Yfirlýsing aðalstjórnar Sindra

Í nóvember á síðasta ári barst aðalstjórn UMF Sindra uppsagnarbréf frá þáverandi framkvæmdastjóra félagsins. Í tilkynningu til aðalstjórnar kom fram að erfiðleikar hafi einkennt samskipti við einstaklinga innan ákveðinnar deildar innan UMF Sindra. Einnig voru ýmsar aðrar ástæður raktar fyrir þeirri ákvörðun til að mynda að erfitt sé að fá aðila til að róa í sömu átt og að skort hafi á stefnu og skipulag hjá félaginu.

Aðalstjórn Sindra hóf þegar í stað vinnu við úrbætur og umbætur, m.a. á þeim þáttum sem nefndir voru í uppsagnarbréfi fráfarandi framkvæmdastjóra. Ákveðið var að áður en auglýst yrði eftir nýjum framkvæmdastjóra yrði að skoða málefni er varða skipulag og stjórnkerfi félagsins. Leitað var til UMFÍ um aðstoð og ráðgjöf til að endurskoða annars vegar lög félagsins og hins vegar til að leiða endurskoðun á heildarstefnu félagsins. Í þeim tilgangi að bæta starfsumhverfi innan félagsins í samræmi við framkomnar ábendingar. Ný lög sem umbreyttu stjórnkerfi félagsins ásamt öðrum breytingum voru samþykkt á aðalfundi félagsins sl. vor.

Samhliða þessari vinnu var stefnumótunarvinnu ýtt úr vör. Haldnir voru opnir fundir með félagsmönnum auk samtala við sjálfboðaliða í starfi félagins þar sem góður efniviður í nýja stefnu fyrir félagið varð til. Stefnt er að því að ný stefna verði lög fram til kynningar í upphafi árs með það markmið að leggja hana fram til samþykktar á næsta aðalfundi félagsins.

Aðalstjórn UMF Sindra harmar að ekki hafi náðst að greiða úr samskiptavanda framkvæmdastjóra og aðila innan viðkomandi deildar. Aðalstjórn vann að því að leiða aðila saman, fyrst á vettvangi félagsins sjálfs en síðan með utanaðkomandi samskiptaráðgjafa en án tilætlaðs árangurs.

Aðalstjórn Sindra þakkar fráfarandi framkvæmdastjóra fyrir vel unnin og óeigingjörn störf í þágu félagsins og óskar henni alls hins besta á nýjum vettvangi.

Stjórnin mun vinna áfram að innleiðingu nýrrar stefnu fyrir félagið þar sem áhersla er lögð á faglegt og heilbrigt starfsumhverfi fyrir starfsmenn, iðkendur, þjálfara og sjálfboðaliða á vegum UMF Sindra.

Áfram Sindri! 

Einar Sigurjónsson, formaður 
Eik Aradóttir 
Eva Birgisdóttir 
Gunnar Stígur Reynisson 
Hjalti Þór Vignisson