☀️ Haustjafndægur

Jafndægur er sú stund þegar sól er beint yfir miðbaug jarðar. Þetta gerist tvisvar á ári á Vorjafndægri á tímabilinu 19.-21. mars og á Haustjafndægri 21.-24. september.

Árið 2021 er Haustjafndægur þann 22. september klukkan 19:21.

Um þetta leyti er dagur og nótt álíka löng hvar sem er á jörðinni og af því er nafnið dregið. Breytileiki dagsetninganna stafar aðallega af hlaupárum.

Í mörgum fornum menningarsamfélögum var upphafsdagur ársins oft miðaður við Vor- eða Haustjafndægur og eins Vetrar- eða Sumarsólstöður enda marka þessi tímamót hvert fyrir sig ákveðin árstíðaskipti náttúrunnar svo eðlilegt var að miða við eitthvert þeirra.

Dæmi um notkun jafndægra sem árstíðaskipta hér á landi þá segir um vorið í Skáldskaparmálum Snorra-Eddu að það sé frá Jafndægri að vori til Fardaga en þá taki við sumar til Jafndægris á hausti.

Engin eiginleg áramót eru í Norræna misseristalinu en hvoru misseris fyrir sig fagnað sérstaklega. Vetrarmisseris fagnað Fyrsta vetrardag annarsvegar og sumarmisseris Sumardaginn fyrsta hinsvegar.

Misseristalið skipti árinu í tvo nokkurnveginn jafnstóra helminga, vetrar- og sumarmisseri en hvorki vor né haust voru talin þar með þótt þau ættu sér reiknaðar tímasetningar eins og fram kemur í Snorra-Eddu þá tilheyrðu þau ekki öðru hvoru misserinu sérstaklega.

Til dæmis nær vor eins og Snorri kallar það yfir síðasta hluta vetrar og fyrsta hluta sumars. Því var ekki um skýr skil milli árstíða líkt og við í dag skiptum árinu upp í fjórar árstíðir sem hver tekur við af annari og engin skörun þeirra á milli

▶︎ Nánar um Jafndægur á Íslenska Almanaksvefnum

Date

sep 22 2021
Expired!

Time

00:00 - 23:55