Fimleikamót á Egilsstöðum

Fimleikadeild Sindra senti frá sér tvö strákalið á fimleikamót á Egilsstöðum síðasta fimmtudag. Um var að ræða vinamót Hattar og strákunum gekk mjög vel. Iðkendur frá deildinni hafa ekki keppt á móti síðan 2019 vegna covid, þannig það var kærkomið að komast á mót. Mikil gróska er hjá yngri flokkum deildarinnar og er eitt liðið skipað strákum úr 3. bekk og annað lið skipað strákum úr 4.- 6. bekk.

Í maí eru úrtökur fyrir landsliðið í hópfimleikum. Evrópumót í hópfimleikum verður í Portúgal í byrjun desember. Við eigum einn fulltrúa í úrtöku fyrir mótið og það er Friðrik Björn Friðriksson. Yfirleitt er mætt á eina æfingu í Reykjavík og sýnt hvað viðkomandi getur. Hinsvegar vegna covid var ákveðið að hafa æfingarnar hjá hverju félagi fyrir sig og æfingarnar eru teknar upp á myndbandi. Þar sem að Egilsstaðir eru komin með nýtt fimleikahús og topp aðstæður fyrir hópfimleika þá nýttum við tímann á Egilsstöðum og tökum upp myndböndin þar.

Það sem er að frétta af starfinu er að vorönnin klárast 22.maí hjá deildinni og við ætlum að enda á góðu hópefli og verðlaunaafhendingum í Heklu.