Í janúar skiptu þrjár stelpur úr fimleikadeild Sindra yfir í Gerplu. Þær Arney Bragadóttir, Tinna Marín Sigurðardóttir og Guðrún Ása Aðalsteinsdóttir. Ástæðan fyrir þeim félagsskiptum var að ekki náðist í hópfimleikalið í þeirra flokki hjá Sindra (sex að lágmarki) og aðstöðuleysi. Núverandi aðstaða veldur því að efnilegir fimleikaiðkendur leita í önnur félög þar sem aðstaðan er mun betri. Þegar iðkendur fimleikadeildar Sindra eru komnir á 12-13 ára aldur þá lenda þau á vegg vegna þess að fimleikaaðstaðan á Höfn gerir þeim ekki kleift að bæta ofan á erfiðleika í stökkum. Til þess að missa iðkendur ekki út var brugðið á það ráð að reyna að hefja einhvers konar samstarf við félag sem hefur góða aðstöðu. Gerpla varð fyrir valinu en þar í forsvari er Kristinn Þór Guðlaugsson þjálfari og hafa okkar stúlkur keppt með Gerplu á tveimur hópfimleikamótum í vetur.
Það er stefna fimleikadeildarinnar að halda í okkar góðu þjálfara sem eru starfandi við deildina og vinna af metnaði að uppbyggingu starfsins en þá er nauðsynlegt að bæta aðstöðu deildarinnar þar sem núverandi aðstaða er ekki ásættanleg. Von er á nýjum áhöldum í haust sem nýtist deildinni vel en þó er langt í land sökum fjárskorts.
Þær Guðrún Ása, Tinna Marín og Arney fóru á einstaklingsmót, bikarmót í Stökkfimi sem haldið var á Akranesi 3. maí sl. Mótið er þannig sett upp að þú gerir stökkin þín ein og sér en ekki í runu eins og hópfimleikum. Það þurfa að lágmarki þrjár að vera saman í liði því að þrjár hæstu einkunnirnar gilda. Fimm lið kepptu í 15-16 ára flokki A og stelpurnar okkar gerðu sér lítið fyrir og urðu bikarmeistarar í 15-16 ára flokki A. Glæsilegur árangur hjá þessum ungu og efnilegu fimleikastúlkum.
Í mars var haldinn árlegur foreldradagur fimleikadeildarinnar með frábærri þátttöku og þökkum við öllum þeim sem tóku þátt með okkur fyrir skemmtilegan dag.
Á döfinni hjá fimleikadeild Sindra er innanfélagsmót miðvikudaginn 14. maí nk. klukkan 17:30. Síðan fer 4. flokkur (4.-5. bekkur) á vormót í hópfimleikum á Akureyri helgina 16.-18. maí. Við ætlum síðan að enda fimleikaárið með vorsýningu 21. maí klukkan 17:30 og eru allir velkomnir.
Stjórn og þjálfarar þakka iðkendum og aðstandendum þeirra fyrir veturinn og hlökkum til að sjá ykkur í haust.
Hulda Björk Svansdóttir – formaður
Ingibjörg Guðmundsdóttir – gjaldkeri
Einar Smári Þorsteinsson – yfirþjálfari