🌘 Miður vetur
Þorri er fjórði mánuður vetrar Íslenska misseristalsins og upphaf hans því miður vetur mitt á milli Fyrsta vetrardags og Sumardagsins fyrsta.
Í fornum sögum er oft minnst á Miðsvetrarblót og var það mjög í hávegum haft enda eitt þeirra þriggja blóta sem Óðin gaf skipun um að skyldu haldin. Þar var blótað til sumars og það tileinkað Frey og honum drukkið full.
Líklegt er talið að Miðsvetrarblót hafi verið annaðhvort fyrsta dag Þorra eða á Þorratungli. Af heimildum má ráða að það hafa verið haldið einhvern tímann seinnipart janúar eða fyrripart febrúar svo hvort heldur sem er gæti verið rétt.
Að minnsta kosti er ljóst bara af nafni þess einu sér að það hafi verið haldið á þessum tíma þótt ekki sé víst að það hafi verið bundið við neinn ákveðinn dag.
Sumir hafa viljað meina að Miðsvetrarblótið hafi verið hin fornu Jól en það verður að teljast frekar ólíklegt þar sem lýsingum á þessum tveim hátíðum ber ekki saman. Sem dæmi þá virðast hin fornu Jól ekki hafa verið eiginlegt blót en það var Miðsvetrarblótið aftur á móti.
▶︎ Nánar um Miðjan vetur á Íslenska Almanaksvefnum
▶︎ Nánar um Þorratungl á Íslenska Almanaksvefnum