Aðalfundur, lagabreytingar og heiðranir sjálfboðaliða.

  • Post category:Fréttir

Aðalfundur UMF Sindra var haldinn 29.apríl síðastliðinn. Fundurinn var með hefðbundnu sniði þar sem deildir fóru yfir skýrslu stjórnar og ársreikninga. Félagið stendur vel fjárhagslega og ánægjulegt að nefna að meirihluti skulda á milli deilda og við aðalsjórn hafa verið greiddar. Við hvetjum fólk til að kynna sér rekstur og framvindu deilda fyrir árið 2024 og má finna heildar ársskýrslur deilda hér.

Á fundinum voru lagðar fyrir tillögur um lagabreytingar og koma þær tillögur úr fyrsta stigi stefnumótunarvinnu félagsins sem fór fram í byrjun árs. Óhætt er að segja að breytingarnar voru miklar og má þar helst nefna breytingu á skipuriti félagsins. Með breytingunni fjölgaði stjórnarmönnum Aðalstjórnar úr þrem í fimm og er starfsemi félagsins á ábyrgð þeirra fimm kjörna stjórnarmanna. Framkvæmdastjóri starfar undir aðalstjórn og stjórnir deilda starfa eftir stefnu og vinnuferlum félagsins. Hér er verið að gera skipuritið skilvirkara og bæta starfsumhverfi starfsmanna með því að einfalda skipuritið en fyrir þá sem ekki vissu var höfuð félagsins skipað aðalstjórn og formönnum deilda sem taldi á 14 manns. Ný lög félagsins má sjá uppfærð hér, en einnig má lesa fundargerð aðalfundar  hér, þar sem sést samanburð á fyrri lögum og breytingum.

Líkt og á fyrri aðalfundum eru sjálfboðaliðar heiðraðir fyrir þeirra störf í þágu félagsins og að þessu sinni var veitt eitt gull merki og tvö silfurmerki félagsins. Þeir sem hlutu heiðrun eru eftirfarandi.

Ingólfur Hólmur Baldvinsson, sjálfboðaliða- og stjórnarstörf Frjálsíþróttadeild.

Ingólfur hefur verið viðloðin starf Sindra í tugi ára. Árið 1990, þá 16 ára, var Ingólfur fyrst kosinn í stjórn Frjálsíþróttadeilarinnar og hefur setið þar allt til dagsins í dag, þó með stuttu hléum. Frá unglingsaldri var Ingólfur farin að dæma og aðstoða við hin ýmsu frjálsíþróttamót á vegum Sindra, til að mynda á innanfélagsmótum og héraðsmótum, ásamt því að aðstoða á margan hátt við landsmótin sem hafa verið haldin í sveitarfélaginu. Ingólfur hlaut silfurmerk UMF Sindra árið 2004 og hefur verið óþrjótandi og virkur í starfi deildarinnar og þökkum við Ingólfi fyrir hans ómetanleg störf og veitum honum gullmerki Sindra.

 

 

Páll Róbert Matthíasson, sjálfboðaliða- og stjórnarstörf Blakdeild, Aðalstjórn og húsnefnd Heklu.

Róbert hefur sinnt stjórnarsetu innan félagsins frá árinu 2010. Hann byrjaði í stjórn Blakdeildar og sat þar lengst af, en einnig sat hann í Aðalstjórn félagsins. Þegar félagsheimilið Hekla var keypt árið 20019, var mynduð húsnæðisnefnd og sat Róbert þar frá byrjun, til dagsins í dag. Einnig ber að nefna að hann hefur setið í stjórn USÚ og þar af eitt ár sem formaður sambandsins. Við þökkum Róberti fyrir hans ómetanlega framlag til félagsins og veitum honum silfurmerki Sindra.
 

 

Sandra Sigmundsdóttir, sjálfboðaliða- og stjórnarstörf Frjálsíþróttadeild, Fimleikadeild, Knattspyrnudeild Yngri flokka og meistaraflokka.

Sandra hefur víða komið við innan félagsins en hún hefur sinnt stjórnarsetu hjá Frjálsíþróttadeild, Fimleikadeild og Knattspyrnudeild Yngri flokkum og Meistaraflokki. Ásamt því að sinna almennum stjórnarverkum var Sandra ein af þeim sem setti saman handbók yngri flokka sem var fagleg og nauðsynleg fyrir þróun starfsins á þeim tíma. Sú handbók er enn í gildi í dag með minniháttar breytingum. Sandra hefur sinnt óeigingjörnu og ómetanlegu starfi til félagsins og þökkum við henni fyrir hennar framlag til félagsins og veitum henni silfurmerki Sindra.



Heiðursmerki veitti Einar Sigurjónsson formaður UMF Sindra.