Ungmennafélagið Sindri er félag sem starfar að almannaheill

  • Post category:Fréttir

Ný lög hafa verið samþykkt og tóku gildi þann 1. nóvember þar sem Ungmennafélög geta skráð sig á lista yfir félög sem starfa að almannaheill og njóta aukins skattahagræðingar. UMF. Sindri hefur fengið staðfestingu á þessari skráningu hjá RSK. Í lögunum er ákvæði fyrir fyrirtæki sem vilja styrkja félög á Almannaheillaskrá, og er þeim heimilt að draga frá skattstofni allt að 1,5% af rekstrartekjum og láta renna til félaga á almannaheillaskrá. Einstaklingar hafa heimild til að gefa 350.000 kr. og draga það frá tekjuskattsstofni og erfðafjárskattur er felldur niður ef arfurinn rennur til félaga á almannaheillaskrá.

sjá nánar:

https://www.umfi.is/utgafa/frettasafn/muna-ad-skra-ithrottafelagid-a-almannaheillaskra

https://www.skatturinn.is/atvinnurekstur/skattskylda/almannaheillaskra-skattfradrattur

Við hvetjum fyrirtæki hér á Höfn að taka höndum saman og styrkja íþróttastarfið með myndarlegum hætti. Tekið er fram í lögunum að skattafrádrátturinn á eingöngu við um gjafir en ekki auglýsingasamninga. Listi yfir fyrirtæki sem styrkja UMF. Sindra með þessum hætti verður birtur á heimasíðu félagsins í lok Janúar sem Bakhjarlar UMF. Sindra. Þau fyrirtæki sem gefa 1.000.000 kr. eða meira verða skilgreind sem demantar, og þau fyrirtæki sem gefa 500.000 kr. til 999.999 kr. verða skilgreind sem gull fyrirtæki og silfurfyrirtæki sem gefa 100.000 kr. til 499.999 kr. Tekið skal fram að allir styrkir eru vel þegnir og gamla máltækið margt smátt gerir eitt stórt á svo sannarlega við í þessum efnum.

Þau fyrirtæki sem vilja taka þátt í þessu verkefni geta millifært gjafaupphæðina á eftirfarandi reikning fyrir 30. desember nk. til að nýta heimildina fyrir þetta ár.

 kt. 430380-0609

rn. 0172-05-010059

Við hvetjum fyrirtæki hér á Höfn sem vilja láta gott af sér leiða að nýta þennan skattafrádrátt og athugið að UMF. Sindri þarf að veita formlega staðfestingu á gjöfinni til RSK.

Um þessar mundir er UMF. Sindri að hafa samband við fyrirtæki á svæðinu og kynna þessa skráningu og við viljum biðjum fyrirtæki að taka vel á móti þessum símtölum.

Hægt er að gefa til einstaka deilda og þá þarf viðkomandi að setja nafn deildarinnar í tilvísun á millifærslunni. Einnig er hægt að gefa til bílakaupa og þá þarf það að koma fram í tilvísun en að öðrum kosti mun stjórn félagsins ráðstafa söfnunarfénu þar sem þess er helst þörf.

UMF. Sindri þakkar allan þann stuðning sem fyrirtæki hafa veitt félaginu undanfarin ár og öllum þeim fjölmörgu sjálfboðaliðum sem hafa stutt við félagið í gegnum árin og að lokum vill UMF. Sindri óska öllum gleðilegra jóla og farsældar á komandi árum.