Myndir og myndasíða

  • Post category:Fréttir

Gaman er að skoða myndir, sérstaklega ef þær eru gamlar. Þónokkrir hafa vitað af gömlum liðsmyndum af “gömlum” knattspyrnuhetjum sem hanga inní gamla húsvarðabúrinu í íþróttahúsinu. Þangað voru þær settar fyrir mörgum árum en húsvarðabúrið var einn helsti viðkomustaður þeirra sem komu í íþróttahúsið. Nú í dag er búið að flytja húsverðina í annað rými en myndirnar hanga enn á sínum stað og búrið orðið að draslakompu. Þegar var farið að falast eftir myndunum harðneituðu Jóka og Elvar að afhenda myndirnar. Það var því sett af stað aðgerð til að ná myndunum niður af veggnum og koma þeim í stafrænt form. Aðgerðin var köllum Operation: Siggi og Ásta til minningar um húsverðina sem eyddu mestum sínum tíma í þessu búri. Aðgerðin var afar einföld: Elvar var sendur til Keflavíkur á fótboltaleik og það var ekki erfitt enda fór hann óumbeðinn. Svo á meðan Jóka var send útá völl að rukka inn á leik var farið í flýti inní búrið að tína niður myndir af veggnum. Fjórar myndir náðust áður en Jóka kom aftur inn í íþróttahúsið til að ná í kaffi í skúrinn fyrir Valda.

Núna hafa þessar myndir verið settar á stafrænt form og þeim komið fyrir inná myndasíðu Sindra á Flickr. Hér til hliðar er hægt að sjá tvær nýjustu myndirnar og með því að smella á þær er farið inná myndasíðuna. Þeir sem vilja skrifa ummæli við myndirnar verða að vera skráðir notendur Flickr. Stefnt er á því í framtíðinni að bæta við mun fleiri myndum, nýjum og gömlum, og frá fleiri viðburðum en bara knattspyrnu.

Ef þið viljið komast beint inná myndasíðuna þá er slóðin: http://www.flickr.com/photos/umfsindri/

Njótið!