Fylkir þurfti að hafa fyrir sigrinum

Leikur Sindra og Fylkis í 16. liða úrslitum Borgunarbikarsins fór fram á Sindravöllum í fínu knattspyrnuveðri í gær miðvikudag.

Áður en leikurinn hófst og meðan hann var í gangi gekk Heimir um með söfnunarbauk og safnaði pening fyrir ferðalagi Fylkis hingað á Höfn en mikil umræða hefur verið um ferðlag Fylkis til Hafnar en leikmenn liðsins þurftu sjálfur að punga út 10.000 krónum vegna erfiðs reksturs knattspyrnudeildar Fylkis.

En nóg með það því það gengu teinréttir Fylkismenn til leiks í glænýjum og vel pressuðum bláum varabúningum. Sindramenn hræddust þó ekki bláa litinn, hvað þá Bónusgrísinn á búningunum sem starði brosandi á þá. Þegar leikurinn hófst var það augljóst að við ætluðum að selja okkur dýrt og komu ákveðnir til leiks. Við spiluðum þétta vörn og pressuðum vel á Fylkismenn. Á 16. mínútu kom góð stungusending inn fyrir vörn Fylkismanna en Bjarni Þórður markmaður Fylkis var hálfu skrefi á undan Hilmari í boltann og hreinsaði hann í burtu.

Leikmenn Fylkis leituðu mikið í reynslu Tryggva Guðmundssonar og má segja að í fyrri hálfleik hafi allt spil fram á við farið í gegnum Tryggva enda var hann duglegur að hlaupa í svæði og fá boltann í lappirnar. Um miðjan fyrri hálfleik var Viðar Örn Kjartansson nálægt því að skora er hann sendi boltann fram hjá Maja markmanni Sindra en því miður fyrir Viðar þá fór hann einnig rétt fram hjá stönginni.

Um miðjan hálfleikinn þurfti Atli A að fara útaf vegna meiðsla en ekki er vitað hvað var að honum en læknir var á staðnum og kíkti á hann og mun hann eflaust fara í frekari skoðun í dag.

Það mátti vart sjá allan fyrri hálfleikinn hvort liðið væri tveimur deildum ofar og þegar líða tók á hálfleikinn fór að bera á pirringi hjá Fylkismönnum. Undir lok hálfleiksins voru Fylkismenn þó óheppnir að komast ekki yfir í tvígang en Maja var góður og varði vel og hélt sínum mönnum inní leiknum. Í uppbótartíma voru Fylkismenn heppnir og um leið Sindramenn óheppnir að fá ekki víti þegar boltinn fór augljóslega í hönd leikmanns Fylkis. Ekkert var dæmt og gengu leikmenn því til búningsherbegja í stöðinni 0 – 0.

IMG_7000

Ásmundur þjálfari Fylkis náði greinilega að róa sína menn niður í hálfleiknum og skipuleggja spilið sinna manna betur því Fylkir komu mjög sterkir til leiks í síðari hálfleik. Það tók þá ekki nema 5 mínútur að skora fyrsta mark leiksins. Þar var á ferð Viðar Örn en hann fékk boltann í vítateig og náði skoti á nærstöngina án þess að Maja næði að klófesta boltann,staðan orðin 0 – 1. Við markið urðu mikil læti því augljóslega var brotið á Atla H. fyrir framan vítateigin en dómarinn sá það ekki, eða hreinlega vildi ekki dæma.

Sex mínútum síðar hefðu Fylkismenn hæglega geta skorað annað mark þegar Tryggvi Guðmundsson komst einn á móti Maja en hann gerði sig breiðan og varði skot Tryggva vel. Hann gat þó engum vörnum komið við tveimur mínútum síðar þegar Heiðar Geir Júlíusson skoraði eftir hornspyrnu Fylkismanna en boltinn virtist hafa haft viðkomu í einum Sindramanni og breytt örlítið um stefnu.

Stuttu síðar komst Tryggvi aftur einn í gegn en þá kom Maja okkur enn til bjargar og varði vel. Lítið markvert gerðist í leiknum eftir þetta færi Tryggva og virtust liðin vera búin að sætta sig við orðin hlut en það var Árni Freyr Guðnason ekki. Þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma nýtti Árni Freyr sér vel mistök í vörninni hjá okkur og sem varð til þess að hann sendi boltann auðveldlega í mark Sindra.

Lokastaðan varð þriggja marka sigur Fylkis og geta þeir flogið sáttir heim.

Vonbrigði ferðarinnar hjá Fylkismönnum voru þó klárlega að hafa ekki tíma til að frá gómsæta humarmáltíð þar sem flugvélin beið þeirra til að flytja þá aftur til höfuðborgarinnar. En það koma tímar og vonandi þegar þeir koma næst hafi þeir nægan tíma þó það væri ekki nema bara fyrir einn humarhala.

Við getum þó verið stolt af okkar mönnum því þetta var góður leikur og við vörðumst vel og þriggja marka sigur var ekki verðskuldaður.