☀️ Vorjafndægur
Jafndægur er sú stund þegar sól er beint yfir miðbaug jarðar. Þetta gerist tvisvar á ári á Vorjafndægri á tímabilinu 19.-21. mars og á Haustjafndægri 21.-24. september.
Árið 2021 er Vorjafndægur þann 20. mars klukkan 10:21.
Um þetta leyti er dagur og nótt álíka löng hvar sem er á jörðinni og af því er nafnið dregið. Breytileiki dagsetninganna stafar aðallega af hlaupárum.
Í mörgum fornum menningarsamfélögum var upphafsdagur ársins ýmist miðaður við Vorjafndægur, Haustjafndægur eða Vetrarsólstöður en þó fyrst og fremst árstíðaskiptin sem eðlilegt er.
Dæmi er um notkun Jafndægra sem árstíðaskipta hér á landi eins og segir um vorið í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu að það sé frá Jafndægri að vori til Fardaga en þá taki við sumar til Jafndægris á hausti.
Engin eiginleg áramót eru í Norræna misseristalinu heldur hvoru misseri fyrir sig fagnað, vetrarmisseris Fyrsta vetrardag annarsvegar og sumarmisseris Sumardaginn fyrsta hinsvegar en misseristalið skiptir árinu í tvo nokkurnveginn jafnstóra helminga vetrar- og sumarmisseri en hvorki vor né haust voru talin þar með.
▶︎ Nánar um Jafndægur á Íslenska Almanaksvefnum