✊🏻 Verkalýðsdagurinn-Fyrsti maí
Verkalýðsdagurinn 1. maí sem oftast er aðeins kallaður Fyrsti maí í daglegu tali er Alþjóðlegur baráttudagur verkafólks.
Upphaf hans má rekja til ráðstefnu Alþjóðasamtaka Sósíalista og Kommúnista í París árið 1889 sem haldin var í tilefni þess að hundrað ár voru liðin frá því að parísarbúar tóku hið fræga virki Bastilluna. Einnig til að minnast blóðbaðsins á Haymarket torgi í Chicago 1887 þar sem friðsamlegur samstöðufundur með verkamönnum sem voru í verkfalli og kröfðust átta klukkustundastunda vinnudags breyttist í blóðbað er dínamít sprengja var sprengd á svæðinu er lögreglan hugðist leysa fundin upp.
Á ráðstefnunni varð 1. maí fyrir valinu sem Alþjóðlegur baráttudagur verkafólks þótt þeir tveir atburðir sem voru tilefni hennar hefðu ekki átt sér stað þann dag. Hertaka Bastilluinnar var þann 14. júlí og blóðbaðið á Haymarket torgi 4. maí.
Á Íslandi var fyrsta 1. maí kröfugangan gengin 1923. Fyrsti maí var fyrst skilgreindur sem Frídagur verkafólks í almennum kjarasamningum ekki ósvipað og Frídagur verslunarmanna var í upphafi aðeins frídagur verslunarfólk en í lögum árið 1966 var hann gerður að Lögbundnum frídegi á Íslandi.
1. maí sem hátíðisdagur rekur þó uppruna sinn langt aftur í aldir. Víða var haldið upp á hann í heiðnum sið sem endalok vetrar og upphaf sumars. Til dæmi var í Skandinavíu haldið upp á 1. maí sem Sumardaginn fyrsta.
Eftir að kristnin tók yfir helgaði kirkjan þennan dag dýrlingnum Valborgu, enskri prinsessu, trúboða og abbadís í Þýskalandi. Svíar halda ennþá upp á Valborgarmessu en ekki á sjálfan 1. maí heldur kvöldið áður. Svo arfleifð þess að halda upp á 1. maí með einhverjum hætti sem hátíðisdag er ekki ný til kominn þótt tilefnið sé annað í dag en áður fyrr.
▶︎ Nánar um Verkalýðsdaginn 1. Maí á Íslenska Almanaksvefnum
▶︎ Nánar um Frídaga á Íslandi á Íslenska Almanaksvefnum