Aðalfundur Sindra 15.mars 2023, starfsárið 2022.

  • Post category:Fréttir

Í mars var haldinn aðalfundur Ungmennafélagsins Sindra og var mæting með ágætum. Þar var gert upp árið 2022 sem var þungt ár fjárhagslega í sögu félagsins. Formaður félagsins Gísli Már Vilhjálmsson setti fundinn, Sandra Sigmundsdóttir ritaði og Sigurður Óskar Jónsson, stjórnarmaður USÚ var fundarstjóri og fór með það hlutverk af einstakri prýði. Tvær stærstu deildir félagsins máttu þola stórt högg á reksturinn og sama má segja um aðalstjórn þar sem bílamál og framkvæmdastjóraskipti reyndust stór biti fyrir okkar litla félag. Við sjáum þó til sólar og erum vongóð með góðum stuðning, að tíminn nái að koma okkur á beinu brautina. Á fundinum urðu einhver stjórnarskipti en erfiðlega gekk að manna einhverjar stjórnir og vantar okkur enn þá fólk í stjórn fimleikadeildarinnar, knattspyrnudeildar meistaraflokkur, frjálsíþróttadeildar, sunddeildar og yngri flokka ráð körfuboltans. Ein tillaga að lagabreytingu var lögð fyrir fundinn en var það 9.gr í lögum félagsins og var tillagan samþykkt. Deildirnar gerðu upp árið sitt og farið var yfir ársreikninga og skýrslur stjórnar en það ásamt fundargerð, skipun stjórna og lagabreytingu má finna hér.

 

Sjálfboðaliðinn

Sjálfboðaliðar eru okkar afar mikilvægir og er félagið rekið á því frábæra fólki sem er tilbúið að leggja sitt af mörkum fyrir félagið. Smám saman er umhverfið í íþróttahreyfingunni á landinu að breytast hvað varðar sjálfboðaliðann og ungmennafélags andinn fer dvínandi. Erfiðlega gengur að fá fólk til þess að leggja hönd á plóg og erum við að sjá fólk brenna út vegna færra handa og fleiri verkefna og stærra starfs. Því er mikilvægt fyrir okkur að muna að án sjálfboðaliðanna getur starfið ekki gengið og margar hendur vinna léttara verk. Gleymum ekki gleðinni sem fylgir því að vera hluti af Sindrastarfinu og hjálpumst að við að halda uppi því frábæra starfi sem við höfum byggt upp saman, hér í okkar fallega sveitarfélagi.  

 

Heiðraðir

Á aðalfundi voru veitt Silfurmerki Sindra sjálfboðaliðum og stjórnarfólki sem hefur unnið óeigingjarnt starf fyrir félagið, með þakklæti fyrir þeirra framlag. Í ár voru það Arna Ósk Harðardóttir, Ingibjörg Guðmundsdóttir og Hjálmar Jens Sigurðsson.

 

Arna Ósk Harðardóttir er sitjandi formaður Knattspyrnudeildarinnar Sindra og byrjaði þar í meistaraflokksráði fyrir um 5-6 árum og hafði þá sinnt formennsku í frjálsíþróttadeild Sindra í nokkur ár. Einnig var hún foreldra tengiliður barna sinna í gegnum starfið og eftir að þau flugu á brott hefur knattspyrnudeildin verið barnið hennar og þökkum við henni fyrir hennar framlag í gegnum árin og fyrir áframhaldandi störf. 

Ingibjörgu Guðmundsdóttur hefur setið í stjórn fimleikadeildar í 10 ár og undanfarin ár hefur hún verið formaður deildarinnar. Hún hefur unnið að kappi í þágu fimleikadeildar og Ungmennafélagsins og tekið þátt í uppbyggingu deildarinnar. Ingibjörg hefur ákveðið að láta af störfum og viljum við þakka henni kærlega fyrir hennar frábæra framlag í öll þessi ár.

Hjálmar Jens Sigurðsson hefur verið máttarstólpi í körfuknattleiksdeild Sindra allt frá fyrstu dögum deildarinnar. Hann sinnti formennsku af einskærri yfirvegun og hefur verið foreldra tengiliður í starfinu. Hann hefur einnig verið ómetanlegur stuðningur við yngri flokka ráð sem var stofnað á starfsárinu. Þökkum við Hjálmari kærlega fyrir hans framlag til félagsins.

 

Janus Gilbert fyrir hönd Örnu Ósk Harðardóttur, Árdís Erna Halldórsdóttir fyrir hönd Ingibjargar Guðmundsdóttur, Hjálmar Jens Sigurðsson og Gísli Már Vilhjálmsson, formaður Sindra.

Viðurkenningar fyrir landsleik

 Veittar voru þrjár viðurkenningar til iðkenda Sindra fyrir fyrsta spilaðan landsleik. Voru það þau Birgir Leó Halldórsson, Guðmundur Reynir Friðriksson og Kristín Magdalena Barboza.

Birgir Leó Halldórsson spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Ísland í körfubolta U16 ára, sumarið 2022 á Norðurlandamótinu í Finnlandi. Birgir Leó er spilar og æfir með liðinu Zentro Basket í Madrid á Spáni og hefur verið valinn í U18 fyrir sumarið 2023.

Guðmundur Reynir Friðriksson spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Ísland í knattspyrnu U15, árið 2021 í Finnlandi. Eftir að hafa spilað með Sindra ákvað hann að færa sig yfir til Stjörnunnar þar sem hann æfir og spilar með 2.flokki og meistaraflokki.  (Mynd 2, Gísli Már formaður og Friðrik faðir Guðmundar, sem tók á móti viðurkenningu fyrir hans hönd.)

Kristín Magdalena Barboza spilaði sinn fyrsta landsleik fyrir Ísland í knattspyrnu U15, í október 2022 í Póllandi. Kristín æfir og spilar með 3. flokki og meistaraflokki Sindra og hefur verið valin í úrtaksæfingar fyrir U15 árið 2023. (Mynd3. Gísli Már formaður og Kristín Magdalena.)

Sindri óskar okkar frábæra Sindrafólki til hamingju með árangurinn sinn og áframhaldandi velgengni. Við erum ákaflega stolt og bjartsýn fyrir framtíð Sindra.

 

Framtíðin

Starfið hjá Ungmennafélaginu er metnaðargjarnt og mikið. Við viljum gefa iðkendum okkar bestu mögulegu þjónustu, aðstöðu og upplifun sem þau geta fengið. Íþróttastarf er forvarnarstarf og verðmæti þess verður ekki metið til fjár. Uppskeran skilar sér í árangri, orðspori, gleði og hamingju iðkenda okkar og af því erum við hvað stoltust af. Við viljum þakka öllum þeim styrktaraðilum sem hafa stutt við bakið á okkur á starfsárinu 2022 og hlökkum til áframhaldandi stuðnings á árinu 2023. Framtíðin er björt og ekki síst vegna þeirrar vinnu sem er í gangi innan félagsins en einnig með þeirri endurskiplags vinnu sem á sér stað á öllum íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins og er það von okkar að forgangsröðun verði gerð í samstarfi með okkur sem notum þessi mannvirki sem mest. Sveitarfélagið hefur staðið þétt við bakið á okkar félagi og trúum við því að það góða samstarf muni halda áfram og eflast ef eitthvað er. Við horfum björtum augum á framtíðina og segjum … Áfram Sindri!