Ný lög, nýjar reglur og nýtt fólk í stjórnum Sindra!

  • Post category:Fréttir

Aðalfundur Sindra var haldinn í Nýmheimum í gær að viðstöddu miklu fjölmenni (á milli 30 og 40 manns 😉 ) Formenn deildanna kynntu skýrslu stjórnar sinnar fyrir árið 2016 og gjaldkerar fóru yfir ársreikninga. Skemmst er frá því að segja að allar deildir félagsins standa nokkuð vel og er greinilegt að stjórnarfólkið okkar hefur staðið vaktina gríðarlega vel í þeim málum 🙂

Þá hefur jafnframt verið ákveðið að núna á vormánuðum verði hlutur ungmennafélagsins í 21 manns rútu seldur og í staðinn verður keypt glæný 17 manna rúta 🙂 Vorið 2018 er síðan ætlunin að fjárfesta í nýjum 9 manna bíl.

Þrír aðilar sögðu sig úr stjórnum Sindra á aðalfundinum, Sólrún Sigurjónsdóttir úr sunddeild Sindra og bróðir hennar Björgvin Sigurjónsson úr körfuboltadeild Sindra og síðan Íris Heiður Jóhannsdóttir, sem er ekki tengd þeim fjölskylduböndum, úr fimleikadeild Sindra. Ekki hefur fundist staðgengill fyrir þau systkini í sunddeildina og körfuboltadeildina svo áhugasamir eru beðnir um að gefa sig fram við stjórnir deildanna hið allra fyrsta, en í stað Írisar í stjórn fimleikadeildar kom Sigrún Gylfadóttir.

Þá bættist Arna Ósk Harðardóttir við í stjórn knattspyrnudeildar og Ásgrímur Ingólfsson í aðalstjórn Sindra. Fráfarandi stjórnarfólki er þakkað óeigingjarnt og gott starf fyrir félagið og nýtt stjórnarfólk er boðið velkomið í Sindrafjölskylduna!

Síðast en ekki síst var lögum umf. Sindra skipt út fyrir mikið endurbætta útgáfu. Ný lög félagsins verða sett á netið von bráðar auk fundargerðar frá aðalfundinum, nýrra rútureglna og allskonar fróðleiks!

Áfram Sindri!