Meistaraflokkur karla mættir til Spánar

Meistaraflokkur karla hefur lokið keppni í Lengjubikarnum 2022. Strákarnir léku í riðli 2 með þremur liðum úr 2. deild- og tveimur liðum úr 3. deild karla.

Sindramenn sigruðu 1 leik, gerðu 2 jafntefli og töpuðu 2 leikjum í riðlinum sínum. Þeir skoruðu 15 mörk í mótinu og fengu á sig 16 mörk.

Úrslit leikja:

19.2.2022 – Vængir Júpíters 5:3 Sindri   (Mate 2x, Patrekur 1x)

5.3.2022 – Augnablik 5:8 Sindri   (Abdul 6x, Mate 2x)

9.3.2022 – Reynir S. 4:2 Sindri   (Robertas 2x)

13.3.2022 – Sindri 1:1 Ægir   (Stinni 1x)

20.3.2022 – Þróttur R. 1:1 Sindri   (Ivan Eres 1x)

Það er vert að minnast á það að mfl. karla þurfti að ferðast til Reykjavíkur til að spila sína heimaleiki líkt og síðustu ár eða jafnvel áratugi. Það gefur auga leið, að þetta fyrirkomulag er ekki boðlegt og aðstöðuleysið á Höfn bæði dýrt og tímafrekt fyrir íþróttamenn og -konur. Það fóru 4510 km í þennan mikilvæga undirbúning fyrir komandi keppnistímabil 2022.

Talandi um undirbúning þá eru strákarnir okkar staddir á Salou á Spáni í níu daga æfingarferð, en ferðalagið þangað er einmitt um 4.230 km. Þetta fríða föruneyti er skipað 23 leikmönnum, 3 þjálfurum og 2 fararstjórum. Aðstaðan á Futbol Salou Sports Center svæðinu er með betra móti sem hægt er að hugsa sér. Hér eru 12 æfingavellir, búningsklefar, fundarsalir, heilsulind og sundlaug svo eitthvað sé nefnt.

Hópurinn heldur uppi Instagram- og Tiktok síðu og eru þeir nokkuð virkir í að setja inn efni af sér á æfingum og í öðrum verkefnum í amstri dagsins. 

Instagram:  https://www.instagram.com/mflsindrikk/

TikTok: https://www.tiktok.com/@mfl.sindri

Óli Stefán fer yfir málin með strákunum
Fyrsta æfingin á Salou á Spáni