Jafntefli og Gummi Steinars varð sér til skammar

Á Sindravöllum átti sér stað slagur liðanna sem voru um miðja aðra deild en fyrir leikinn voru Sindri með 21 stig en Njarðvík með 18.

Leikurinn hófst með því að liðin skiptust á að vera með boltann en á 14. mínútu fengu Njarðvíkurdrengir aukaspyrnu við vítateigsboga okkar manna. Guðmundur Steinarsson tók spyrnuna en boltinn fór rétt framhjá, en Guðmundur átti svo sannarlega eftir að við sögu seinna í leiknum. Í næstu sókn á eftir spiluðum við vel upp völlinn sem endaði með því boltinn var sendur út til vinstri og þaðan fyrir markið þar sem Fijad kom á nærstöng og skallaði boltann inn.

Tveimur mínútum eftir markið eiga drengirnir í grænu búningunum góðan kafla. Fóru þeir upp völlinn trekk í trekk sem ávallt endaði með skotum inní vítateig en Maja varði vel í öll skiptin, held að hægt sé að segja hann hafi verið maður leiksins.

Það var svo á 24. mínútu að Njarðvík fengu aukaspyrnu rétt við vítateigsbogan hjá okkur. Enn og aftur varði Maja boltann en við vörsluna rann boltinn út í teig vinstra megin þar sem Ásgrímur Rúnarsson var fyrstur að átta sig og renndi boltanum fram hjá Maja sem enn lá í jörðinni eftir vörsluna.

Um það bil 10 mínutum síðar fengum við hornspyrnu. Upp úr henni skallaði Þorsteinn háan bolta í átt að marki Njarðvikur. Eyþór Ingi markmaður virtist ekki ná að blaka boltanum almennilega í burtu áður (enda hár bolti en það er Eyþór ekki) en hann fór yfir línuna og dæmi því umdeildur dómari leiksins mark. Leikmenn Njarðvíkur mótmæltu harðlega en bæði dómari og aðstoðardómari voru vissir með sinn dóm.

Það var ekki mikið liðið af seinni hálfleik þegar dómarinn dæmdi umdeilda vítaspyrnu og er þetta enn eitt vítið sem við fáum á okkur hérna heima í sumar. Baldvin sagist vera viss um að þau væru orðin 7 eða 8 á meðan við værum ekki búin að fá neitt. En brotið sem var á 53. mínútu atvikaðist þannig að svo virtist sem Maja hafi kýlt boltann um leið og hann lenti í samstuði við Gísla Frey Ragnarsson. Við samstuðið féll Gísli og dómarinn dæmdi víti og vildi meina að Maja hafi farið fyrst í leikmanninn áður en hann fór í boltann. Þessi dómur var náttúrulega rugl því það sáu eflaust allir í stúkunni að Maja fór bara út og kýldi boltann, ef þessu dómur var víti þá þarf að dæma mjög margar vítaspyrnur í knattspyrnuleikjum hér eftir. Við mótmæltum auðvitað dómnum en vítið stóð. Á punktinn steig Guðmundur Steinarsson og sendi hann botlann örugglega í vinstra hornið og og var Maja alls ekki svo langt frá því að verja þar sem hann hafði valið rétt horn.
Lítið markvert gerðist í leiknum eftir markið þó liðin hafi fengið nokkur markskot. Þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma átti sér stað uppákoma sem endaði með rauðu spjaldi. Guðmundur Steinarsson lét þá skapið hlaupa með sig gönur er hann mótmælti harðlega að hafa ekki verið aukaspyrnu og var aðstoðardómarinn ekki sáttur með hegðun hans og lét dómarann vita. Dómarinn lyfti því gula spjaldinu og varð Guðmundur mjög ósáttur með spjaldið og sýndi um leið aðstoðardómaranum með handabendingum hversu ósáttur hann væri. Í kjölfarið fékk Guðmundur að líta sitt annað gula spjald og um leið það rauða. Guðmundur sætti sig ekki við þetta og ætlaði að ræða við aðstoðardómarann um spjöldin en var stoppaður af og lét hann þá reiði sína bitna á nálægum vatnsbrúsa. Er Guðmundur gekk til búningsklefa ákvað hann að ganga frekar inná vellinum en fyrir utan hann eftir að leikurinn hafði hafist á ný. Hann varð sér hreinlega til skammar á þessum nokkrum sek. sem honum tókst að fá þessi spjöld og koma sér af velli.
Nokkrum andartökum síðar var leikurinn flautaður af. Bæði liðin yfirgáfu völlinn ósátt með lokatölur leiksins.
Þó það eigi ekki að vera með leiðindi þá verður að segja að dómarinn átti MJÖG slakan leik og maður bara vonar hann hafi bara verið eitthvað ill fyrir kallaður.