Hekla heitir hún

  • Post category:Fréttir

Hekla

Ungmennafélagið Sindri vígði nýtt félagsheimili föstudaginn 1. mars. Mikið margmenni var á staðnum og mættu yfir 100 manns til að fagna með félaginu. Í upphafi léku nemendur Tónlistaskólans fyrir gesti og sönghópur frá Grunnskólanum tók lagið. Þar næst var húsinu gefið nafnið HEKLA eftir fyrsta Gististaðnum á Höfn sem var byggður 1907 á sama stað og félagsheimilið stendur í dag. Veittar voru viðurkenningar fyrir nafnasamkeppnina og fengu þær Halldóra Stefánsdóttir og Heiðrún Þorsteinsdóttir gjafabréf frá Hótel Höfn í verðlaun. Albert Eymundsson fór yfir sögu staðarins og minntist þess að á grasbalanum við Heklu var oft spilaður fótbolti með eina fótboltanum sem Ungmennafélagið átti á þeim tíma. Stígur Reynisson prestur blessaði svo húsið og nafnið. Þarnæst afhenti Ásgrímur Ingólfsson Gull og Silfurmerki Sindra.

Að þessu sinni fengu eftirfarandi aðilar silfurmerki Sindra.

  1. Ingibjörg Valgeirsdóttir fyrir að hafa leikið landsleiki á meðan hún var í Sindra
  1. Ingibjörg Lúcía Ragnarsdóttir fyrir að hafa leikið landsleiki á meðan hún var í Sindra
  1. Kristján Guðnason vegna formennsku í stjórn knattspyrnudeildar til fjölda ára.

Gullmerki Sindra fengu:

  1. Jóhanna Stígsdóttir (Jóka)
    • Í umsögn um Jóhönnu kom eftirfarandi fram: “Hún hefur sinnt uppeldi hvers einasta fótboltamanns sem hefur spilað í Sindratreyjunni með einhverjum hætti og hefur alltaf hagsmuni og velferð félagsins að leiðarljósi í öllum sínum störfum … en hana þekkja allir sem hér hafa stundað íþróttir, sama um hversu skamman tíma það hefur verið. Ég get ekki ímyndað mér neina manneskju sem er með Sindrahjartað á betri stað en Jóka!”
  1. Gunnar Ingi Valgeirsson
    • Í umsögn um Gunnar Inga kom eftirfarandi fram: “Framlag Gunnars Inga til knattspyrnudeildar, bæði sem leikjahæsta leikmanns meistaraflokks karla (og í deildarkeppni á Íslandi) og stjórnarmanns er óumdeilt. Hann hefur verið í stjórn knd. samfleytt frá árinu 1991 og hefur séð um ótal sérverkefni fyrir deildina svo sem Humarhátíð og fleira. Starf hans fyrir deildina hefur verið mjög óeigingjarnt og hann hefur verið mjög öflugur í störfum sínum fyrir deildina og aldrei látið sitt eftir liggja sama hversu stór eða smá verkefni eru.”

Að því loknu var svo hleypt á garðann og gestir fengu sér kræsingar frá hinum ýmsu deildum Sindra og veislustjórinn Gísli Már Vilhjálmsson sleit skipulagðri dagskrá.

 

Fyrir þá sem ekki komust á föstudaginn verður svo opið hús næstkomandi mánudag 4. mars til kl. 19.00 og hugsanlega verða einhverjar kökur eftir.