ᛉ Sólmánuður byrjar

Sólmánuður einnig nefndur Selmánuður í Snorra-Eddu er þriðji sumarmánuður Íslenska misseristalsins.

Hann hefst ætíð á mánudegi í 9. viku sumars í kringum Sumarsólstöður og Jónsmessu milli 18. til 24. júní en Jónsmessan þann 24. júní er forn sólstöðuhátíð.

Ef hann væri ekki bundinn við ákveðinn vikudag, það er mánudag er ekki ósennilegt að hann hefði verið bundinn sólstöðum þann 21. eða 22. júní eða fornu sólstöðuhátíðarinnar þann 24. júní þar sem þær falla alltaf innan þessa tímabils, það er milli 18. og 24. júní.

Hvort sú var hugsunin í upphafi höfum við engar heimildir um en nafn hans sem er líklega úr gamla misseristalinu frá því fyrir landnám og að sólstöður hafa ætíð skipað veglegan sess í tímatölum allt frá upphafi má leiða að því líkum að sú hafi verið hugsunin að baki tímasetningunni og nafninu.

Að misseristalið legði ekki áherslu á að ákveðnir merkisdagar þess féllu nákvæmlega á stjarnfræðileg fyrirbæri eins og sólstöður né jafndægur sem dæmi, heldur mjög nærri þeim, gæti annaðhvort verið vegna þess hvað það er byggt mikið á vikutali, sem þó var sérsniðið fyrir það, það er að ekki voru allar vikur þess 7 dagar og þar með ekki allar jafn langar þó voru frávikin aðeins þrjú.

Frekar skipti máli að upphaf hvers mánaðar væru ætíð í sömu viku síns misseris auk þess ætíð sama vikudag. Þannig hófust allir mánuðir sumarmisseris á fimmtudegi taldir frá Sumardeginum fyrsta sem ennþann dag í dag er ætíð á fimmtudegi en vetrarmisseris mánuðirnir hefjast allir á laugardegi aftur á móti. Þannig er það tilviljun háð hvort mánuðir misseristalsins byrjuðu á einhverjum þessum fjórum árstíðaskiptum en fjórir þeirra falla þó fast að þeim eins og Sólmánuður er ætíð fast við Sumarsólstöður.

Í tilfelli Sólmánaðar að hann hæfist ætíð á mánudegi virðist hafa skipt meira máli en að hann hæfist nákvæmlega á sólstöðum það er að segja ef það var hugsunin að baki þess að hann byrjaði alltaf eins nálægt þeim og hægt var en vegna vikutalsins þá virðist það hafa verið látið ráða svo hann hæfist alltaf í 9. viku sumars og á mánudegi.

En um þetta er ekki vitað þar sem okkur skortir allar heimildir um aldur og uppruna misseristalsins fyrir landnám og einu heimildirnar sem við höfum eru þær sem ritaðar voru hér á landi og tengjast nær allar þeim breytingum sem Íslendingar gerðu á því til þess að rétta það af og samræma það réttu sólári sem og þeim lögum sem nefna ákveðna daga, vikur eða mánuði þess tengt ákveðnum löggerningum.

Allsstaðar annarsstaðar sem það var notað var notkun þess aflögð við kristnitöku viðkomandi landa og tekið upp hið Júlíanska tímatal enda það kirkjutal Kaþólskra nema á Íslandi, þar sem það var aðlagað því Júlíanska og lifði samhliða því og gerir í rauninni ennþann dag í dag að við höldum ennþá upp á hátíðisdaga þess eins og Bónda- og Konudag og Sumardaginn fyrsta sem dæmi.

Heiti mánaða misseristalsins í Snorra-Eddu eru fæst eiginleg mánaðanöfn heldur lýsandi heiti fyrir þau verk sem vinna þurfti þá viðkomandi tíð. Selmánuður er slíkt heiti þar sem í Sólmánuði var fé flutt í sel úr heimahaga sem þurfti að létta beit af svo hægt væri að heyja heima við.

Sólmánuður aftur á móti hefst við sólstöður sem ólíkt selmánaðarnafninu er lýsandi fyrir árstíð en ekki verk sem þurfti að vinna. Því verður að telja að nafnið sólmánuður sé hans eiginlegt mánaðarheiti en Selmánuður Snorra sé það ekki heldur lýsing búskaparhátta á þessum tíma árs.

▶︎ Nánar um Sólmánuð á Íslenska Almanaksvefnum

Date

jún 21 2021
Expired!

Time

00:00 - 23:55