Boltinn byrjaður að rúlla á grasinu

Um helgina voru þrír leikir spilaðir á Mánavelli inn í Nesjum. Meistaraflokkur karla lék gegn Spyrni í Mjólkurbikarnum, 3. flokkur kvenna gegn Þrótti Reykjavík og 3. flokkur karla gegn Keflavík. 

Meistaraflokkur karla mætti liði Spyrnis í Mjólkurbikarnum sl. laugardag. Spyrnismenn koma af Fljótsdalshéraði og munu leika í 4. deildinni í sumar og verða með frændum okkar Mána í riðli í sumar. Eins og kom fram hér fyrir ofan þá var leikurinn spilaður á Mánavelli við nokkuð góðar aðstæður miðað við árstíma og erfiðan vetur.

Strákarnir okkar byrjuðu leikinn af krafti og skoruðu þrjú mörk í fyrri hálfleik þar á ferðinni voru Mate Paponja, Vedo Kulovic og Rodrigo Dias. Í byrjun síðari hálfleik bætti Vedo við öðru marki og staðan orðin 4-0 Sindra í vil eftir 60 mínútur. Abdul Bangura og Björgvin Freyr bættu svo við tveimur mörkum þegar líða fór á seinni hlutann. Leiknum lauk því 6-0 fyrir heimamenn. Næsti leikur hjá mfl. karla er heimaleikur í annarri umferð Mjólkurbikarsins gegn KFA (Fjarðabyggð/Leikni F.).

3. flokkur kvenna spilaði gegn Þrótti Reykjavík strax á eftir strákunum og fór sá leikur 0-5 fyrir gestunum. Næsti leikur hjá stelpunum er heimaleikur gegn Þór/KA 24. apríl.

3. flokkur karla spilaði í gær gegn Keflavík. Sindrastrákarnir fengu mark á sig strax á fyrstu mínútum leiksins og staðan í hálfleik 0-1. Í þeim síðari sóttu SIndrastrákar hart að gestunum og voru oft nálægt því að jafna metin. Undir lok leiks skoruðu Keflvíkingar sitt annað mark og brekkan orðin erfið fyrir okkar menn. Leiknum lauk 0-2 fyrir gestunum. Næsti leikur hjá 3. karla verður úti gegn Val í Reykjavík, 21. apríl.