Fimleikadeild Sindra var svo stofnuð af Alberti Eymundssyni 1986-87. Fékk hann í lið með sér tvo íþróttakennara, þær Ágústínu Halldórsdóttur og Jóhönnu Stefánsdóttur og voru þær því fyrstu þjálfarar fimleikadeildarinnar. Strax var ágætis áhugi á fimleikunum og þó nokkrir iðkendur byrjuðu að æfa. Eftir fyrsta árið var því ákveðið að boða til foreldrafundar þar sem fyrsta stjórn deildarinnar var stofnuð. Í byrjun var boðið upp á almenna fimleika en seinna var valin sú leið vegna ýmissa aðstæðna að bjóða einungis upp á hópfimleika og höfum við keppt í því síðust ár.

Fyrstu árin var tækjabúnaður af skornum skammti en með tímanum hefur deildin bætt nokkuð við sig af tækjum og í dag eigum við t.d. dansgólf, fíberdýnu svo eitthvað sé nefnt og gætum í raun haldið mót í hópfimleikum.  Í dag er iðkendafjöldinn enn að aukast og eru um 100 iðkendur í fimleikadeildinni sem er nokkuð mikið í litlu bæjarfélagi. Einnig er gaman að segja frá því að nú starfa 6 þjálfarar að jafnaði við deildina og hafa náð góðum árangri í starfinu. Farið hefur verið á mörg mót og Sindra krakkarnir unnið til fjölda verlauna og má nefna að núna í vor urðu drengir  í flokki 11-12 ára bikarmeistarar á móti í Keflavík.  Einnig höfum við átt Íslandsmeistara sem við erum mjög stolt af.

Stefna deildarinnar er að eldri flokkarnir fái að fara á tvö mót á ári ásamt einni ferð í æfingabúðir. Vegna staðsetningar okkar á Höfn er oft erfitt að fylgja þessu eftir en tókst okkur það í ár. Einnig endurvöktum við innanfélagsmót sem haldið var núna í apríl og tókst með eindæmum vel. Er stefnt að því að gera það að árlegum viðburði.  Reglulega er reynt að gera eitthvað skemmtilegt með krökkunum, sem dæmi má nefna að um daginn var foreldradagur hjá okkur. Þá komu foreldrar á æfingu og krakkarnir fengu að láta þá púla svolítið og sprella. Okkur þykir mikilvægt að eitthvað slíkt sé gert bæði á haustönn og vorönn því félagslegi þátturinn skiptir okkur miklu máli. Börnin verða fyrst og fremst að hafa gaman af að æfa því þá lætur árangurinn ekki á sér standa.