Félagið var stofnað af um 15 ungmennum á Höfn í Hornafirði 1. desember 1934. Þá voru íbúar Hafnarhrepps 204. Áður höfðu ungmennin á Höfn verið í Mána í Nesjum, en þéttbýlið óx og með því þörfin fyrir félagsskap íbúanna. Sem venjan var á þeim tíma þá tóku félagsmenn uppá ýmsu og var þetta aðalfélagsskapur yngra fólks í þorpinu frá stofnun og framum 1965. Má nefna rekstur Sindrabíós, blómlegt leiklistarlíf uns Leikfélag Hornafjarðar var stofnað af Sindrafólki, sem áður hafði leikið undir nafni Sindra.
Á fyrstu árunum handskrifuðu nokkrir félagsmanna Leiftur, þ.e. málgagn félagsins og var það lesið á fundum félagsins. Eftir stríð voru herliðsbraggar tveir fluttur af Suðurfjörunum og komið fyrir á Heppunni og varð Sindrabragginn aðalsamkomustaður og kvikmyndahús Hafnarbúa í ein 20 ár eftir stríð. Fólk lagði vinnu í gerð íþróttavallar nokkuð innan við þorp, í garðlöndum Hafnarbúa, gegnt aflagðri mjólkurstöð nú. Þá má nefna skólahald, kartöfluræktun, revíusamning og flutning, sumarferðalög innan héraðs, sem var mikið átak í vatnahérðinu Hornafirði er flestar ár óbrúaðar og vegagerð skammt á veg komin, hvað þá að bifreiðaeign væri almenn. Áðurnefndur völlur var notaður meira og minna framundir 1970 eða svo. Félagsmenn fengu þá að ráðast í gerð malarvallar þar sem nú stendur Ásgarður. Sá völlur var frekar lítill og ekki mjög spennandi, en var eiginlega strax tekinn af bæjarfélaginu undir lóðir.
Um 1965 taka ungir menn við félaginu og eftir það er félagið nær eingöngu íþróttafélag. Í fyrstu notuðu Sindramenn bláan keppnisbúning, en rauður varð fljótt eða um 1970 aðallitur félagsins. Það er semsagt um 1965 sem Sindri tekur fyrst þátt í Íslandsmóti í knattspyrnu og höfum við verið með allar götur síðan, með einhverjum hléum þó. Og starfið hefur smám saman undið uppá sig. Þannig var knattspyrna eiginlega eina greinin sem stunduð var framanaf allavega með keppni í huga. Núna er reynt að bjóða uppá eins fjölbreytt íþróttalíf og hægt er. Mestu ræður um framboðið hvernig gengur að fá leiðbeinendur til starfa, og er það upp og ofan. Um nokkurt skeið hefur verið unnið að ritun sögu félagsins og er það starf í höndum Arnþórs Gunnarssonar sagnfræðings. Vonast er til að hún geti komið út innan skamms.
Merki Sindra gerði Bjarni Henriksson listamaður á Hornafirði að ósk Alberts Eymundssonar. Í augnablikinu er ártalið á þeirri beiðni á reiki. Hann gerði fleiri en eitt merki og var annað form t.d. notað uppúr 1970.