ᛉ Heitdagur
Samkvæmt lögum í Grágás bar að halda þrjár samkomur á ári í hverjum hrepp til að ræða sameiginleg mál eins og fátækratíund og fjallskil. Ein var að hausti, önnur á Lönguföstu og þriðja eftir vorþing.
Einmánaðarsamkoma, eins og samkoman á Lönguföstu var nefnd á Norðurlandi, var haldin fyrsta dag Einmánaðar og hann nefndur Heitdagur en þá var einkum safnað heitum fyrir fátæka.
En með konunglegri tilskipun þann 29. maí 1744 var Norðlendingum skipað að flytja hann yfir á næst sunnudag er fólk kæmi almennt til messu. Var það með þeim rökum að ekki tíðkaðist þessi siður annarsstaðar í Danaveldi. Norðlendingar rituðu Konungi ítarlega greinargerð og bænarskjal árið 1755 um að fá að halda deginum en því var hafnað.
Nokkur skipti var reynt að endurvekja Einmánaðarsamkomu á Norðurlandi upp úr aldamótunum 1900 og dæmi eru líka þekkt að fólk sendi fátækum nágrönnum sínum mat á þessum degi þegar harðæri var.
▶︎ Nánar um Heitdag á Íslenska Almanaksvefnum