⭐️ Hundadagar enda
Hundadagar eru tiltekið skeið sumars um heitasta tímann. Nú talið frá 13. júlí (Margrétarmessu) til 23. ágúst eða 6 vikur en voru áður taldir vera frá 23. júlí til 23. ágúst.
Nafnið mun komið frá Rómverjum er sóttu hugmyndina til Forn-Grikkja. Grikkir settu sumarhitana í samband við stjörnuna Síríus sem Íslendingar kölluðu Hundastjörnuna allt frá fyrrihluta 18. aldar sem er bjartasta stjarnan í stjörnumerkinu Stóri-hundur (Canis Major) sem um þetta leyti árs fór að sjást á morgunhimninum.
Hjá íslendingum er Hundadaga nafnið helst tengt minningunni um Jörund (Jørgen Jørgensen) sem tók sér völd á Íslandi 25. júní 1809 en var hrakinn frá völdum 22. ágúst sama ár. En hann hefur almennt verið kallaður Jörundur Hundadagakonungur.
Sú veðurtrú var áður fyrr á Íslandi að ef á Margrétarmessu þann 13. júlí væri rigning eða dögg myndi það sem eftir lifði sumars og hausts verða það líka eins og þessi veðurvísa segir:
Ef á Margrétarmessu er dögg
mun það lítið bæta,
þá mun haustið hey og plögg
í húsum inni væta.
▶︎ Nánar um Hundadaga á Íslenska Almanaksvefnum