Loksins var komið að því að hægt var að halda Nettó mótið í Reykjanesbæ eftir að mótshaldarar þurftu að fella það niður síðustu tvö ár vegna COVID faraldursins. Sindri hefur í mörg ár sent lið á þetta mót og er það öllu jafna hápunktur ársins hjá okkar yngstu iðkenndum. Gríðarlega mikið er lagt í umgjörð á mótinu, bæði hvað varðar keppni, afþreyingu og allar aðstæður. Mótshaldarar eiga hrós skilið hvernig tókst til í ár og hafa greinilega engu gleymt á þessum tveimur árum!
Fjögur lið fóru frá Sindra í ár skipað hrikalega efnilegum og flottum krökkum úr 1. til 5. bekk. Þjálfarar voru þeir Auðunn Hafdal og Ottó Marwin sem hlupu í skarðið fyrir Kristján Örn Ebenezerson og Gabriel Adersteg sem eru aðalþjálfarar hópsins.
Ekki eru talin stig á mótinu eða spilað til sigurs heldur er lögð áhersla á að leikgleðin sé við völd og að allir fái að spreita sig á sínum forsendum. Allir stóðu sig virkilega vel og gaman að sjá hvernig liðin urðu öflugri með hverjum leiknum eftir því sem leið á mótið. Eitt foreldri andstæðinga Sindra spurði þjálfara þess hvort ekkert internet væri á Höfn því hún velti fyrir sér hvort að þeir hefðu ekkert annað að gera allan daginn en að vera í körfubolta!
Það er því ljóst að framtíð körfunnar á Höfn hefur sjaldan verið bjartari eftir að hafa séð þessar framtíðarstjörnur félagsins láta til sín taka og voru þau sjálfum sér, aðstandendum og félaginu til sóma.
Áfram Sindri!