Forvarnir í einelti

 

Þjálfarinn gegnir lykilhlutverki í uppeldisstarfi íþróttafélaga og í starfi sínu er honum oft trúað fyrir jákvæðum, jafnt sem neikvæðum atvikum og jafnvel einelti. Mikilvægt er að þjálfari rannsaki eða kanni hvað raunverulega gerðist, heyri upplifun viðkomandi aðila og meti svo hvort um einelti er að ræða eða ekki. Ef svo er skal griðið til aðgerðaráætlunar félagsins. Mikilvægt er fyrir þjálfara að skrá allt hjá sér og vera ekki einir í viðtölum þegar jafn alvarlegt mál og einelti eru annars vegar.

Íþróttafélagið einsetur sér að leysa eineltismál á farsælan og ábyrgan hátt. Félagið hefur upplýsingaskyldu gagnvart foreldrum og forráðamönunnum barna og ungmenna og reynir að rekja þá skyldu eins og frekast er unnt. Viðkvæm mál verða ekki leyst án þess að trúnaður og traust ríki milli þeirrra sem málin varða og þeirra sem að þeim koma. Í minniháttar tilvikum nægir að þjálfari eða starfsmaður ræði við iðkanda/iðkendur um hegðunina til að mál leysist farsællega. Aðgerðarferli félagsins er eftirfarandi:

  1. Þeir sem verða varir við samskiptavanda reyna að leysa hvert atvik um leið og það kemur upp eða eins fljótt og unnt er. Líklegast er að þjálfari, starfsmaður og/eða sjálfboðaliði, sem starfar fyrir félagið, geti leyst sum mál strax. Að grípa fljótt inn í með þessum hætti getur komið í veg fyrir að mál vindi upp á sig og verði mun erfiðari viðfangs. Því er mjög mikilvægt að bregðast alltaf við neikvæðri hegðun og leiða slíkt aldrei hjá sér.
  2. Ef ekki næst að leysa málið strax er mikilvægt að þjálfarinn kanni nánar hvað búið er að ganga á. Ræða þarf við iðkendur sitt í hvoru lagi til að fá staðreyndir á hreint. Síðan ber að tilkynna málið til yfirþjálfara/framkvæmdastjóra eða formanns deildarinnar. Þjálfarinn, í samráði við þessa aðila hefur í kjölfarið samband við foreldra/forráðamenn þeirra iðkenda sem koma að málinu. Einnig gæti komið til þess að boða foreldra allra iðkenda í hópnum á fund.
  3. Ef málið er orðið stærra en svo að hægt sé að leysa það á farsælan hátt samkvæmt liðum 1 og 2 hér að ofan, verður leitað til sérfræðinga um eineltismál utan félagsins.

 

Viðbrögð við kynferðislegu ofbeldi 

Í 16. og 17. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 er að finna ákvæði um tilkynningarskyldu til barnaverndaryfirvalda ef ljóst þykir að barn hafi verið vanrækt, því misþyrmt eða ef það býr við aðstæður sem geta lagt heilsu þess og þroska í hættu. 16. gr. hefur að geyma almenn ákvæði, þ.e. snýr að skyldu almennings en 17. gr. inniheldur ítarlegri ákvæði varðandi þá sem stöðu sinnar vegna hafa afskipti af börnum. Sú grein snýr einnig að þjálfurum og öðrum þeim er vinna með börnum innan íþróttahreyfingarinnar. Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

Aðgerðarferli félagsins er eftirfarandi:

  1. Ef grunur vaknar hjá starfsmanni/þjálfara/sjálfboðaliða um að iðkandi hafi orðið fyrir ofbldi af einhverju tagi þ.m.t. kynferðislegu ofbeldi skal viðkomandi leita með áhyggjur sínar til yfirmanns.
  2. Upplýsa skal foreldra um málið sem fyrst.
  3. Ríki óvissa með hvort tilkynna eigi mál til barnaverndaryfirvalda á stjórn félags ávallt kost á að leita ráða og fá viðbrögð frá barnaverndaryfirvöldum í viðkomandi sveitarfélagi.
  4. Tilkynning til barnaverndaryfirvalda eða lögreglu er að öllu jöfnu gerð í nafni félagsins, sér í lagi ef meintur gerandi er starfsmaður þess eða iðkandi.
  5. Tilkynningarskyldan gengur framar þagnarskylduákvæðum.
  6. Taki yfirvöld mál til rannsóknar þar sem meintur gerandi er starfsmaður er honum vikið úr starfi sínu tímabundið á meðan á rannsókn málsins stendur yfir.
  7. Leiki grunur á að brotið hafi verið á barni á heimili er öryggis þess best gætt með því að tilkynna það beint til viðkomandi barnaverndaryfirvalda.
  8. Ef barn segir frá ofbeldi á það alltaf að njóta vafans. Trúa skal orðum og upplifunum þess, þá er mikilvægt er að hlusta á barnið en varast skal að yfirheyra það. Láta skal barnið vita að það er rétt að segja frá og að ofbeldið sé ekki á ábyrgð þess. Tilkynna skal því næst atvikið til barnaverndar eða lögreglu.