Fótboltavertíðin er komin á fulla ferð. Leikir allra flokka Sindra í Íslandsmótum eru samtals um 130 og leikir Mána 12. Þar fyrir utan er þátttaka yngri flokka í ýmsum mótum víða um land og 3.fl. drengja og stúlkna fara í keppnisferð til Spánar. Samkvæmt þessu þá er að meðaltali einn leikur á dag í Íslandsmótum frá 10. maí til 20. september. Það eru fleiri leikir spilaðir að heiman en heima og fyrir keppendur héðan eru ferðalög yfirleitt lengri en hjá öðrum liðum. Þátttökufjöldinn sem æfir og keppir fyrir Sindra og Mána er hátt í 200.
Þessi upptalning sýnir hversu gífurlegt umfang er í kringum þetta æskulýðs- og félagsstarf og mikil sjálfboðavinna liggur hér að baki, öðruvísi gengi þetta ekki upp. Það hefur gengið á ýmsu nú í upphafi móts og þegar svona margir flokkar eru sendir á mótin þá verða úrslit leikja á alla vegu.
Meistaraflokkur karla hefur byrjað ágætlega, unnið tvo heimaleiki, tapað tveimur útileikjum og gert jafntefli á heimavelli. Leikirnir hafa verið spennandi og skemmtilegir.
Meistaraflokkur kvenna hefur átt ágætis leiki þrátt fyrir tap í þremur fyrstu leikjunum en fyrsti sigurinn kom gegn Fjarðabyggð á þriðjudaginn. Það er óhætt að segja að úrslitin hafa ekki fallið með liðinu og ekki alltaf í samræmi við gang leikjanna. En svona er fótboltinn, óútreiknanlegur og þess vegna er hann vinsæll.
Það hefur gengið á ýmsu hjá Mánaliðinu eins og við mátti búast. Fjórir útileikir og einn heimaleikur hafa tapast. Mikilvægt er að Gunnari Inga takist að halda liðinu saman til loka mótsins. Nú eru fjórir útileikir búnir og aðeins ein ferð eftir í tvo útileiki. Svo á liðið fimm heimleiki eftir.
Yngri flokkarnir hafa staðið sig vel og það er afrek útaf fyrir sig að halda úti öllum þessum flokkum með ekki fjölmennara samfélag á bak við þá. Nú er bara að leggja fast að fólki að mæta á leikina og hvetja unga fólkið til dáða. Það er þeim mikilvægt að sjá og finna stuðning og það hvetur þau til að stunda heilbrigðar tómstundir.