Ungmennafélagið hefur tekið ákvörðun að hefja stefnumótandi vinnu fyrir félagið. Til aðstoðar er Guðmunda Ólafsdóttir framkvæmdastjóri Íþróttabandalags Akranes og varastjórnarmaður hjá UMFÍ. Guðmunda hefur áður aðstoðað félög við að endurmóta og setja stefnur í takt við nýja tíma og mun reynast félaginu ákaflega vel í þessu mikla verkefni. Við erum á þeim tímamótum að við viljum ekki festast of mikið í baksýnisspeglinu heldur horfa fram á við og ákveða hvernig við viljum sjá félagið okkar í framtíðinni.
Guðmunda Ólafsdóttir.
Verkefnið er áætlað að taki 9-10 mánuði ef vel á að gera og hefst vinnan með starfskvöldum þriðjudaginn 11.febrúar og miðvikudaginn 12.febrúar. Hér vonumst við til að fá sem flesta að borðinu. Stjórnarfólk, foreldra, iðkendur, stuðningsmenn og alla þá sem vilja láta rödd sína heyrast! Með þessu móti er markmiðið að sjónarmið þvert á félagið fái að njóta sín. Á þessum fundi er skipt niður á borð og blandað saman. Fundargestir eru beðnir um að setja á mismunandi litla post-it miða styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri félagsins. Hér eru gefnar 40 mín eða 10 mín á hvert borð, hvern lið. Því næst spyrjum við okkur 3-4 lykil spurningar í stefnumótun félagsins sem snúa að grunnmarkmiðum og starfi félagsins. Eins framtíðarsýn, núverandi starfsemi og leiðum til að bæta hana.
Það er von okkar að sem flestir sjái sér fært að taka þátt í þessu mikla verkefni með okkur.
Áfram Sindri!