Það var að vanda fullt út úr dyrum í íþróttahúsinu á Höfn á Laugardag þegar fyrsti heimaleikur Sindra fór fram. Gestirnir að þessu sinni var gríðarsterkt lið Laugdæla, sem á undanförnum árum hefur verið eins og jójó á milli fyrstu og annarrar deildar, á meðan Sindramenn hafa hægt en sígandi verið að byggja upp og nálgast fyrstu deildina . Lið Sindra var skipað sömu reynsluboltunum og undanfarin ár með dass af ungum og bráðefnilegum leikmönnum auk þess sem „flashback“ varð í þjálfun liðsins, með tilkomu Stjána Eb, sem snéri aftur eftir óútskýrða fjarveru. Skemmst er frá því að segja að Sindradrengir hafa oft átt betri dag í „frystihúsinu“. Laugdælir fengu fljúgandi start og náðu strax tólf stiga forustu á meðan drengirnir okkar áttuðu sig engan veginn á því að keppnistímabilið væri byrjað. En eftir velheppnað leikhlé fóru menn loks að anda í takt og leikur okkar manna skánaði til mikilla muna þó svo að aldrei tækist að gera alvöru atlögu að forustu gestanna. Um það leiti sem fréttir stöðvar 2 hófust urðu heimamenn að japla á því súra epli að 58-75 tap var allt sem þessi hittingur hafði uppá að bjóða. Hinn hundleiðinlegi frasi „gerum bara betur næst“ á því vel við eftir þennan fyrsta leik.
Kveðja Fyrirliðinn