Pæjumót í Vestmannaeyjum

TM mótið í Vestmannaeyjum 2021

Miðvikudaginn 9. júní lögðu ellefu galvaskar stelpur, ásamt fylgdarliði, af stað frá Höfn í Hornafirði og var áfangastaðurinn Vestmannaeyjar – TM mótið 2021.  Tilgangur ferðarinnar var að keppa í fótbolta en eins og við öll vitum þá er þátttaka í íþróttum svo miklu meira en íþróttin sjálf.  Það að tilheyra liði, er ómetanlegt, því til viðbótar við að stunda hreyfingu sem gerir mann hraustan og sterkan lærir maður skuldbindingu, seiglu, samstöðu og samvinnu auk þess að þurfa að horfast í augu við það að stundum er liðið stærra en maður sjálfur og það kennir manni auðmýkt.  Og alveg eins og í lífinu þá vinnur maður stundum og tapar stundum og það hvernig maður tekst á við hvoru tveggja skilgreinir mann.

Eins og við var að búast var ferðin alls konar, veðrið var alls konar og úrslitin voru alls konar.  Stelpurnar spiluðu 10 leiki, unnu fleiri en þær töpuðu og uxu með hverjum einasta leik.  Styrktu stöðu sína sem kantmenn, miðverðir eða markmenn og áttu oft ótrúlega flott tilþrif þannig að við sem fylgdumst með á hliðarlínunni, tókum gleðihopp, eða supum hveljur þegar litlu mátti muna, stöku tár mátti sjá á hvarmi þegar úrslitin voru ekki eins og við vonuðumst til en gleðin og samstaðan náði líka út fyrir liðið.  Gleðin náði hámarki þegar fyrirliðinn og gleðisprengjan Thelma Björg var valin í Pressulið mótsins og síðan fylgdi bikarinn sem gaf henni titilinn sem ein af tólf bestu leikmönnum mótsins.  Stórkostlegur árangur hjá þessari fyrirmyndar íþróttakonu.

Milli þess sem stelpurnar spiluðu leiki fóru þær í sund og á sjó, spiluðu Varúlf og kynntust nýjum vinum og margt fleira.  Ég veit að ég tala fyrir hönd okkar þriggja sem vorum svo heppnar að fá að fylgja þeim og gista með þeim í skólanum – mikið sem þetta var skemmtilegt.  Stelpurnar áttu frábæra spretti milli leikja, náðu að plata gamla konu, kría út tásunudd, kvöldsnarl og fléttur í hárið.  Þakklæti er efst í huga og tilhlökkun að fá að fylgjast með þessum ofurstelpum vaxa og dafna í íþróttinni á næstu árum.  Það sem stendur uppúr er samveran, samstaðan, sigrarnir og töpin, sjóðferðin, prumpubrandararnir, flétturnar, súkkulaðikakan, gleðin og þakklætið.  Takk fyrir okkur Vestmannaeyjar.  Hlökkum til að mæta í næsta mót.

Halldóra Dröfn