnuð á yfirráðasvæðum ungmennafélagsins Sindra og er félagið andvígt neyslu hverskonar vímuefna.

Öll neysla vímuefna og hverskyns tóbaks er bönnuð á æfingum, sýningum, ferðalögum og mótum á vegum félagsins. Verði þjálfari eða starfsmenn Sindra var við brot á þessu ber þeim að láta formenn deilda vita eða framkvæmdastjóra félagsins.

 1. Viðbrögð félagsins við neyslu iðkenda.

Félagið mun bregðast sérstaklega við allri neyslu iðkenda undir 18 ára aldri og foreldrar verða undantekningarlaust upplýstir um slíka neyslu.

Þegar um sjálfráða einstaklinga er að ræða (eldri en 18 ára) mun félagið bregðast við vímuefnaneyslu þeirra, þar sem reglur félagsins eru brotnar (sbr. lið 2) og þar sem hún hefur áhrif á ástundun, frammistöðu og ímynd félagsins.

Viðbrögð félagsins við broti á reglum þessum verða í formi tilmæla og ábendinga. Skili slík viðbrögð ekki árangri getur komið til tímabundið bann frá æfingum og eða keppni.

Viðbrögð Ungmennafélagsins Sindra munu samt sem áður alltaf mótast af vilja til að aðstoða iðkandann við að laga sig að reglunum og styðja hann í að halda áfram að stunda íþróttir með Sindra.

 1. Hlutverk þjálfara í forvarnarstefnu félagsins

Þjálfarar skulu vinna eftir forvarnarstefnu félagsins, þar með talið að bregðast við vímuefnaneyslu iðkenda á viðeigandi hátt. Til að sem best verði tryggt að stefnu félagsins í forvörnum gegn vímefnanotkun verði náð mun félagið leitast við að uppfræða þjálfara, leiðbeinendur og aðra starfsmenn og leiðbeina þeim um viðbrögð við neyslu iðkenda og annarra á félagssvæðinu. Þjálfarar skulu framfylgja stefnu félagsins varðandi samstarf við foreldar og aðra aðila, sem sinna málfefnum barna og unglinga.

 1. Samstarf við foreldra

Félagið mun upplýsa foreldra um stefnu félagsins í vímuvörnum. Félagið mun standa að góðu samstarfi við foreldra iðkenda með fræðslu um neikvæð áhrif áfengis og annarra vímuefna á árangur í íþróttum auk fræðslu til foreldra um þjálfun og æskilegt mataræði íþróttafólks. Félagið mun starfa náið með fagfólki í vímuvörnum og hafa samráð við foreldra þurfi að taka á vandamáli iðkanda undir sjálfræðisaldri.

 1. Samstarf við aðra aðila sem sinna málefnum barna og unglinga

Félagið mun hafa náið samstarf við þá aðila sem sinna tómstundastarfi og forvarnarstarfi barna og unglinga í sveitafélaginu. Félagið mun hafa náið samstarf við fagaðila sem sinna börnum og unglingum, fá frá þeim fræðsluefni og hafa samráð um einstaklinga í áhættuhópi.

 1. Kynferðislegt ofbeldi

Félagið vil sporna við því í hvívetna að kynferðislegt ofbeldi geti átt sér stað innan félagsins eða í tengslum við starfsemi þess. Félagið mun hafa þetta m.a. í huga í tengslum við fræðslumál. Félagið mun í því skyni uppfræða starfsfólk um hugsanleg merki um kynferðislegt ofbeldi ásamt því að uppfræða um það hvernig hægt er að komast hjá því að slíkt eigi sér stað sem og að bregðast við því ef upp kemur.

Forvarnir í einelti

Þjálfarinn gegnir lykilhlutverki í uppeldisstarfi íþróttafélaga og í starfi sínu er honum oft trúað fyrir jákvæðum, jafnt sem neikvæðum atvikum og jafnvel einelti. Mikilvægt er að þjálfari rannsaki eða kanni hvað raunverulega gerðist, heyri upplifun viðkomandi aðila og meti svo hvort um einelti er að ræða eða ekki. Ef svo er skal gripið til aðgerðaráætlunar félagsins. Mikilvægt er fyrir þjálfara að skrá allt hjá sér og vera ekki einir í viðtölum þegar jafn alvarlegt mál og einelti er um að ræða.

Íþróttafélagið einsetur sér að leysa eineltismál á farsælan og ábyrgan hátt. Félagið hefur upplýsingaskyldu gagnvart foreldrum og forráðamönunnum barna og ungmenna og reynir að rækja þá skyldu eins og frekast er unnt. Viðkvæm mál verða ekki leyst án þess að trúnaður og traust ríki milli þeirra sem málin varða og þeirra sem að þeim koma. Í minniháttar tilvikum nægir að þjálfari eða starfsmaður ræði við iðkanda/iðkendur um hegðunina til að mál leysist farsællega. Aðgerðarferli félagsins er eftirfarandi:

 1. Þeir sem verða varir við samskiptavanda reyna að leysa hvert atvik um leið og það kemur upp eða eins fljótt og unnt er. Líklegast er að þjálfari, starfsmaður og/eða sjálfboðaliði, sem starfar fyrir félagið, geti leyst sum mál strax. Að grípa fljótt inn í með þessum hætti getur komið í veg fyrir að mál vindi upp á sig og verði mun erfiðari viðfangs. Því er mjög mikilvægt að bregðast alltaf við neikvæðri hegðun og leiða slíkt aldrei hjá sér.
 2. Ef ekki næst að leysa málið strax er mikilvægt að þjálfarinn kanni nánar hvað búið er að ganga á. Ræða þarf við iðkendur sitt í hvoru lagi til að fá staðreyndir á hreint. Síðan ber að tilkynna málið til yfirþjálfara/framkvæmdastjóra eða formanns deildarinnar. Þjálfarinn, í samráði við þessa aðila hefur í kjölfarið samband við foreldra/forráðamenn þeirra iðkenda sem koma að málinu. Einnig gæti komið til þess að boða foreldra allra iðkenda í hópnum á fund.
 3. Ef málið er orðið stærra en svo að hægt sé að leysa það á farsælan hátt samkvæmt liðum 1 og 2 hér að ofan, verður leitað til sérfræðinga um eineltismál utan félagsins.

Viðbrögð við kynferðislegu ofbeldi

Í 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er að finna ákvæði um tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda ef ljóst þykir að barn hafi verið vanrækt, því misþyrmt eða ef það býr við aðstæður sem geta lagt heilsu þess og þroska í hættu. 16. gr. hefur að geyma almenn ákvæði, þ.e. snýr að skyldu almennings en 17. gr. inniheldur ítarlegri ákvæði varðandi þá sem stöðu sinnar vegna hafa afskipti af börnum. Sú grein snýr einnig að þjálfurum og öðrum þeim er vinna með börnum innan íþróttahreyfingarinnar. Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

Aðgerðarferli félagsins er eftirfarandi:

 1. Ef grunur vaknar hjá starfsmanni/þjálfara/sjálfboðaliða um að iðkandi hafi orðið fyrir ofbeldi af einhverju tagi þ.m.t. kynferðislegu ofbeldi skal viðkomandi leita með áhyggjur sínar til yfirmanns.
 2. Upplýsa skal foreldra um málið sem fyrst.
 3. Ríki óvissa með hvort tilkynna eigi mál til barnaverndaryfirvalda á stjórn félags ávallt kost á að leita ráða og fá viðbrögð frá barnaverndaryfirvöldum í viðkomandi sveitarfélagi.
 4. Tilkynning til barnaverndaryfirvalda eða lögreglu er að öllu jöfnu gerð í nafni félagsins, sér í lagi ef meintur gerandi er starfsmaður þess eða iðkandi.
 5. Tilkynningarskyldan gengur framar þagnarskylduákvæðum.
 6. Taki yfirvöld mál til rannsóknar þar sem meintur gerandi er starfsmaður er honum vikið úr starfi sínu tímabundið á meðan á rannsókn málsins stendur yfir.
 7. Leiki grunur á að brotið hafi verið á barni á heimili er öryggis þess best gætt með því að tilkynna það beint til viðkomandi barnaverndaryfirvalda.
 8. Ef barn segir frá ofbeldi á það alltaf að njóta vafans. Trúa skal orðum og upplifunum þess, þá er mikilvægt er að hlusta á barnið en varast skal að yfirheyra það. Láta skal barnið vita að það er rétt að segja frá og að ofbeldið sé ekki á ábyrgð þess. Tilkynna skal því næst atvikið til barnaverndar eða lögreglu.

Umhverfisstefna Ungmennafélagsins Sindra

Það er mikilvægt að íþróttastarf fari fram í sátt við umhverfið og að einstaklingar, félagasamtök og fyrirtæki standi saman við að vernda náttúruna og umhverfið eins og hægt er með það að markmiði að komandi kynslóðir taki við jafn góðu eða betra búi.

Ungmennafélagið Sindri hefur þá skyldu að efla vitund starfsmanna, iðkenda og almennings á ábyrgð hvers einstaklings í umhverfismálum og að gæta þess að við allt starf innan félagsins verði umhverfis- og mannlífssjónarmið höfð að leiðarljósi. Ungmennafélagið mun leitast við að leiðbeina og upplýsa iðkendur, foreldra og starfsmenn félagsins um stefnu félagsins í umhverfismálum.

 1. Að ábyrg umgengni við landið verði hluti af uppeldis- og íþróttastarfi félagsins.
 2. Félagið hvetur iðkendur og starfsmenn sína til að ganga eða hjóla á æfingar hjá félaginu sé þess nokkur kostur. Einnig skulu forráðamenn ökutækja vera vakandi yfir því að sameinast í bíla þegar farið er í keppnisferðalög og eða á æfingar sem ekki eru í göngufæri.
 3. Félagið skal leggja sig fram um að takmarka pappírsnotkun eins og hægt er. Það er gert með því að nota sem mest rafræna miðla og rafrænan póst og stilla í hóf alla prentun, svo sem dreifimiða og hverskyns skilaboð.
 4. Iðkendur eru hvattir til að tappa sjálfir vatni á flöskur og hafa með sér hollt nesti í margnota umbúðum á æfingar og í keppnisferðir. Félagið leggur áherlsu á að flokkun umbúða er krafa í nútímaþjóðfélagi og eru allir hvattir til að skila sínu í þeirri vinnu.
 5. Félagið skal standa fyrir miðlun á æfinga- og keppnisfatnaði frá eldri iðekndum til yngri með því að halda skiptimarkað tvisvar á ári. Sóun á fatnaði er sóun á náttúruauðlindum.
 6. Iðkendur og starfsmenn eru hvattir til að nota ruslafötur og fara sparlega með hreinsiefni, sápur og sjampó í búningsklefum.
 7. Mikilvægt er að ganga vel um áhöld og tæki félagsins til að lengja endingartíma þeirra. Endurnýjun tækja er bæði dýr fyrir félagið og umhverfið.
 8. Öll umhirða og umgengni á svæði félagsins, Sindravöllum og félagsheimilinu Heklu, skal vera til fyrirmyndar. Umhirða gróðurs á Sindravöllum, útlit auglýsingaskilta og áhorfenda-svæðis skal vera snyrtilegt og félaginu til sóma.
 9. Iðkendur og starfsmenn skulu virða þær reglur sem gilda um umgengni um svæðið og hvetja aðra til að gera slíkt hið sama.

Þjálfarar

Þjálfarar eru ráðnir af stjórn hverrar deildar fyrir sig og skulu starfa samkvæmt ráðningarsamningi. Stefnt skal að því að allir þjálfarar hafi einhverja þjálfaramenntun. Þjálfarar bera ábyrgð á eigum félagsins sem notaðar eru til þjálfunar og skulu vera iðkendum fordæmi um umgengni um tæki og mannvirki sem notuð eru til æfinga.

Þjálfarar skulu vinna eftir forvarnarstefnu félagsins, þar með talið að bregðast við vímuefnaneyslu iðkenda á viðeigandi hátt. Þá skulu þjálfarar fara yfir siðareglur félagsins með iðkendum og foreldrum.

Siðareglur þjálfara

Þú sem þjálfari:

 1. Hefur ávallt í huga að hlutverk þitt er að byggja upp iðkendur bæði líkamlega og andlega.
 2. Styrkir jákvæða hegðun og framkomu meðal iðkenda.
 3. Sérð til þess að þjálfun og keppni sé við hæfi iðkenda.
 4. Heldur á lofti heiðarleika innan íþróttarinnar.
 5. Viðurkennir og virðir ákvarðanir sem dómarar taka.
 6. Kennir iðkendum að bera ábyrgð á eigin hegðun og framförum í íþróttinni.
 7. Ert réttlátur, umhyggjusamur og heiðarlegur gagnvart iðkendum.
 8. Forðast neikvæða gagnrýni.
 9. Setur ávallt heilsu, öryggi og heilbrigði iðkenda í forsæti.
 10. Sýnir umhyggju þeim iðkendum sem orðið hafa fyrir meiðslum.
 11. Viðurkennir rétt iðkandans til þess að leita ráða frá öðrum þjálfurum.
 12. Sýnir aldrei eða leyfir ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.
 13. Forðast of náið samneyti og óviðeigandi samskipti við iðkendur.
 14. Sinnir iðkendum á æfingum en þess utan skaltu halda faglegri fjarlægð.
 15. Notaðu samskipti í gegnum síma og internetið aðeins til boðunar æfinga og upplýsingagjafar.
 16. Talar alltaf gegn neyslu ólöglegra lyfja, fíkniefna, áfengis og tóbaks.
 17. Kemur eins fram við alla iðkendur.

Keppnis- og æfingaferðir

Hlutverk þjálfara í keppnisferðum er mikilvægt. Þjálfara ber að skipuleggja lið þegar kemur að keppni og utanumhaldi.

Áður en lagt er af stað:

 • Þjálfarar sjá til þess að viðkomandi flokkur/hópur sé undirbúinn fyrir viðkomandi keppni.
 • Þjálfari, í samstarfi við tengil/fulltrúa foreldra, skráir lið/hóp til leiks og er milligönguaðili við mótshaldara.
 • Þjálfari, í samstarfi við fararstjóra, ákveður hvenær skuli leggja af stað í ferðir.
 • Þjálfari, í samstarfi við tengil/fulltrúa foreldra, heldur foreldrafund fyrir mót og fer yfir mótið og þær tímasetningar sem liggja fyrir.

Á ferðalagi:

 • Þjálfari, í samstarfi við fararstjóra, telur iðkendur og gengur úr skugga um að allir séu mættir.
 • Þjálfari, í samstarfi við fararstjóra, sér til þess að iðkendur fari eftir settum reglum.
 • Þjálfari undirbýr lið á leikstað og stjórnar liði á meðan á leik stendur.
 • Þjálfari, í samstarfi við fararstjóra, sér til þess að ekkert gleymist í búningsklefa.

Ferðalög sem eru með gistingu:

 • Þjálfari setur fram skipulag með tímasetningum um hvenær eigi að mæta í mat, leiki og fara að sofa. Hann sér einnig til þess að tímasetningum sé fylgt eftir.
 • Þjálfari sér til þess, í samstarfi við fararstjóra, að iðkendur séu ávallt sjálfum sér og félaginu til sóma.
 • Þjálfarar eru fararstjórum innan handar ef eitthvað kemur upp á.
 • Gistiferðalög eru tækifæri fyrir þjálfara að efla hópinn t.d. með leikjum.

Iðkendur

Þegar nýr iðkandi byrjar hjá Sindra eru nokkur atriði sem ganga þarf frá til að tryggja að foreldrar og iðkandi fái upplýsingar um starf innan félagsins, að viðkomandi sé rétt skráður og gengið sé frá greiðlsu æfingagjalda. Skráning fer fram hjá þjálfara eða í gegnum NORA. Með skráningu er iðakandi orðinn meðlimur í Sindra og getur byrjað æfingar. Öllum er heimilt að prufa æfingar um tveggja vikna skeið áður en gengið er frá skráningu. Iðkandi getur ekki keppt í nafni Sindra nema hann sé skráður sem iðkandi og þar með félagsmaður í Sindra.

Greiðsla æfingagjalda fer fram í gegnum NORA. Sveitarfélagið Hornafjörður greiðir tómstundastyrk til barna á aldrinum 6-18 ára.

Siðareglur iðkenda

Þú sem yngri iðkandi:

 1. Gerir alltaf þitt besta.
 2. Virðir alltaf reglur og venjur og sýnir alltaf heiðarleika í íþróttum.
 3. Sýnir öllum iðkendum virðingu, jafnt samherjum sem mótherjum.
 4. Þrætir ekki eða deilir við dómarann.
 5. Sýnir öðrum virðingu og ert heiðarlegur og opinn gagnvart þjálfara og forystufólki félagsins.
 6. Forðast neikvætt tal eða niðurlægjandi köll á vettvangi félagsins.
 7. Kemur fram við aðra eins og þú vilt að aðrir komi fram við þig.
 8. Mætir alltaf á réttum tíma á æfingar, keppnir eða aðra viðburði á vegum félagsins.
 9. Berð ætíð virðingu fyrir nafni og búningi félagsins.

Þú sem eldri iðkandi:

 1. Gerir alltaf þitt besta.
 2. Virðir alltaf reglur og venjur og sýnir alltaf heiðarleika í íþróttum.
 3. Sýnir öðrum ávallt virðingu, jafnt í meðbyr sem mótbyr.
 4. Hefur heilbrigði alltaf að leiðarljósi og tekur aldrei áhættu með heilsu þína.
 5. Neytir aldrei ólöglegra lyfja til að bæta árangur þinn.
 6. Virðir alltaf ákvarðanir dómara og annarra starfsmanna.
 7. Berð virðingu fyrir hæfileikum og getu annarra.
 8. Forðast neikvæð ummæli eða skammir.
 9. Ert heiðarlegur og opinn í samvinnu við þjálfara og aðra sem styðja þig.
 10. Berð sjálfur höfuðábyrgð á framförum þínum og þroska.
 11. Ert ávallt til fyrirmyndar í framkomu, jafnt utan vallar sem innan.
 12. Hefur hugfast að þú ert fyrirmynd yngri iðkenda.
 13. Sýnir aldrei eða leyfir ógnandi eða ofbeldisfulla tilburði.
 14. Forðast of náið samneyti og náin samskipti við þjálfara þína.
 15. Skalt ætíð bera virðingu fyrir nafni og búningi félagsins.

Góðir siðir fyrir iðkendur

 1. Ég er stundvís, ég mæti a.m.k. 10 mín. fyrir æfingar og á réttum tíma í leiki/keppni.
 2. Ég er jákvæður og í góðu skapi á æfingum og í leikjum, því mér finnst gaman í íþróttinni.
 3. Ég kem kurteislega fram við mótherja, því ég vil að hann komi vel fram við mig.
 4. Ég legg mig alltaf 100 % fram.
 5. Ég tek sigri með hóflegri gleði og tapi með jafnaðargeði.
 6. Ég hjálpa samherjum eins og ég get á æfingum, í leik og hvar sem er.
 7. Ég geng vel um búningsklefa, íþróttasali og íþróttavelli, bæði hér heima og annars staðar þar sem ég kem sem mótherji, gestur eða áhorfandi.
 8. Ég ber virðingu fyrir Sindrabúningnum og geng snyrtilega frá honum eftir keppni. Sama gildir um aðrar eignir Sindra.

Ég er í íþróttum fyrir sjálfan mig, af því að það er hollt og skemmtilegt en ég reyni líka alltaf að vera félaginu og mínum nánustu til sóma, innan vallar sem utan

Foreldrar

Foreldrar geta aðstoðað við starf félagsins á margvíslegan hátt. Það er hægt að starfa sem tengill, fararstjóri, vinna á mótum sem Sindri heldur, vinna að fjáröflunum ofl.

Ef óánægja er með störf þjálfara skal leita til stjórnar viðkomandi deildar. Ef upp koma mál sem snýr að samskiptum barna á æfingum skal haft samband við þjálfara og til stjórnar deildar ef það skilar ekki árangri.

Siðareglur foreldra

Þú sem foreldri eða forráðamaður hafðu ávallt hugfast að:

 1. Barnið þitt er í íþróttum á eigin forsendum.
 2. Þú átt að hvetja barnið þitt til þátttöku í íþróttum.
 3. Það er þitt hlutverk að hvetja barnið þitt til að fara eftir og virða reglur íþróttanna.
 4. Þú ert börnum fyrirmynd í því að taka ósigri af æðruleysi og sigri hrokalaust.
 5. Þú átt að kenna barninu að bera virðingu fyrir störfum þjálfarans.
 6. Þú átt að líta á dómarann sem leiðbeinanda barnsins þíns.
 7. Þú átt að styðja og hvetja öll börn og ungmenni – ekki bara þín eigin.
 8. Vera jákvæður, bæði þegar vel gengur og þegar illa gengur.
 9. Aldrei má gera grín að barni eða hrópa að því ef það gerir mistök.
 10. Meta þátttöku sjálfboðaliða hjá félaginu sem leggja grunn að starfi þess.
 11. Spyrja barnið hvort keppnin eða æfingin hafi verið skemmtileg en ekki eingöngu um úrslit.

Tenglar

Ýmsar flokkar innan deilda Sindra hafa tengla úr röðum foreldra. Þeir eru valdir í byrjun starfsárs, þ.e. september, og hafa nokkur verkefni.

 • Sjá um að finna bílstjóra og fararstjóra áður en farið er á mót
 • Skipuleggja með þjálfara hvaða mót skuli farið á.
 • Skipuleggja með þjálfara foreldrafundi

Fararstjórar

Sindri leggur áherslu á að ávallt fylgi fararstjóri/fararstjórar með í ferðir á vegum félagsins, sérstaklega þegar um er að ræða börn og unglinga. Hlutverk fararstjóra er viðamikið og mikilvægt varðandi utanumhaldi og stuðning við iðkendur félagsins á ferðalögum.

Sindri leggur til eftirfarandi vinnureglur fyrir fararstjóra:

Áður en lagt er af stað:

 • Fá nafnalista með nöfnum iðkenda og forráðamanna auk símanúmera.
 • Fararstjórar hittist og fari yfir ferðina áður en lagt er af stað.
 • Fá upplýsingar frá foreldrum um iðkendur sem eru með sérþarfir t.d. ofnæmi ofl.
 • Fararstjórar rukka fyrir ferðina áður en lagt er af stað og koma peningum á rétta aðila.

Á ferðalagi:

 • Fararstjórar ákveða hvar skuli stoppa á ferðalaginu.
 • Fararstjórar tryggja að farangur skili sér í og úr farartæki. Þeir fara yfir farartækð eftir að iðkendur eru farnir út og tryggja að ekkert hafi gleymst. Þetta á einnig við um klefa og önnur svæði sem iðkendur eru á.
 • Fararstjórar sjá til þess að iðkendur gangi vel um og séu félaginu til sóma.

Í gistiferðalögum:

 • Fararstjórar sjá til þess að allir iðkendur komi sér fyrir.
 • Fararstjórar sjá til þess að iðkendur komist í ró á kvöldin og vakni á tilsettum tíma sem er ákveðinn í samráði við þjálfara.
 • Fararstjórar sjá til þess að iðkendur mæti á tilsettum tíma í mat og á leikstaði í samráði við þjálfara.
 • Fararstjórar sjá til þess að iðkendur gangi vel um gistiaðstöðu og mötuneyti og séu félaginu til sóma.
 • Ef fararstjórar eiga sjálfir að sjá um matseld þarf að skipuleggja matseðil og kaupa inn áður en lagt er af stað í ferðalagið.
 • Fararstjórar koma upplýsingum um iðkendur með óþol eða ofnæmi til mótshaldara.
 • Ef um er að ræða mót þar sem bæði kyn eru skal fararstjóri leitast eftir því að kynjaskipta í stofur.

Fararstjórar skulu ávallt vera iðkendum og þjálfurum innan handar. Iðkendur eiga ávallt að geta leitað til fararstjóra í ferðum, stuttum sem löngum.

Góðir siðir fyrir foreldra

 1. Mætið bæði á leiki/mót og æfingar, börnin æskja þess.
 2. Hvetjið börnin bæði þegar vel gengur og þegar á móti blæs.
 3. Berið virðingu fyrir störfum þjálfarans.
 4. Hafið áhrif og hvetjið börnin til þátttöku, ekki þvinga þau.
 5. Spyrjið hvort leikurinn/keppnin hafi verið skemmtilegur eða spennandi.
 6. Leitið eftir réttum og skynsamlegum árangri.
 7. Sýnið starfi félagsins virðingu, verið virk á foreldrafundum og þar sem umræður fara fram um þjálfun og markmið.

 

 

Höfn í Hornafirði, febrúar 2019.