Viðurkenningar á ársþingi USÚ

  • Post category:Fréttir

Ársþing USÚ var haldið í hinni glæsilegu Jöklaveröld inni í Hoffelli í dag. Sindrafólk mætti vel á þingið og voru viðukenningar veittar fólki úr okkar röðum bæði úr hópi iðkenda og sjálfboðaliða. Umsagnir um einstaklinga eru skrifaðar eftir minni svo þetta gæti aðeins hafa skolast til og auðvitað kemur ekki allt fram hér fyrir neðan sem sagt var um hvern og einn en vonandi takið þið viljann fyrir verkið 😉

Stinni

Kristinn Justiniano Snjólfsson knattspyrnumaður úr Sindra var valinn Íþróttamaður USÚ árið 2016. Við afhendingu verðlaunanna kom fram að hann hafi spilað alla leiki liðsins og skorað 12 af 40 mörkum Sindra í deildinni í fyrra en liðið hafi náð besta árangri sínum í áraraðir síðastliðið sumar. Þá hafi hann verið valinn besti leikmaður meistaraflokks karla og verið í liði ársins í 2. deildinni.

20170316_193939

Inga Kristín Aðalsteinsdóttir knattspyrnukona úr Sindra fékk hvatningarverðlaun USÚ. Við afhendingu verðlaunanna kom fram að hún hafi spilað alla leiki liðsins síðastliðið sumar auk þess sem hún hafi verið valin mikilvægasti leikmaðurinn í liðinu. Þá kom einnig fram að Inga Kristín leggi sig alla fram við æfingar og ástundun í fótboltanum.

20170316_194054

Hildur Margrét Björnsdóttir fimleikastúlka í Sindra fékk Hvatningarverðlaun USÚ. Fram kom við afhendingu verðlaunanna að Hildur Margrét sinni æfingum og keppni afar vel auk þess sem hún þjálfi yngri iðkendur hjá félaginu. Þá sagði einnig að hún ferðaðist 50 km til að fara á hverja æfingu.

Brynjar Máni

Brynjar Máni Jónsson körfuknattleiksmaður í Sindra fékk Hvatningarverðlaun USÚ. Fram kom við afhendingu verðlaunanna að Brynjar Máni sinni æfingum og keppni afar vel og sé mjög efnilegur körfuboltamaður.

 

Okkar eina sanna Arna Ósk Harðardóttir fékk starfsmerki UMFÍ. Mikil lofræða var haldin um sjálfboðastörf Örnu innan íþróttahreyfingarinnar og var þar engu orði ofaukið. Þar kom m.a.  fram að hún hafi verið í ýmsum stjórnum og sjálfboðaliðastörfum hjá USÚ, sveitarfélaginu og Sindra, hafi leikið stórt hlutverk á Unglingalandsmóti UMFÍ á Höfn árið 2013, tæki iðulega að sér fundarstjórnun á aðalfundum og ársþingum, tæki að sér að rita, mæla og stýra mótum og sæti nú í stjórn knattspyrnudeildar og kvennaráði meistaraflokks kvenna. Þá sagði einnig að hún hefði verið ötull stuðningsmaður keppenda í Sindra og þótt hún ætti ekki sjálf stelpu í meistaraflokki eins og er þá væri hún hálfgerð mamma þeirra allra, enda algjör ofurfótboltamamma. Ég segi það og skrifa – það ættu öll félög að eiga amk eina svona Örnu, hún er gulls ígildi!!!

Þá voru hjónin Zophonías Torfason og Guðrún Ingólfsdóttir heiðruð með silfurmerki ÍSÍ. Ég veit ekki hvort Sindri megi eigna sér þau alveg með húð og hári en þau hafa unnið mikið starf fyrir félagið og frjálsíþróttadeildina í gegnum árin sem við erum afar þakklát fyrir. Afrekaskrá þeirra í frjálsum íþróttum er löng og glæsileg og var sagt frá því að Guðrún hefur sett fjölda Íslandsmeta og á þau þó nokkur enn þann dag í dag. Sérstaklega var minnst á Íslandsmet hennar í kringlukasti sem staðið hefur í 35 ár! Glæsilegir íþróttamenn þau heiðurshjón og hafa þau unnið ötullega á vel flestum mótum sem haldin hafa verið hér í frjálsum íþróttum, auk þess að þjálfa og sinna ýmsum stjórnarstörfum og öðru sjálfboðaliðastarfi.

Ungmennafélagið Sindri óskar ofangreindum aðilum innilega til hamingju með viðurkenningarnar. Þau eru öll vel að þessu komin og eiga heiður skilinn fyrir framlag sitt til íþrótta- og æskulýðsstarfs í sýslunni!