Á Höfn í Hornafirði var stigið stórt framfaraskref í hugarþjálfun íþróttafólks þegar Ungmennafélagið Sindri og Haus hugarþjálfun skrifuðu undir samning sem felur í sér að Haus hugarþjálfun sjái um innleiðingu á reglulegri og umfangsmikilli vinnu með hugarfarslega þætti hjá öllum iðkendum félagsins. Vinnan felur í sér reglulega og viðamikla fræðslu til iðkenda og þjálfara, æfingaprógrömm fyrir iðkendur, þjálfarahandbók fyrir alla þjálfara sem tryggir sem vandaðasta eftirfylgni með vinnunni á æfingum, auk viðveru hugarþjálfara á æfingum.
Sindri er fyrsta félagið á Íslandi sem fer í svo viðamikla vinnu með hugarfarslega þætti fyrir sína iðkendur og hlakkar mikið til þess að vinna með Haus Hugarþjálfun í framtíðinni.