Afhverju svona mörg víti?

Gengi meistaraflokks karla í knattspyrnunni hefur gengið vonum framar og talar Óli Stefán þjálfari um það í færslu sem hann birti á Facebook. Hann segir meðal annars eftir tap liðsins gegn Gróttu:

Ég sagði við strákana inn í klefa eftir leikinn að það er eitt að tapa með hangandi haus og vera lélegir og annað að tapa með sæmd eins og ég tel mína menn hafa gert í gær. Ég var mjög ánægður með þá og hlakka til framhaldsins með þeim.

Það er hinsvegar eitt sem er að angra Óla Stefán:

Dómararnir hafa verið misgóðir eins og gengur en ég er að mestu ánægður með þá fyrir utan það að ég get ekki fyrir mitt litla líf skilið hvernig við höfum fengið á okkur 9 vítaspyrnur í sumar án þess að hafa fengið eina einustu sjálfir. Að sjálfsögðu hafa sumar vítaspyrnurnar verið réttar, sumar hafa verið vafasamar og svo aðrar beinlínis rangar. Hitt er þó ljóst að það sama á við hjá okkur, hvað eftir annað hefur verið horft framjá brotum sem hefði gefið okkur víti, augljós, og vafasöm en ekki í eitt einasta skipti hefur dómaratríóið séð ástæðu til að dæma okkur í hag.

Þessu má svo sannarlega velta fyrir og eru góðar vangaveltur, hvort sem það er á kaffistofum eða skrifstofum KSÍ.