Aðalfundur UMF Sindra.

  • Post category:Fréttir

Aðalfundur Sindra var haldinn nú á dögunum í Heklu. Farið var yfir ársskýrslur deilda og Sindrafólk heiðrað fyrir sín dyggu störf í gegnum árin. Einnig fengu þrjú ungmenni hjá Sindra viðurkenningu fyrir sína fyrstu landsleiki og voru heiðruð með silfurmerki Sindra. 

Árið 2023 var gert upp og ársskýrslur samþykktar, eftir fjárhagserfiðleika 2022 sýnist allt vera á uppleið. Fulltrúar stjórna deildanna fóru yfir árið og virðist starfið ganga vel, stjórnir eru bjartsýnar fyrir framtíðinni. Fundarstjóri var Sigurður Óskar Jónsson, stjórnarmaður USÚ og stóð sig vel í því hlutverki. Gísli Már Vilhjálmsson, fráfarandi formaður Aðalstjórnar Sindra setti fundinn og ritaði Guðbjörg Guðlaugsdóttir, fráfarandi ritari Aðalstjórnar Sindra fundargerð. Ársskýrslur deilda sem og fundargerð eru aðgengilegar á heimasíðu félagsins, https://umfsindri.is/umfelagid/arsskyrslur/

Kosningar til stjórna gengu vel og eru allar stjórnir fullmannaðar, þó má alltaf bæta við því fleiri hendur vinna létt verk. Helstu breytingar urðu á Aðalstjórn þar sem Gísli Már og Guðbjörg láta af störfum en Hjalti Þór heldur áfram. Nýjir meðlimir koma inn í stjórnina en það eru þau Hanna María Friðriksdóttir og Einar Sigurjónsson. Félagið þakkar Gísla og Guðbjörgu kærlega fyrir sín störf yfir síðastliðið árið.

 

Viðurkenningu fyrir sína fyrstu landsleiki fengu þrjú ungmenni sem hafa alist upp hjá Sindra. Þau hafa staðið sig með prýði og má Sindrafólk allt vera stolt að hafa metnaðarfullt ungt fólk í sínu liði. Hilmar Óli Jóhannsson var valinn í landsliðshóp U15 í körfubolta og spilaði sinn fyrsta leik fyrir hönd Íslands í Finnlandi. Úr knattspyrnudeildinni voru tveir sem spiluðu sína fyrstu leiki en það voru þau Ðuro Stefan Beic og Thelma Björg Gunnarsdóttir. Ðuro var valinn í landsliðshóp U15 fyrir UEFA-Development mót í knattspyrnu í Póllandi og spilaði hann sinn fyrsta leik fyrir Íslandshönd þar. Thelma Björg tók einnig þátt í slíku móti í nóvember í Portúgal og spilaði fyrir hönd Íslands. Þau eiga öll svo sannarlega hrós skilið fyrir frábæran árangur síðastliðið ár. 

 

Gísli Már Vilhjálmsson formaður UMF Sindra og Hilmar Óli Jóhannsson.

Gísli Már Vilhjálmsson formaður og Ðuro Stefan Beic.

 

Í þetta skiptið fengu fjórir einstaklingar silfurmerki Sindra fyrir sitt framlag til ungmennafélagsins. Erla Berglind Antonsdóttir hefur setið í stjórn sunddeildar til fjölda ára og lagt sitt af mörkum fyrir deildina sem og félagið allt. Guðrún Ása Jóhannsdóttir hefur setið í yngri flokka ráði knattspyrnudeildar og gert það af einstakri prýði. Hún setti saman, ásamt góðum hópi fólks handbók yngri flokka sem kemur enn að góðum notum. Linda Helena Tryggvadóttir tók húsnæði Sindra ástfóstri og sá um það, sem og íbúa eins og það væri hennar eigið. Hennar óeigingjarna starf er svo sannarlega vel metið og fær hún silfurmerkið afhent með stolti. 

Síðast en ekki síst fékk Gísli Már Vilhjálmsson viðurkenningu fyrir hans fjölmörgu störf til fjölda ára. Hann hefur setið í ýmsum stjórnum en síðustu ár hefur hann setið í Aðalstjórn Sindra og sinnt því krefjandi verkefni, ásamt meðstjórnendum, að koma félaginu úr miklum fjárhagsvanda sem stjórnin hefur sinnt með sóma. Hann átti frumkvæði fyrir því að kaupa Heklu sem hefur svo sannarlega styrkt starfið og komið að góðum notum í gegnum árin. Gísli á því innilega skilið þetta silfurmerki og mun félagið vera honum ævinlega þakklátt.

Þökkum við silfurhöfum okkar fyrir þeirra ómetnalega framlag í íþróttastarfinu og eiga þau svo sannarlega skilið að bera silfurmerki Sindra. Sindrahjartað slær stöðugt hjá þessu flotta fólki og hefur þeirra vinna styrkt félagið í heild sinni. Fólk eins og þau halda starfinu gangandi. 

 

Starf Ungmennafélags Sindra er fjölbreytt og eru einkunnarorðin, heiðarleiki, samvinna og metnaður höfð að leiðarljósi. Sveitarfélagið hefur staðið þétt við bakið á félaginu og hefur þeirra stuðningur komið að góðum notum. Við erum full tilhlökkunar að halda því samstarfi áfram af enn meira kappi. Styrktaraðilar eiga einnig kærar þakkir skilið fyrir sitt framlag yfir árið 2023 og hlökkum til áframhaldandi samstarfs með þeim. Sjálfboðaliðarnir sem komu að starfinu yfir árið með einum eða öðrum hætti eru ófáir og eiga þeir allir hrós skilið fyrir sína vinnu. Árið 2024 byrjar vel og verður spennandi að sjá uppskeru starfsins á aðalfundi að ári. Framtíð félagsins er björt og að lokum, áfram Sindri!

 

Katrín Birta Björgvinsdóttir, 2024.

Myndir frá fundinum má sjá hér