Karlmenni og körfubolti

Um liðna helgi héldu dáðadrengirnir okkar , í meistaraflokki Sindra, suður á land vitandi það að fyrir höndum var risavaxið verkefni. Framundan voru tveir leikir í annarri deildinni, annar á móti Heklu á Hellu og hinn á móti Stálúlfi í Kópavogi. Það sem drengirnir vissu hinsvegar ekki var að nokkuð stórkostlegt lá í loftinu, því að eftir blóð, svita, tár og tanntöku höfðu drengirnir okkar unnið tvo frækna útisigra. Þeir lögðu Heklu með tveggja stiga mun í háspennuleik á laugardag og héldu svo upp á hvíldardaginn með tólf stiga sigri á firna sterku liði Stálúlfs í Kópavogi.

 

Eftir þessa fræknu för eiga drengirnir okkar fullan samfélagslegan og lagalegan rétt á hressilegum stuðningi allra Hornfirðinga á komandi Sunnudag kl 16:00 í íþróttahúsinu á Höfn. Þá munu risarnir í Þór Þorlákshöfn mæta okkar mönnum í bikarkeppnini. Þórsarar eru eitt besta lið landsins og efstir í úrvalsdeildinni, á meðan okkar menn í Sindra eru á fljúgandi siglingu í annarri deildinni. Það er því klárt að hér er á ferðinni einn sá stærsti, ef ekki sá alstærsti, íþróttaviðburður sem fram hefur farið á vegum UMF- Sindra. Fjölmennum því í íþróttahöllina okkar á sunnudag kl 16:00 og  grenjum  frá vömb fram á varir strákunum okkar til stuðnings.

 

Kveðja fyrirliðinn.