Aðventuspjall – Gunnar Ingi Valgeirsson

Í síðasta aðventuspjallinu að þessu sinni er ekki úr vegi að tala við man sem má svo sannarlega kalla Hr. Sindra. Maðurinn heitir Gunnar Ingi Valgeirsson. Hann hóf að spila með Sindra í upphafi 9. áratugarins og gaf það svo út í haust að hann ætlaði að leggja Sindrabúninginn á hilluna, 45 ára gamall. Allir sem hafa spila knattspyrnu með Gunnari Inga geta eflaust sagt einhverja sögu um hann. Gunnar virðist aldrei fúll, nema þegar hann tapar leikjum, og hann öskraði menn ávallt áfram í leikjum. Hann gaf sitt allt fyrir liðið enda með Sindrahjartað á réttum stað. Gunnar lék allan sinn feril með Sindra fyrir utan eitt tímabil þegar hann bjó í Reykjavík og lék með Fjölni. Gunnar Ingi hefur frá mörgu að segja og hér kemur brot af hans ferli.

Hvenær byrjaðiru að æfa knattspyrnu?

Gunnar IngiÉg hreinlega man það ekki en við strákarnir vorum alltaf í fótbolta á vellinum við barnaskólann á  veturna. Albert Eymundsson var skólastjóri og hélt úti keppni á milli bekkja sem stóð yfir veturinn og þess á milli vorum við strákarnir alltaf að leika okkur í fótbolta þegar veður leyfði. Á sumrin var einnig spiluð knattspyrna en ég var í sveit á sumrin til 11 ára aldurs. Þá sagði ég stopp við mömmu og vildi vera heima yfir sumarið til að vera með strákunum í fótbolta.  Ég byrjaði svo að keppa fyrir Sindra 12 ára gamall. Íþróttahúsið kom svo  árið 1981 og þá var ég orðinn 13 ára gamall. Þá byrjaði ég markvisst að æfa körfubolta, handbolta og knattspyrnu.

 

Hefuru alltaf verið varnarmaður?

Lengst af spilaði ég á miðjunni í meistaraflokki og á mína flesta leiki þar. En þegar ég byrjaði í yngri flokkunum var ég vinstri kantmaður en fór svo í vörnina þegar ég spilaði upp fyrir mig. Þegar ég komst í meistaraflokkinn þá 16 ára 1984 var ég varamaður og var það næstu þrjú árin  eða  fram að 19 ára aldri. Haustið sem ég var 18 ára settist ég niður og íhugaði hvort ég ætlaði að halda áfram í knattspyrnu eða bara hætta. Ég ákvað að halda áfram og með þeirri ákvörðun fór ég í knattspyrnuna á fullum krafti  ákvað ég þá í leiðinni að hætta að drekka áfengi, og drakk ekki næstu tíu árin. Ég lagði enn harðara á mig þegar við lékum okkur í fótbolta  um veturinn og fór svo á fullt í æfingar með liðinu um vorið. Um sumarið var ég í fyrsta sinn  í byrjunarliðinu og var settur á miðjuna  og hreinlega blómstraði. Ég var valinn leikmaður sumarsins um haustið af leikmönnum liðsins, sem og næstu tvö ár á eftir. Í framhaldi sagði félagi minn mér það að hann hefði aldrei trúað því hve áfengi og hugafar hefði mikil áhrif á getu leikmanna.

 

Hvenær var fyrsti meistaraflokksleikurinn?

Það var árið 1984 og kom inná sem varamaður. Ég man ekki fyrir hvern né hvaða leik en ætla að skjóta á að ég hafi komið inná á móti Hrafnkel Freysgoða frá Breiðdalsvík hérna heima sem við unnum 3 eða 4 – 0.

 

Hvaða þjálfari á þínum ferli hafði mest áhrif á þig sem leikmann?

Gunnar Ingi (5)Ejub Purisevic kenndi mér rosalega mikið. Hann kom hingað vorið 1994 og tók við mjög ungu liði Sindra sem var ekki spáð góðu gengi það sumarið en hann fór með liðið í úrslitakeppnina sem þótti mjög gott. Þetta sumar spilaði ég með Fjölni í Reykjavík. Ég kom heim haustið og þá strax byrjaði Ejub með markvissar æfingar en þá höfðu æfingar á veturna varla þekkst hjá okkur en með komu Ejub hófst alvöru  æfingar yfir veturinn með tilheyrandi hlaupum. Ég man þegar ég mætti á fyrstu æfinguna hjá Ejub. Á Þþirri  æfingu var ég „klobbaður“ í fyrsta skiptið og það af Ejub og hann gerði það ekki bara einu sinni heldur oft.  Reglulega eftir það minntist hann á þessa æfingu við mig. En með komu hans þurfti ég að breyta töluvert í fótavinnunni og hann kenndi mér gríðarlega mikið.

En svo má ekki gleyma mönnum eins og Alberti Eymundssyni sem skólaði mig til og kynnti mér fyrir ungmennafélagsandanum. Hann talaði líka um það að maður ætti að gefa félaginu til baka það sem það gæfi manni. Það væri ekki sjálfgefið að vera að leika sér í fótbolta nema vegna þess að það er fullt af fólki í kringum mann sem geri manni það kleift, bæði fjölskylda og aðrir, og það í sjálfboðavinnu. Hann tamdi okkur það líka að sýna öllum andstæðingum virðingu og taka sigri og tapi með sæmd.

 

Hvaða leikur stendur uppúr á ferlinum?

Án efa er það bikarleikurinn á móti KR hérna heima árið 1990. Fram að þessum tíma hafði Sindri alltaf tapað fyrsta leik í bikarnum en þetta sumar unnum við fyrsta skipti leik í bikarnum og komumst alla leik í 16 liða úrslit. Á þessum tíma komu liðin í efstu deild ekki inn í keppnina fyrr en í 16 liða úrslitum þannig þetta voru liðin í efstu deild sem voru tíu á þessum tíma og 6 önnur lið. Þessi KR leikur var hörkuleikur og það voru ekki eftir nema 15 mínútur þegar þeir skora fyrsta markið, tveim mínútum síðar fáum við á okkur víti og endaði leikurinn 0-2. Ef horft er á leikinn þá má augljóslega sjá hvað dómarinn er hliðhollur KR-ingum þó svo það hafi ekki skipt máli en leikurinn er til á dvd diski. En það var gríðarlega gaman að spila leikinn því þarna vorum við að spila á móti mönnum eins og Pétri Péturssyni, Atla Eðvaldssyni, Rúnari Kristinssyni og Ólafi Gottskálkssyni svo einhverjir séu nefndir.

Einnig má nefna tímamótaleik árið 1998 þegar við vinnum okkar fyrsta bikar. Þá unnum við 4. deildina eftir sigur á Haukum. Það var því vel við hæfi að Albert Eymundsson afhenti mér bikarinn fyrir hönd Sindra í leikslok.

Gunnar Ingi (1)Svo má nefna leiki eins og 8 liða úrslitin á móti ÍBV. Einnig leikurinn á móti Leiftri þegar Haukur Ingi tók bakfallsklippu fyrir utan vítateig og skoraði sigurmarkið í samskeytin, eða svoleiðis var það í minningunni. Ég man að strákurinn sem stóð við hliðina á mér þegar Haukur skoraði sagði. „Hvernig í ósköpunum datt honum þetta í hug.“

Svo hef ég alltaf verið mikill Valsari og því var gaman að fá að spila á móti þeim í fyrstu deildinni. Tala nú ekki um þegar við unnum þá í heimaleiknum 1-0. Einnig má nefna leikinn á móti Bolungarvík þegar við lentum í framlengingu og vítaspyrnukeppni sem endaði með okkar sigri. Svo er það auðvitað eftirminnilegt þegar Júlíus bróðir kemur inn í liðið og við spilum fyrstu leikina saman árið 1995.

Svo er leikur sem er ekki hátt skrifaður en fór í metabækur Sindra vegna þess að þetta er stærsti deildarsigur liðsins. Það var leikur sem við spiluðum á móti liði sem hét Stjarnan og var með heimavöll á Breiðdalsvík. Sá leikur var á Hátíð á Höfn og við unnum 19 – 0. Leiknum var lýst af útvarpsmönnum Bylgjunnar sem voru hér með útvarpsþátt. Ég skoraði fyrsta markið í þeim leik af 40 – 50 metra færi og þegar ég lét skotið ríða af þá heyrðist víst í útvarpsþulunum „Nei, þetta er eitt alversta og lausasta skot sem ég hef séð, svo liðu nokkrar sek……nei heyrðu það var mark , hverning gat þetta gerst!“ Boltinn var svo lengi á leiðinni inn.

 

Geturu nefnt eitthvað skemmtilegt avik í þessum 355 leikum sem þú spilaðir fyrir Sindra?

Það koma mörg atvik uppí hugann og má til dæmis nefna þegar við vorum að spila á Gróttuvellinum og Pálmar Hreinsson var skýla boltann út við hornfána þegar einn mótherjinn kemur aðsvífandi og hrindir honum. Mótherjinn skokkar til baka en Pálmar snöggreiðist og grípur í hornfánann og grýtir á eftir honum eins og spjóti. Pálmar snéri sér starx við og gekk í átt að búningsklefanum, hann vissi að hann væri kominn rautt og var ekkert að bíða eftir því. Pálmar hélt því svo fram að hann hafi ekki verið að reyna hitta manninn en þetta leit ekki vel út frá mínu sjónarhorni.

Svo man ég þegar við vorum að spila móti Einherja og Kristján, frændi minn, Hjartarson var í liðinu. Þegar vel var liðið á leikinn var hann alveg búinn eftir að hafa verið að elta framherjann þeirra um allan völl og öskraði á Harald Jónsson sem var þá í vörninni: „Taktu við og passaðu þennan smala þarna, ég alveg búinn.“

Einnig man ég eftir því eitt sinn þegar við vorum að spila deildarbikarleik á móti KR. Á þessum tíma voru menn ekki samlitum upphitunargöllum, það mætti bara hver með sínar buxur og peysu. Í miðri upphitun kemur dómarinn út á völl og kallar í mig þar sem ég var fyrirliðinn. Hann horfir á mig og hina í liðinu og spyr hvort við ætlum virikilega að vera svona? Ég lít yfir hópinn og svara „Svona hvernig?“ Þá segir dómarinn um leið: „Þið getið ekki verið svona til fara!“  Nei, segi ég, það veit ég vel. Við erum í búning innan undir. Við erum bara að hita upp. Þá snýr hann sér að mér og segir alvarlega: „Þú verður að gera þeir grein fyrir því að þið eruð að fara spila á móti KR!“ Ég varð pirraður og spurði hvort þeir væru eitthvað merkilegri en við. Við það gekk dómarinn í burtu.

Gunnar Ingi (10)Svo veit ég að einhverjir myndu nefna þegar ég fékk rauða spjaldið á móti Víði í Garði þegar leikmaður fiskaði mig útaf. Ég var frekar reiður og kældi mig niður með því að skokka aðeins útaf svæðinu, eftir að ég lét reiði mína bitna á auglýsingaspjaldi. Enhverjir vilja meina  að ég hafi  hlaupið niður í fjöru en það var nú ekki alveg svo langt. En ég lét mig hverfa í smá stund og settist upp í stúku. Við það færðu menn sig til og myndaðist svolítið bil á milli mín og annara í stúkunni.

Ég verð nú líka að nefna leik sem við spiluðum á móti Njarðvík á þeirra heimvelli sem við skíttöpuðum. Oft sem áður fékk ég rautt spjald, enda orðinn vel pirraður. En mér fannst samt  ég ekki eiga það skilið. Það var stigið í veg fyrir mig og í staðinn fyrir að hlaupa hann niður þá hoppaði ég bara á hestbak og fékk far með honum. Dómaranum fanst þetta ekki boðlegt. Ég gekk útaf og settist niður hjá áhorfendum. Í sömu andrá kemur  til mín 4 ára drengur og spyr mig afhverju ég sé ekki með. Það var mjög þroskandi svona ný kominn útaf ennþá pirraður að útskýra fyrir ungum dreng, rólega og yfirvegað, hvað ég gerði rangt í leiknum. Mér tókst það ágætilega en ég held að einhverju fullorðnum fyrir aftan mig hafi haft lúmst gaman af að hlusta á útskýringarnar.

Fyrst ég er að minnast á rauð spjöld, sem urðu þónokkur á ferlinum, þá verð ég að minnast rautt spjald sem ég fékk verðskuldað en það var fyrir að slá leikmann en það er í fyrsta og eina skiptið sem ég hef gert það. Þá var ýtt lítillega við mér eftir hálftíma leik og ég snöggreiddist, snéri mér við og gaf honum kinnhest og það small vel í honum. Eftir að ég fékk rauða spjalið geng ég að leikmanninum sem ég sló, tek í hendina á honum, biðst afsökunar og geng svo útaf. Í hálfleiksræðunni hjá Ejub spyr hann hvar ég sé. Þá vissi hann ekki að ég hafði verið rekinn útaf, hann hélt að ég hafði bara fengið aðvörun, en þá vorum við búnir að vera einum færri í um 15 mínútur.

Svo einu sinni vorum við að spila á móti Haukum. Um miðjan fyrri hálfleik var ég eitthvað að þvælast fyrir og fékk boltann í hausinn og fékk vægan heilahristing. Cardaklija spyr hvort allt sé í lagi og biður mig að telja puttana sem hann heldur uppi sem ég og gerði enda sá ég mjög vel. En það þurkaðist allt út frá því að ég vaknaði um morgunin og gat ómögulega munaða það sem gerðist fram að þessu. Leikurinn hófst á ný og þá er ég enn að reyna að muna hvaða stöðu ég ætti að vera að spila og var að reyna rifja upp leikmannafundinn fyrir leikinn en bara gat ekki munað neitt. Ég fattaði þá að ég var ekki að spila í vörn svo að ég hlaut að vera spila á miðjunni en spurði Halldór Steinar til öryggis. Ég fékk skrítin svip til baka frá honum. Minnið kom svo smá saman aftur er leið á leikinn. Þegar gengið var til búningklefa í hálfleik sá ég að staðan var 1-0 fyrir Haukum og enn í dag man ég ekki eftir því að hafa séð þá skora.

Gunnar Ingi (11)Það muna eflaust einhverjir eftir Bjarna Konráðssyni sem var eitt sinn spilandi þjálfari Sindra. Í leik á móti Súlunni Stöðvarfirði lendir Bjarni í samstuði þegar hann er að hoppa í skallabolta. Nefið á honum mölbrotnaði og hann sendur til læknis. Eftir leikinn er haldið heim en Bjarni verður eftir ásamt einhverjum úr liðinu. Um kvöldið var hið árlega Lónsball sem var útiball rétt hjá Stafafelli í Lóni. Þegar vel var liðið á dansleikinn kemur Bjarni og var hann heldur illa útlítandi með fullt af sárabindum framan í sér og gjörsamlega út úr heiminum af verkjalyfjum. Ég held að hann hafi verið bindindismaður, hvorki drakk hann né reykti, allavega sá ég hann aldrei með glas í hendi. En mikið lifandi skelfing var gaman að rugla í honum um kvöldið.

Ég verð einnig að minnast á góðan dreng sem heitir Fjölnir Sverrisson. Það var þannig að við vorum að keppa útileik man ekki hvort það var grasvöllur eða á malarvelli í grenjandi rigningu. Í fyrri hálfleik var búið að ganga mikið á þar sem tæklingar fengu að fljúga og eitthvað álíka. Þegar gengið var til hálfleiks voru menn svartir að drullu og rennandi blautir. Þegar Ejub er að hella sér yfir okkur horfir hann á Fjölni sem virtist vera í nýstraujuðum búning, ekki drulla á drengnum þrátt fyrir að hafa spilað allan hálfleikinn. Ejub spyr Fjölni hvað hann sé búinn að vera gera, það sæist ekki drullublettur á honum. Þá lítur Fjölnir yfir hópinn og lítur svo niður sig og bendir svo á brúnan blett á uppábrotinu á öðrum sokknum og segir að hérna sé að finna drullu.

Eitt sinn var svo leikur á móti Huginn Seyðisfirði. Þetta var mikill markaleikur og stöðunni 2 – 2 fáum við aukaspyrnu. Fjölnir stígur fram og segist ætla að taka spyrnuna, hann væri búinn að skora tvö mörk og það færi bara allt inn hjá honum núna. Fjölnir tekur spyrnuna og smyr honum inn af 25 metra færi. Þegar hann skokkar til baka strýkur hann sér um hárið, setur lokkana bak við eyrun og  kallar hann til mín og Vals Sveinssonar í vörninni: „Strákar, reynið svo að gera eitthvað þarna í vörninni, ég get ekki endalaust verið að skora.“ Ég get svarið fyrir það að ég þurfti að halda í Val svo hann myndi ekki hjóla í drenginn. En við enduðum á því að vinna leikinn 5 – 3.

 

Einhverjir eftirminnanlegir leikmenn sem þú spilaðir á móti á ferlinum?

Það má í raun nefna allt KR-liðið í bikarleiknum árið 1990. Þar voru menn eins og Atli Eðvalds, Pétur Pétursson sem þá voru að enda ferilinn. Þormóður Egilsson var þarna líka, Ólafur Gottskálksson og Rúnar Kristinsson sem varð svo þekktari leikmaður seinna meir. Í þessum leik var það í fyrsta skiptið sem maður fékk tækifæri til að sparka í lappirnar á mönnum úr efstu deild, mönnum sem voru reglulega í sjónvarpinu og blöðunum.Það var virkilega spennandi og gaman þar sem maður var bara ungur maður á þessum tíma. Svo verð ég líka að nefna Eyjólf Sverrisson en hann var nú orðinn þekktur en ekki það mikið að ég vissi ekkert hver hann var fyrr en við spiluðum á móti honum þegar hann lék með Tindastól. Leikurinnn var á Sauðárkróki og við komnir 2 – 0 þegar hann tók til sinna ráða og skoraði 3 mörk og þeir enduðu á að vinna okkur 3 – 2.

Seinna meir varð andstæðingur bara andstæðingur og maður bar virðingu fyrir honum sem slíkum, það skiptir engu máli hvaða nafn það var.

 

Gunnar Ingi (9)Hvað tekur nú við, er Gunnari Ingi alveg hættur afskiptum af knattspyrnu?

Nei alls ekki. Ég ákvað að hætta að spila með Sindra útaf því ég fékk ekki þann spilatíma sem ég vildi. Ég nennti ekki æfa og fá bara að spila örfáar mínútur. Maður er að þessu til að spila knattspyrnu. Nú hafa bara aðrir tekið við og ég lækka mig í deild. Ég hef því, ásamt öðrum, farið í það verkefni að skrá Umf. Mána í 4. deildina næsta sumar og meðan heilsan er góð ætla ég að spila með þeim. Stefnan er að spila svona 14 – 16 leiki næsta sumar. Svo væri það bara gaman ef maður næði að slá leikjametið og það gæti gerst ef ég spila næstu tvö tímabíl. Ég hef nefnilega verið það heppinn í gegnum ferilinn að ég hef meiðst afskaplega lítið. Ég hef tvisvar sinnum meiðst í hnénu en eftir fyrri meiðslin missti ég skotkraftinn en ég var með ágætis skottæki fyrir meiðslin. Svo hef ég fjórum sinnum fengið brjósklos en ég hef verið það heppinn að í tvo skipti var það ekki að sumri til og missti því ekki úr leiki, en í hin skiptin missti ég úr leiki, ég náði til að mynda bara einum leik eitt tímabilið. Með brjósklosi tapa menn allri snerpu, það þekkja þeir sem hafa lent í því að fá brjósklos. Það tekur langan tíma að ná hraðanum og snerpunni til baka og ekki mátti ég við því að missa snerpu.

 

Hvaða góðu ráð geturu gefið þeim sem núna eru að æfa knattspyrnu?

Þetta er ævintýri sem er að byrja. Ekki gleyma að njóta þess, því þetta stendur stutt yfir. Það eru náttúrulega hæðir og lægðir í þessu ævintýri eins og í öðrum ævintýrum en þá verður bara að leggja meira á sig, æfa meira. Þá á ég við aukaæfingar. Þetta er spurning hversu langt maður vill ná, 15 mínútna aukaæfing eftir hverja æfingu getur gert heilmikið. Þá er það ekki framhald af æfingunum sem gerðar eru á æfingunni á undan heldur þær æfingar sem þú tekur ákvörðun að leggja áherslu á hverju sinni, hvort sem það er að æfa skottæknina eða eitthvað annað. Ef það eru fjórar æfingar á viku þá er hægt að taka fjórar stuttar aukaæfingar í kjölfarið.Þá er þetta svo fljótt að koma, þá verður þetta ein klukkustund í viku, fjórar klukkustundir á mánuði og 40 klukkustundir yfir árið. Það er nefnilega rangt að halda því fram að aukaæfingar þurfi að taka marga klukkutíma.

Svo er það að vera 100% mættur á hverja æfingu og hver æfing er gerð með 100% einbeitningu og stefna á það að gera hana enn betur næst. Ef þetta er haft að leiðarljósi þá næst árangur.

 

Hvernig er drauma Sindralið Gunnars Inga

Ég verð að fá að stilla upp tveimur liðum, annað liðið er sem ég tel besta Sindra liðið og svo hitt er mitt persónulega draumalið.

Það eru tveir strákar þarna sem ég hef ekki með en þeir spiluðu ekki mikið fyrir Sindra í meistaraflokki, en það eru þeir Frans Elvarson og Alex Freyr Hilmarson. Báðir eru að spila í efstu deild í dag en þeir fóru snemma frá okkur, alltof snemma en ég skil þá vel en þeir ættu þarna klárlega heima í besta liðinu hefðu þeir verið lengur hjá okkur.

Besta liðið: Leikkerfi 3-4-1-2

Þetta lið væri í efstu deild ekki spurning. Í þessu liði eru fjórir leikmenn sem skora meira en hálft mark í leik að meðaltali.

Cardaklija: Einfaldlega besti markvörður sem ég hef spilað með og þegar að við vorum í fyrstu deild var hann klárlega besti markvörðurinn á Íslandi það ár.

Cober: Stjórnaði vörninni og var með frábærar staðsetningar enda fáir betri að lesa leikinn en hann.

Ármann S: Gríðarlega erfiður í háloftunum og skellur sér í sóknina og skorar mörk. Getur spilað líka sem sóknarmaður. 47 mörk í 61 leik.

Óli Stefán: Les leikinn vel, erfiður maður á móti manni, les leikinn vel og skorar mörk. Get sett hann líka á miðjuna.

Hjalti: Gríðarlega harður af sér og ósérhlífin, bakkar menn vel upp og frábær leiðtogi. Annar fyriliðin í liðinu. Leysir fleyri en eina stöðu á vellinum

Jón Haukur: Eldfljótur frábær skotmaður og með hnitmiðaðar sendingar.  Maður fékk oft á tilfinninguna að hann gæti hlaupið með boltann í markið þegar að hann vildi. Einnig frábær varnarmaður

Almir: Einfaldlega frábær leikmaður. Það að reyna að taka af honum boltann var hreint helv….

Júlíus Freyr:  Einn besti skotmaður Sindra. Að vera kominn á vallarhelming andstæðinganna var dauðafæri fyrir hann.

Ejub: Gerir aðra betri í kringum sig og mikill markaskorari. Besti leikmaður sem ég hef spilað með og á móti. 50 mörk í 78 leikjum.

Þrándur Sigurðsson: Góður skotmaður, heldur bolta vel, jafnvígur á báðar og mikill markaskorari.  83 mörk í 119 leikjum.

Hermann Stefánsson: Fljótur og markaskorari af Guðs náð sem hefur skorað flest mörk fyrir Sindra. 107 mörk í 176 leikjum. Frábær leiðtogi og er klárlega hinn fyriliðinn í liðinu.

Cardaklija

Cober

Ármann S.                    Óli Stefán

Hjalti

Jón Haukur                                        Almir                                       Júlíus Freyr

Ejub

Hermann Stefánsson              Þrándur Sigurðsson

Varamenn
Mæja markmaður
Halldór Steinar
Sinisa Valdimar Kekic
Pálmar Hreinsson
Ómar Ingi Bragason
Björn Pálsson
Sævar Gunnarsson

 

Drauma liðið: 4-4-2

Sævar Þór

Sindri R.               Gunnar Ingi                Gylfi Sig.                Júlíus Freyr

Pálmar Hreinsson        Halldór Steinar     Hjalti Vignis       Valur Sveins

Hermann Stefánsson          Ármann S

Varamenn
Ásgeir Núpan
Óskar Guðjón
Óli Stefán
Kristján Hjartarsson
Björn Pálsson
Fjölnir Sverrirson
Ásgeir Gunnarsson
Kristinn Guðlaugsson

Hvað er hægt að segja við mann eins og Gunnar Inga sem er búinn að leggja líkama og sál í Sindra nokkra áratugi. Einfaldast er bara að segja Takk þó það nái vart yfir þakklætið sem hann á skilið.