Serbíuferð Sindrastráka

  • Post category:Fréttir
 
Þann 6.júní síðastliðin hélt vösk sveit drengja úr Körfuknattleiksdeild Sindra í langt ferðalag í austurveg. Þetta voru 11 strákar úr 9.-11.flokki ásamt 2 fararstjórum og nokkrum foreldrum og var ferðinni heitið í æfingabúðir í Serbíu. Þeim til aðstoðar með skipulagningu og utan umhald var Bojan Desnica og vorum við svo heppin að hann gat einnig verið með okkur hluta af ferðinni.
 
Strákarnir voru búnir með hjálp foreldra að safna upp í ferðina síðastliðið rúmt ár, með ýmiskonar fjáröflun og þakka ég öllum sem studdu þá í því verkefni. Flogið var með næturflugi til Belgrad með viðkomu í Vín og þaðan var farið með rútu í rúma 3 tíma til Zlatibor þar sem dvalið var næstu átta daga við æfingar. Það voru þreyttir ferðalangar sem stigu út úr rútunni síðdegis 7.júní eftir langt ferðalag, þó fannst smá auka orka til að skreppa í tívoli enda spennan í hámarki. Zlatibor er fallegur ferðamannabær sem stendur í 1100 metra hæð í fjalllendi suðvestur Serbíu. Bærinn er vinsæll fyrir íþróttafélög að koma og æfa þar og einnig eru þar haldin mót. Þegar við komum var stórt fótboltamót U-18 liða í gangi og svo komu kvennalandslið Serbíu og Tyrklands í körfubolta til æfinga og spiluðu æfingaleiki í sömu höll og strákarnir okkar voru að æfa í. Þessi lið voru að undirbúa sig fyrir Ólympíuleikana og var gaman að fylgjast með æfingum og umgjörðinni í kringum þau.
 
Aðstaðan sem okkur var boðið upp á var til fyrirmyndar. Hótelið og íþróttahöllin eru í sömu byggingu og innifalið voru þrjár máltíðir á dag og var tekið eftir og hrósað fyrir hvað drengirnir tóku vel til matar síns. Á efstu hæð hótelsins var svo kaffitería þar sem foreldrar gátu setið og fylgst með æfingum. Æfingarnar hófust að morgni daginn eftir komuna til Zlatibor og voru þær á vegum Rauðu Stjörnunnar í Belgrad. Tvær æfingar voru á dag, einn og hálfur tími í senn. Þeim stýrði mikill meistari Mirko Mijailovic, sem þjálfað hefur yngriflokka hjá Rauðu Stjörnunni um árabil. Ekki var tekið á okkar mönnum með neinum silkihönskum, heldur var æft af ákefð og hver mínúta nýtt. Það var svolítil brekka að æfa í hitanum og í þessari hæð en Mirko hélt strákunum við efnið og þeir fóru brátt að aðlagast æfingum á þessu tempói. Þegar tími gafst milli æfinga og á kvöldin var farið niður í bæ þar sem talsvert mannlíf var og ýmisleg afþreying í boði.
 
Sindrastrákar ásamt þjálfaranum Mirko Mijailovic í æfingarleik gegn KK Sloboda Uzice.
 
 
Á þriðjudeginum 11.júní var svo farið í nágrannabæinn Uzice og spilaður æfingaleikur við drengjaliðið KK Sloboda Uzice. Liðið samanstóð af stórum og stæðilegum drengjum sem kunnu sitthvað fyrir sér í körfubolta. Þótt úrslitin hafi ekki verið okkur í hag lærðu strákarnir mikið af þessum leik og börðust til leiksloka en liðið er 4-5. besta liðið í sínum aldursflokki í Serbíu. Seinna komumst við af því að þessi 80 þúsund manna bær er sérstaklega þekktur fyrir hávaxið fólk. Eftir sjö daga stífar æfingar að hætti Mirko, þar sem strákarnir voru búnir að leggja sig alla fram við að tileinka sér það sem hann hafði fram að færa, þá var lagt af stað til Belgrad sem dvalið var næstu þrjá daga. Við kvöddum Mirko sem hafði á þessari viku ýtt strákunum út fyrir þægindaramman með frábærum æfingum á háu tempói þar sem allir lögðu sig 100% fram. Gist var á hóteli í miðborg Belgrad og vorum við þar í góðri umsjá Bojan.
 
Daginn eftir komuna til Belgrad fórum við til heimabæjar Bojans, Sremska Mitrovica, þar sem hann var búinn að skipuleggja æfingaleik fyrir okkur við KK Srem. Þar sýndu okkar strákar úr hverju þeir eru gerðir og unnu leikinn með yfirburðum. Eftir leik var svo farið á veitingahús og síðan á strönd sem er við ánna Sava og deginum eytt þar í góðu yfirlæti með Bojan og hans fjölskyldu. Næsta degi var svo eytt í Belgrad þar sem Bojan fór með hópinn á strönd, borgin skoðuð og auðvitað var líka verslað eitthvað. Notið var lífsins í veðurblíðunni eftir annasama daga á undan.
 
Sindri ásamt leiðinu Kk Srem og Bojan Desnica sem stýrði þeim í leiknum sem fór
fram í heimabæ hans Sremska Mitrovica.
.
 
 
Þriðjudaginn 18. júní var svo haldið af stað heim seinni partinn. Flogið var sömu leið til baka með viðkomu í Vín. Það voru alsælir ferðalangar sem lentu heima laust fyrir miðnætti, með góðar minningar úr frábærri ferð. Ég vil þakka strákunum og samferðafólki mínu fyrir magnaða ferð og ég veit að minningar úr ferðinni munu endast lengi.
 
Ég vil sérstaklega þakka Bojan Desnica fyrir að skipuleggja þetta allt og gera okkur kleift að koma til Serbíu og kynnast körfubolta þar og kynnast honum og fjölskyldu. Svo má ekki gleyma meistara Mirko Mijailovic sem var frábært að kynnast.
 
Sig. Ægir Birgisson Foreldri og fararstjóri.
 
Hópurinn í Belgrad ásamt farastjórum og foreldrum.