Á nýliðnum aðalfundi var samþykkt lagabreyting á 9.gr laga félagsins og hafa þau verið uppfærð. Ný grein er þá svo hljóðandi
- Aðalstjórn Sindra fer með æðsta vald í málefnum félagsins og deilda þess milli aðalfunda.
- Aðalstjórn skal kosin á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður, ritari og gjaldkeri skulu kosnir sérstaklega. Þá koma að auki sjálfkrafa inn í stjórn formenn þeirra deilda sem starfandi eru á vegum félagsins hverju sinni. Úr þeirra röðum skal aðalstjórn kjósa sér varaformann.
- Á milli aðalstjórnarfunda skipa formaður, ritari og gjaldkeri svokallað framkvæmdaráð. Hlutverk framkvæmdaráðs er að fylgja eftir samþykktum aðalstjórnar og afgreiða mál á milli stjórnarfunda. Framkvæmdastjórn skal einnig afgreiða mál sem tengjast persónulegum og/eða fjárhagslegum hagsmunum annarra aðalstjórnarmanna innan félagsins eða deilda þess.
- Aðalstjórn er fulltrúi félagsins út á við. Hún er forsvari þess gagnvart USÚ Sveitarfélaginu Hornafirði, öðrum opinberum yfirvöldum og aðalstjórn annarra íþróttafélaga.
- Verkefni aðalstjórnar eru að auki skipting styrkja Sveitarfélagsins Hornafjarðar og lottógreiðslna auk yfirumsjónar félagatals Sindra.
- Aðalstjórn ber ábyrgð á fjármálum félagsins og deilda þess. Aðalstjórn fer með yfirstjórn allra peningamála félagsins og getur ef þörf virðist á, tekið fram fyrir hendurnar á einstaka deildum félagsins hvað öll mál varðar.
- Lántökur deilda eru óheimilar nema með samþykki aðalstjórnar.
- Leggja skal fjárhagsskuldbindingar deilda fyrir aðalstjórn til samþykktar.
- Aðalstjórn annast rekstur eigna Sindra s.s. bifreiðar.
- Kaup, sala og veðsetning eigna félagsins er bundin samþykki aðalstjórnar.
- Aðalstjórn ræður framkvæmdastjóra til að annast daglegan rekstur félagsins.
- Framkvæmdastjóri hefur, í umboði aðalstjórnar, umsjón með sameiginlegum rekstri félagsins og þjónustu við deildarstjórnir. Aðalstjórn getur falið framkvæmdastjóra frekari verkefni. Aðalstjórn setur framkvæmdastjóra starfsreglur.
- Fyrsta fund aðalstjórnar skal boða innan tveggja vikna frá aðalfundi. Fundir aðalstjórnar skulu haldnir mánaðarlega frá ágústlokum til maíloka og skulu venjubundnir aðalstjórnarfundir tímasettir fyrir allt árið á fyrsta fundi eftir aðalfund. Ritaðar skulu fundargerðir.
- Formaður boðar til stjórnarfunda og stjórnar þeim. Fundur aðalstjórnar telst löglegur ef til hans hefur verið boðað með a.m.k. eins sólarhrings fyrirvara og meirihluti stjórnarmanna er mættur.