Það er alltaf mikið gleðiefni þegar okkar fólk nær að sjá árangur af sinni vinnu og taka næsta skref í sínum ferli. Á sama tíma er það mikil viðurkenning fyrir það starf sem hefur verið unnið í félaginu og öðrum iðkenndum mikil hvatning að sjá að það geta verið miklir möguleikar ef vel er haldið á spilunum.
Nýlega sögðum við frá því að Tómas Orri væri farinn til Bandaríkjanna og nú tilkynnum við að Birgir Leó Halldórsson er haldinn til Spánar þar sem hann hefur samið við körfuknattleiks akademínuna Zentro Basket í Madrid og mun dvelja þar út tímabilið hið minnsta. Hér er um að ræða gríðarlega stórt tækifæri fyrir Birgi til að þróa sig áfram sem leikmaður og bæta sig við frábærar aðstæður undir handleiðslu frábærra þjálfara. Á Spáni er rík körfuboltamenning enda má færa rök fyrir því að Spánn sé ein stærtsta körfuboltaþjóð heims á eftir Bandaríkjunum.
Birgir átti frábært sumar með u16 ára landsliði Ísland fyrst á Norðurlandamótinu og svo aftur í b-deild Evrópumótsins þar sem þeir lentu í 5 sæti sem er glæsilegur árangur. Birgir átti frábært mót og endaði með 11.3 stig, 3.7 fráköst og 2.6 stoðsendingar. Það skal því engan undra að Zentro sjái eitthvað í okkar manni!
Við óskum Birgi innilega til hamingju með áfangann og árangurinn og hlökkum til að fylgjast með honum áfram í framtíðinni!