Leikmannahópurinn hjá meistaraflokki kvenna sumarið 2017

  • Post category:Knattspyrna

Eins og öllum ætti nú að vera kunnugt þá stendur kvennalið Sindra frammi fyrir sinni stærstu áskorun frá upphafi kvennaknattspyrnu á Hornafirði. Liðið hefur styrkt sig fyrir átökin í 1.deildinni en sjö nýjir leikmenn eru komnar til félagsins til að styrkja annars frábæran hóp heimastelpna sem spilar með liðinu í sumar.

Alexandra Sæbjörg Hearn kemur til okkar frá nágrönnum okkar í Fjarðabyggð en hún er varnarmaður, fædd árið 1995 og á að baki 64 leiki í 1. deild kvenna þar sem hún hefur skorað 1 mark.

Erla Dís Guðnadóttir er fædd árið 1994 og kemur til okkar frá Hvíta riddaranum þar sem hún hefur leikið 25 leiki síðustu tvö tímabil. Hún er fjölhæfur leikmaður og getur meira að segja verið á milli stanganna ef svo ber undir. Hún hefur góða tengingu við Hornafjörð þar sem hún er tengdadóttir Bylgju Kristjáns og Stjána.

Laufey Lára Höskuldsdóttir  er varnar- og miðjumaður og er fædd árið 1995. Laufey sem mest megnis hefur leikið handbolta, kemur frá Hömrunum þar sem hún hefur leikið seinustu tvö tímabil en hún ætlar að taka fram takkaskóna af fullri alvöru í sumar og fregnir herma að hún eigi einhverja Íslandsmeistaratitla að baki með yngri flokkum KA í fótboltanum.

Þessir þrír ofantaldir leikmenn hafa þegar haft félagaskipti og munu leika með liðinu í Lengjubikarnum sem hefst um næstu helgi.

Fjórir erlendir leikmenn hafa skrifað undir samning við Sindra og munu koma til landsins í mars, apríl og í maí.

Chestley Strother er 23 ára miðjumaður frá Texas. Hún hefur alla sína tíð leikið í Bandaríkjunum, seinast hjá Houston Dash. Chestley er titlum hlaðin frá ferli sínum þar ytra og var meðal annars valin í All-American liðið árið 2015 auk þess sem hún hefur skorað fjöldan allan af mörkum.

Phoenetia Browne er 23 ára er sóknarmaður, einnig frá Texas. Hún hefur verið fyrirliðið landsliðs Saint Kitts and Nevis auk þess sem hún er einnig titlum hlaðin úr Bandaríska boltanum og hefur margsinnis verið valin MVP í liði sínu.

Sara Small er 24 ára markvörður frá Californíu. Sara hefur sett met í markvörslu fyrir liðið sitt í Bandaríkunum auk þess sem hún ku eiga skólamet í stangarstökki í háskólanum sínum!

Shameeka Fishley er 24 ára miðjumaður frá Englandi en hún var meðal annars í unglinga- og varaliði Chelsea frá 2011-2013. Seinustu ár hefur hún verið í háskólabolta í Bandaríkjunum þar sem hún hefur gert það gott og skorað grimmt fyrir liðið sitt.

„Við erum virkilega ánægð að fá þessa leikmenn til okkar. Þetta fer allt að smella saman með góðri blöndu af heimastelpum og svo þessum nýju leikmönnum. Deildin verður virkilega spennandi og erfitt að spá fyrir um hana, þannig er það skemmtilegast“. Segir Ingvi Ingólfs þjálfari kvennaliðs Sindra.

Heimastelpurnar okkar verða áfram kjarni liðsins og má þar fyrst nefna að fyrirliði liðsins Inga Kristín Aðalsteinsdóttir ætlar að halda áfram að spila með liðinu en hún fer þó mögulega til náms í Bandaríkjunum í ágúst. Inga er varnarmaður og hefur leikið 50 leiki með Sindra en hún var valin mikilvægasti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð.

Jóna Benný Kristjánsdóttir er miðjumaður sem byrjaði aftur að spila fótbolta á gamals aldri eftir 6 ára pásu síðastliðið sumar en þá kom hún við sögu í 8 leikjum og skoraði 4 mörk. Hún ætlar að halda áfram í sumar en hún hefur áður spilað um 200 leiki í 1. deild kvenna og skorað í þeim um 150 mörk.

Ólöf María Arnarsdóttir er öflugur varnarmaður og hún verður áfram í Sindraliðinu, en hún hefur leikið 27 leiki með Sindra og skorað í þeim 1 mark.

Siggerður Aðalsteinsdóttir er búsett í Reykjavík yfir sumartímann en verður með Sindra í Lengjubikarnum og í sumar. Hún er bakvörður og á að baki 32 leiki fyrir Sindra.

María Hjördís Karlsdóttir kemur heim í júní eftir vetrardvöl í Danmörku. Hún lék alla leiki sem hafsent síðasta sumar og á að baki 45 leiki með Sindra í 1. deildinni.

Freyja Sól Kristinsdóttir varnamaður æfir með Þór/KA í vetur en snýr aftur á heimaslóðir í sumar og heldur áfram með feril sinn hjá Sindra. Hún spilaði nokkra leiki síðasta sumar og var mjög dugleg, en lenti síðan í erfiðum meiðslum svo hún var frá nánast allt tímabilið.

Guðrún Ása Aðalsteinsdóttir kemur heim frá Bandaríkjunum í júní og spilar með Sindra. Hún er sóknar/kantmaður, fljót að hlaupa og skoraði 1 mark síðasta sumar í 7 leikjum.

Leli Halldórsdóttir æfir með Fylki núna í vetur en kemur aftur í Sindra fyrir fyrsta leik í Íslandsmótinu. Hún getur spilað hvar sem er framarlega á vellinum og hefur skorað 1 mark í 15 leikjum fyrir Sindra.

Ylfa B. N. Stephensdóttir hefur æft með Stjörnunni í vetur en hún hefur verið að glíma við meiðsli undanfarið. Hún mun vonandi ná sér fljótt af þeim því hún hefur leik með Sindra í Lengjubikarnum um leið og hún verður orðin góð en hún hefur leikið 18 leiki með liðinu og getur leyst ýmsar stöður á vellinum. Hún var valin efnilegasti leikmaður liðsins á síðustu leiktíð.

Að auki munu bráðefnilega stelpur í 3. og 4. flokki félagsins fá tækifæri til að spila með meistaraflokki í Lengjubikarnum og jafnvel verða einhverjar þeirra hluti af æfinga- og/eða keppnishóp í meistaraflokki í sumar.

Þá er gaman að geta þess að kvennaráð hefur komið saman til fyrsta fundar. Í kvennaráði eru sjö öflugar knattspyrnuáhugakonur sem ætla að aðstoða með umgjörð í kringum kvennaliðið í sumar. Þetta eru þær Gunnhildur Lilja Gísladóttir, Linda Hermannsdóttir, Arna Ósk Harðardóttir, Kristín Ármannsdóttir, Sandra Sigmundsdóttir, Herdís Tryggvadóttir og Guðrún Ragna Valgeirsdóttir. Virkilega spennandi tímar eru framundan og ætla stelpurnar, þjálfari og kvennaráð að leggja sig fram um að skapa góða stemningu í kringum liðið! Ef fleiri eru áhugasamir um að taka þátt í því starfi þá er öll aðstoð vel þegin og um að gera að hafa samband við þjálfarann og taka þátt í þessu með okkur 🙂