1.grein – Nafn félags og varnarþing
Ungmennafélagið Sindri er heiti þess og er skammstafað UMF. Sindri. Heimili og varnarþing félagsins er á Höfn, í Sveitarfélaginu Hornafirði.
2.grein – Tilgangur félags og grunngildi
Tilgangur félagsins er rekstur íþróttadeilda og að glæða áhuga á hreyfingu og íþróttaiðkun á Höfn í Hornafirði. Félagið er ekki rekið í ágóðaskyni, skal starfa faglega og starfrækja af metnaði fyrirmyndar íþróttafélag þar sem boðið er upp á fjölbreytt íþróttastarf í einstaklings og hópíþróttum með heilbrigði og vellíðan að leiðarljósi. Félagið skal leitast við öðlast þá gæðaviðurkenningu frá ÍSÍ sem hægt er hverju sinni, eins og Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og skulu stjórnir jafnt félagsins og deilda leggja sig fram við að fullnægja skyldum sem því fylgja.
Grunngildi félagsins eru heiðarleiki, samvinna, metnaður og virðing.
3.grein – Merki félags og búningur
Merki félagsins er stafirnir UMF SINDRI HÖFN á rauðum grunni, sem ber útlínur bókstafsins S í skjaldarformi. Aðalbúningur félagsins er rauð treyja, rauðar buxur og rauðir sokkar.
4.grein – Aðild að heildarsamtökum
Félagið er aðili að Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands (ÍSÍ) og sérsamböndum þess, Ungmennafélagi Íslands og Ungmennasambandinu Úlfljóti og er háð lögum þeirra og ákvörðunum.
5.grein – Félagar
Allir iðkendur, stjórnarfólk ásamt þjálfurum allra deilda og félagsins eru sjálfkrafa félagar í Umf. Sindra. Félagi getur orðið hver sá sem þess óskar og greiðir félagsgjald sem ákveðið er á aðalfundi ár hvert. Félagsgjald er innheimt árlega.
Úrsögn úr félaginu skal tilkynnt skriflega til aðalstjórnar sem heldur utan um félagatal. Félagsgjöld renna í aðalsjóð.
6.grein – Skipulag félagsins
Aðalfundur félagsins hefur æðsta vald í öllum málum þess. Aðalstjórn félagsins er æðsti aðili í málefnum þess milli aðalfunda og mótar starfsemina í aðalatriðum, í samráði við deildarstjórnir. Aðalstjórn hefur umsjón með sameiginlegum rekstri félagsins, svo sem mannvirkjum, skrifstofu félagsins sem og þjónustu við deildarstjórnir. Meginstarfsemi félagsins fer fram í deildum. Hver deild hefur sjálfstæðan fjárhag og stjórn sem kosin er á aðalfundi félagsins. Stjórnir innan félagsins skulu hver á sínu sviði vinna af metnaði og í samræmi við stefnu félagsins á hverjum tíma.
Reikningsár félagsins skal vera almanaksárið.
Skoðunaraðilar félagsins eru kjörnir á aðalfundi.
7.grein – Aðalfundur félagsins
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins. Haldinn er sameiginlegur aðalfundur allra deilda innan félagsins og skal hann fara fram eigi síður en15.mars ár hvert. Aðalfund skal boða með minnst sjö daga fyrirvara. Fund skal boðað með auglýsingum í staðarfjölmiðlum séu þeir til staðar, netmiðlum félagsins og á áberandi stöðum á félagssvæðinu. Í auglýsingu skal dagskrá aðalfundar koma fram ásamt því hvort tillögur að lagabreytingum verði lagðar fram á fundinum.
Aðalfundur er löglegur, ef löglega hefur verið til hans boðað.
Rétt til fundarsetu hafa allir lögmætir félagsmenn.
Kjörgengi til stjórnarstarfa og annarra trúnaðarstarfa fyrir félagið hafa allir lögráða félagar, sem uppfyllt hafa skyldur sínar við félagið.
Á aðalfundi hafa fullgildir lögráða félagar, aðalstjórn Sindra ásamt stjórnum deilda Sindra einir atkvæðisrétt. Enginn getur farið með fleiri en eitt atkvæði á aðalfundi.
Dagskrá aðalfundar:
- Setning
- Kosinn fundarstjóri og fundarritari
- Aðalstjórn og deildarstjórnir flytja skýrslur sína fyrir síðasta starfsár
- Lagðir fram reikningar félagsins staðfestir af stjórnum
- Umræða um skýrslu stjórna. Reikningar bornir upp til samþykktar
- Lagabreytingar
- Ákvörðun félagsgjalda félagsmanna
- Aðrar tillögur sem eru til afgreiðslu á fundinum
- Stjórnir leggja fram fjárhagsáætlun næsta árs til samþykktar
- Kosningar
- Kosning í stjórnir deilda
- Kosning formanns aðalstjórnar
- Kosning fjögurra annarra aðila í aðalstjórn.
- Kosning tveggja skoðunaraðila
- Önnur mál.
Einfaldur meirihluti ræður úrslitum, nema ef um lagabreytingar er að ræða, þá þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða. Málefni sem félagar óska eftir að tekin verði fyrir á fundinum skulu tilkynnt stjórn félagsins minnst tveimur vikum fyrir fund.
Aðalfundur getur með 2/3 hluta atkvæða leyft að taka fyrir mál, sem fram er komið eftir að dagskrá fundar var auglýst.
8.grein – Aukaaðalfundur félagsins
Aukaaðalfund má halda ef nauðsyn krefur skv. ákvörðun stjórnar félagsins eða ef minnst 30 félagar óska þess. Aukaaðalfundur er lögmætur ef til hans er boðað samkvæmt ákvæðum 7. greinar þessara laga. Á aukaaðalfundi má ekki gera lagabreytingar og aðeins kjósa bráðabirgðastjórn. Sú stjórn skal sitja til næsta reglulega aðalfundar.
9.grein – Aðalstjórn félagsins.
Aðalstjórn Sindra fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda. Aðalstjórnina skipa fjórir aðilar auk formanns. Æskilegt er að aðilar í aðalstjórn sitji ekki í stjórn deilda.
Aðalstjórn skal kosin á aðalfundi til eins árs í senn. Formaður, skal kosinn sérstaklega, aðrir í einu lagi. Stjórn skiptir með sér öðrum verkum en formennsku á fyrsta fundi stjórnar eftir aðalfund. Fundur aðalstjórnar telst löglegur ef sé til hans hefur verið boðað með a.m.k. eins sólarhrings fyrirvara og ásamt því að meirihluti stjórnarmanna er sé mættur.
Fundargerðir stjórnar skal ritari halda utan um, varðveita til geymslu og eftir bestu getu hafa þær aðgengilegar á heimasíðu félagsins. Ritari getur úthlutað framkvæmdastjóra að rita og varðveita fundargerðir.
10.grein – Starfssvið aðalstjórnar.
Aðalstjórn skal annast daglegan rekstur, ráðningu framkvæmdastjóra og eftir atvikum annað starfsfólk í samráði við framkvæmdastjóra, svo og framkvæmdir á vegum UMF. Sindra komi til þeirra.
Aðalstjórn skal setja sér starfsreglur, þar sem m.a. er kveðið á um nánar fyrirkomulag stjórnarfunda, boðun þeirra og önnur almenn atriði varðandi starfs stjórnarinnar sem hún telur þörf á að hafa í starfsreglum.
Aðalstjórn er fulltrúi félagsins út á við. Aðalstjórn er í forsvari félagsins gagnvart USÚ, Sveitarfélaginu Hornafirði og öðrum opinberum yfirvöldum.
Verkefni aðalstjórnar er skipting styrkja Sveitarfélagsins Hornafjarðar samkvæmt samþykktum úthlutunarreglum ásamt úthlutun á lottófé sem úthlutað er samkvæmt samþykktri reglugerð. Aðalstjórn heldur einnig utan um félagatal UMF. Sindra.
Aðalstjórn ber ábyrgð á fjármálum félagsins og ber endanlega ábyrgð á fjármálum allra deilda félagsins samkvæmt lögum ÍSÍ.
Stjórn er heimilt að boða deildarstjórnir á sinn fund til viðræðna um málefni deildarinnar.
Lántökur deilda eru að öllu óheimilar án fyrir fram heimildar aðalstjórnar. Beiðni um lántöku þarf að fylgja endurgreiðsluáætlun.
Allar fjárhagsskuldbindingar skulu samþykktar af aðalstjórn. Ársfjárhagsáætlun með upplýsingum um fjármögnun áætlunar skal leggja fram til stjórnar við upphaf árs, eða eigi síðar en við upphaf tímabils hverrar deildar.
Aðalstjórn annast rekstur eigna UMF. Sindra s.s. bifreiðar og húsnæðis.
Kaup, sala og veðsetning eigna félagsins er bundin samþykki aðalstjórnar.
Aðalstjórn er heimilt að skipa þær nefndir sem stjórn telur þörf fyrir.
Aðalstjórn fer með fjármál félagsins og ber endanlega ábyrgð á fjármálum allra deilda félagsins.
Sjóði félagsins skal ávaxta á árangursríkan og öruggan hátt.
11.grein – Framkvæmdastjóri
Framkvæmdastjóri starfar í umboði aðalstjórnar, er með umsjón á daglegum rekstri félagsins og þjónustu við deildir. Aðalstjórn setur upp starfslýsingu framkvæmdastjóra ásamt verklagsreglum um starf framkvæmdastjóra. Formaður aðalstjórnar er næsti yfirmaður framkvæmdastjóra.
Framkvæmdastjóri hefur prókúru fyrir félagið ásamt formanni félagsins. Meirihluti stjórnar bindur félagið.
12.grein – Formannafundir
Aðalstjórn ber skylda til þess að halda a.m.k. þrjá formannafundi á ári. Á formannafundum eru deildir upplýstar um starfsemi félagsins ásamt því að stefnumótandi ákvarðanir fyrir félagið eru lagðar fyrir þessa fundi til ákvörðunar s.s. verklag skrifstofu og starfsmanna.
13.grein – Stjórn og rekstur deilda
Um hverja íþróttagrein getur aðeins ein deild starfað innan félagsins. Sérhver deild er hluti af UMF. Sindra og skal starfa í samræmi við lög, stefnu og gildi félagsins.
Deildum félagsins er heimilt að setja sér starfsreglur á aðalfundum sínum, sem skulu staðfestar á aðalfundi félagsins og séu í samræmi við stefnur og lög félagsins.
Deildarstjórn ræður daglegum rekstri deildarinnar. Hver deild hefur stjórn og sjálfstæðan fjárhag. Stefna deildarinnar skal vera í samræmi við stefnu félagsins. Deildir eru háðar samþykki aðalfundar félagsins um starfsemi sína ásamt fjármálum, einnig aðalstjórnar félagsins milli aðalfunda. Hver deild skal vinna af fagmennsku og metnaði í öllu sínu starfi, hvort sem það er í ráðningum þjálfara eða öðru. Ávallt skal hafa heildarhag iðkenda og félagsins að leiðarljósi í öllum ákvarðanatökum.
Hver deild er fjárhagslega sjálfstæð, þó með endanlegri ábyrgð aðalstjórnar. Deild skal skila skoðuðum og staðfestum ársreikningum ásamt skýrslu til aðalstjórnar tveim vikum fyrir aðalfund deildarinnar. Allar stærri fjárhagslega skuldbindingar deilda ber að leggja fyrir aðalstjórn hverju sinni til samþykktar. Vanræki deild að skila fjárhagsáætlun í upphafi árs hefur aðalstjórn heimild til niðurfellinga á styrkjum til viðkomandi deildar.
Hver deild skal sjá til þess að allt bókhald deildarinnar sé fært samkvæmt reglugerðum um bókhald deilda, í samvinnu við aðalstjórn. Stjórn deildar ber ábyrgð á að réttar upplýsingar séu sendar til þar til bærra yfirvalda s.s. skattayfirvalda. Aðalstjórn hefur á hverjum tíma rétt til þess að skoða bókhald og fjárreiður deilda. Í því skyni getur aðalstjórn tilnefnt trúnaðaraðila til slíkra verka, sem getur komið með tillögur og jafnvel fyrirmæli um úrbætur ef þurfa þykir.
Afreksstarf og fjármögnun þess skal aðgreint sérstaklega í reikningum og bókhaldi deilda.
Hver deild skal halda gerðarbók um allar ákvarðanir ásamt öðru er markvert þykir sem varðar starf hennar. Í lok árs skal draga saman helstu atriði í starfsemi deildarinnar sem myndar skýslustjórnar í árslok. Stjórn deildar ber ábyrgð á ritun fundagerða á aðalfundi deildarinnar ásamt stjórnarfundum og koma þeim til aðalstjórnar eftir hvern fund. Gerðarbók skal vera aðgengileg aðalstjórn félags á hverjum tíma.
Hver deild skal halda nákvæma skrá yfir iðkendur deildarinnar. Iðkendaskrá skal vera aðgengileg aðalstjórn og framkvæmdastjóra hverju sinni. Iðkendur skulu vera skráðir í það tölvukerfi sem viðurkennt er og UMF. Sindri notar hverju sinni.
Hver deild skal fara með fulltrúavald gagnvart sínu sérsambandi innan ÍSÍ og jafnframt vera tengiliður við þau sérsambönd.
Eignir hverrar deildar teljast sameign félagsins, verðlaunagripir og verðmæt skjöl skulu vera í vörslu aðalstjórnar á skrifstofu félagsins.
14.grein – Stofnun og niðurlagning deilda
Aðalstjórn félagsins skal hafa umsjón með stofnun nýrra deilda og setur nýrri deild starfsreglur til að starfa eftir. Stofnfundur deildar skal fara fram samkvæmt reglum um aðalfundi deilda.
Hætti deild störfum er stjórn deildarinnar skylt að afhenda eignir hennar til aðalstjórnar félagsins. Hefjist starfsemi hennar ekki að nýju innan tveggja ára, ber að sækja um stofnun að nýju.
15.grein – Aðalfundir deilda
Aðalfundir deilda skulu fara fram samhliða aðalfundi félagsins.
16.grein – Stjórnir deilda
Hver deild skal hafa þriggja manna stjórn að lágmarki; formann, auk tveggja til fjögurra aðila sem skipta með sér öðrum embættum innan stjórnar. Þó er heimilt, samkvæmt ákvörðun aðalstjórnar, að deild starfi með tvö ráð, meistaraflokksráð/afreksráð annars vegar og yngriflokkaráð hins vegar, án deildarstjórnar. Í hvoru ráði skulu sitja að lágmarki 5 aðilar. Ef ráðin starfa án deildarstjórnar gilda sömu reglur og um deildir, sjá greinar 12 -14.
Aðalstjórn hefur heimild til þess að virkja deildarstjórn þeirra deilda sem starfað hafa án deildastjórna ef slíkt er talið nauðsynlegt vegna reksturs, stjórnskipulags eða annarra málefna innan deildarinnar.
Deildarstjórn og ráð deilda skulu vinna að eflingu sinna íþróttagreina og ákveða æfingargjöld í samræmi við reglur aðalstjórnar. Ráðin skipa fulltrúa á formannafundi og á aðalfund félagsins.
Brjóti deildarstjórn eða ráð deildar alvarlega gegn skyldum sínum samkvæmt lögum félagsins eða í ljós koma alvarlegir misbrestir í starfi hefur aðalstjórn heimild til aðgerða. Bregðist deildarstjórn eða ráð ekki við skriflegri áskorun aðalstjórnar um úrbætur með fullnægjandi hætti innan 14 daga getur aðalstjórn vikið stjórn eða ráðum til hliðar og tekið yfir rekstur viðkomandi deildar eða ráðs til bráðabirgða.
Þá skal aðalstjórn efna til aukaaðalfundar deildar eins fljótt og auðið er, þó eigi síðar en tveimur mánuðum frá því að aðalstjórn vék stjórn eða ráðum til hliðar.
17.grein – Aukaaðalfundir deilda
Aukaaðalfund deildar skal halda ef aðalstjórn eða deildarstjórn telur þess þörf. Aukaaðalfundur er lögmætur, ef til hans er boðað samkvæmt ákvæðum 14. grein þessara laga. Aukaaðalfundur hefur sama vald og aðalfundur. Lagabreytingar og stjórnarkosning skulu þó ekki fara fram á aukaaðalfundi nema brýn nauðsyn beri til.
18.grein – Sérráð deilda skyldur og rekstur
Starfræki deild afreksstarf og barna- og unglingastarf samhliða er deild skylt að starfrækja tvö ráð innan sinna vébanda, meistaraflokksráð/afreksráð annars vegar og yngriflokkaráð hins vegar. Í hvoru ráði skulu sitja að lágmarki 3 aðilar.
Ráðin starfa í samræmi við stefnu og gildi félagsins. Ráðin geta leitað til aðalstjórnar telji þau að hagsmunum sinna mála sé ekki sinnt sem skyldi af deilarstjórn eða ráði deildar. Aðalstjórn hefur heimild til þess að kalla deildarstjórnir eða ráð deilda til sín, fara yfir sjónarmið allra og leysa úr ágreiningi sé hann til staðar. Aðalstjórn getur fengið utanaðkomandi aðstoð við úrlausn mála ef þurfa þykir.
Einn fulltrúi frá hvoru ráði skal sitja í stjórn deildar þegar deildarstjórn er starfrækt, til gæslu á hagsmunum hvors ráðs fyrir sig.
Bókhald, ársreikningar og fjárreiður deildar skal vera uppskipt og ekki flæði fjármagns á milli, nema að undangengnu samþykki deildarstjórnar og aðalstjórnar félagsins.
Meistaraflokksráð/afreksráð sér um daglegan rekstur á afreksstarfi í samráði við framkvæmdastjóra félagsins og deildarstjórn (eða aðalstjórn þegar ráðin starfa án deildarstjórnar), þ.e. fjármögnun afreksstarfs, ráðning þjálfara í samstarfi við framkvæmdastjóra félagsins og í samræmi við stefnu og gildi félagsins, samninga við leikmenn, sé það í starfi deildarinnar, og umsjón með keppnisleikjum og umgjörð þeirra.
Yngriflokkaráð sér um daglegan rekstur á barna- og unglingastarfi í samráði við framkvæmdastjóra félagsins og deildarstjórn (eða aðalstjórn þegar ráðin starfa án deildarstjórnar) og framkvæmdastjóra félagsins, þ.e. fjármögnun á starfi barna og unglinga sé þess þörf umfram æfingagjöld, umgjörð keppnisleikja og ráðning þjálfara í samstarfi við framkvæmdastjóra félagsins.
19.grein – Niðurlagning félagsins
Tillögu um að leggja félagið niður má aðeins taka fyrir á lögmætum aðalfundi.
Tillaga um að leggja félagið niður skal koma fram í fundarboði.
Til samþykktar þess að leggja félagið niður þarf minnst 4/5 hluta atkvæða.
Sé samþykkt að leggja félagið niður, skal boða til aukaaðalfundar til að staðfesta niðurstöðuna.
Sé félagið lagt niður skulu hugsanlegar eignir þess renna til Ungmennasambandsins Úlfljóts.
20.grein – Lagabreytingar
Lögum þessum má ekki breyta, nema á aðalfundi félagsins, og þarf til þess samþykki 2/3 hluta atkvæðisbærra fundarmanna. Tillögur til lagabreytinga og stofnun nýrra deilda innan félagsins skulu tilkynntar með aðalfundarboði, og skulu þær liggja frammi hjá aðalstjórn félagsins eigi skemur en 7 dögum fyrir aðalfund.
21.grein – Gildistaka
Lög þessi öðlast þegar gildi, hafi þau fengið staðfestingu frá USÚ og ÍSÍ og falla þar með úr gildi öll fyrri lög félagsins.
Höfn í Hornafirði 29.apríl 2024.