3. flokkur undirritar afrekssamning

  • Post category:Knattspyrna

Það má segja að það hafi orðið tímamót hjá Ungmennafélaginu Sindra þriðjudagskvöldið 4. desember síðastliðinn. Þá skrifuðu leikmenn 3. flokks drengja og stúlkna í knattspyrnu, ásamt foreldrum sínum og formanni knattspyrnudeildar Sindra, undir afrekssamning knattspyrnudeildar Sindra.

Afrekssamningurinn á fyrirmynd sína í forvarnarsamning Völsungs en aðlagaður að siða- og forvarnastefnu Umf. Sindra sem og framtíðaráætlun félagsins. Með samningi þessum skuldbinda leikmenn sig að neyta hvorki áfengis né tóbaks, né nokkurra annarra vímuefna. En einnig býður Umf. Sindri uppá margkonar fræðslu sem og aukaæfingar fyrir leikmenn. Er það stefna og markmið Umf. Sindra að búa til öflugan hóp íþróttafólks sem hefur heilsu sína, fagmennsku og góða framkomu að leiðarljósi í sínu lífi.

Við undirritunina fluttu Óli Stefán Flóventsson yfirþjálfari, Ásgerður Gylfadóttir bæjarstjóri og Auðun Helgason fyrrum atvinnumaður ávörp til leikmannanna og foreldra þeirra.

Þeir leikmenn sem standa við samninginn munu svo fá að fara með í keppnisferð til útlanda næsta sumar en stefnt er að fara til Spánar í júlímánuði.

Með ráðningu Óla Stefáns sem yfirþjálfara knattspyrnudeildar Sindra hefur verið farið í það verkefni að undirbúa stofnun akademíu sem mun hefjast næsta haust. Akademían mun koma því í beinu framhaldi af þessum samningi.

Markmið Umf. Sindra er að stuðla að heilbrigðu líferni og að leikmenn Sindra vinni í því að ná langt í því sem þeir munu taka sér fyrir hendur.

Myndir frá undirritun samningsins má sjá á myndsíðu félagsins sem er að finna á flickr. Hægt er að smella hér til að komast á síðuna.