N1 – Mótið á Akureyri 2021

Það var vaskur hópur Sindradrengja í 5.fl ásamt tveimur eðal Sindrastelpum sem lögðu leið sína á Akureyri á N1 mótið í ár.

Mikið var búið að tala um þetta mót frá því að við byrjuðum að æfa í október í fyrra.

Frá því í október höfum við æft mjög vel, allt frá leikfræði og tækni, í það að leggja ofuráherslu á hugarþjálfun.

Okkar markmið var alltaf að taka út í þessu móti, að uppskera eins og sáð hafði verið. Markmið okkar snéri aldrei að úrslitum, heldur það að setja inn í leikina þá þætti sem við höfum æft.

Gildin okkar, Jákvæðni, Vinnusemi, Liðsheild og Metnaður eru mjög fyrirferðamikil hjá krökkunum. Þegar krakkarnir spila og í allri þeirra framkomu, þá sjáið þið gildin skína í gegn.

Framkoma og virðing er nefnilega það sem við leggjum orfuráherslu á og höfum æft líka. Eftir allar æfingar þá þakka þau hvort öðru fyrir æfinguna með handabandi, (High five) og stundum faðmi, alveg sama hvernig æfingin gekk. Að auki segja þau alltaf „ Takk fyrir æfinguna, þú stóðst þig frábærlega“ 

Í þessu móti gerðu þau þetta við dómara og andstæðinga. Það var stundum hálf broslegt en mjög sætt að sjá viðbrögð andstæðinga þegar þau gengu að þeim, föðmuðu þá og létu þessi orð fylgja „ Takk fyrir leikinn, þú stóðst þig ótrúlega vel og gangi þér vel í framhaldinu“

Þessu var greinilega vel tekið því ég fékk orðsendingu frá mótshaldara um að það væri altalað meðal dómara mótsins hversu mikla virðingu okkar lið sýndi dómurum og andstæðinum.

Föstudagskvöldið var aðalkvöldskemmtun mótsins. Þar var Sindri/Neisti svo heiðrað sem prúðasta liðið.

Sindri/Neisti 1 stóð svo uppi sem sigurvegari í Ensku deildinni eftir mikla dramatík en þau fóru í gegnum 8 liða úrslit og undanúrslit í vító. Úrslitaleikurinn við Val vannst 2-1 og var mikil gleði á bæ þegar flautað var til leiksloka. Ðuro Stefán Beic var valinn leikmaður úrslitaleiksins enda stóð hann sig frábærlega eins og allt Sindraliðið.

Sindri/Neisti 2 spilaði frábært mót en þau unnu sjö leiki og töpuðu einungis þremur. Það var einstaklega gaman að fylgjast með þessu liði í mótinu sem óx með hverjum leiknum. Þarna eru mikið af leikmönnum á yngra árinu og það verður að segjast eins og er að þeir verða líklegir til afreka á næsta N1 móti.

Eins og áður sagði þá eru úrslitin ekki aðalatriðið þó þau skipti auðvitað máli, heldur er það þessi sterka vinna með krökkunum og uppskeran úr þeirri vinnu. Sindraleiðin sem við byrjuðum á í vetur er að skila sér.

Ekki er hægt að segja skilið við þetta mót án þess að minnast á foreldra og fylgdarfólki barnanna. Ég held að við getum verið stolt af þeim því allt sem þau gera er til fyrirmyndar.

Þetta fólk okkar gerir allt til þess að skipulagið í kringum svona risa-mót haldi sér og krakkarnir upplifi það á eins jákvæðan hátt og kostur er. Þau standa með leikmönnum í kringum leikina og taka þátt í því að kenna börnunum að vinna og tapa með sæmd.

Eftir stendur frábær minning úr frábæru móti með frábæru Sindrafólki sem öll voru til í að leggja hönd á plóg til þess að gera vikuna frábæra.

Óli Stefán Flóventsson

Þjálfari