Í byrjun desember veitti sjóðurinn Gjöf Jóns Sigurðssonar verðlaun til þeirra sem rithöfunda sem rita efni „sem lúta að sögu Íslands, bókmenntum þess, lögum, stjórn eða framförum” eins og kemur fram á vef Stjórnarráðs Íslands.
Skemmst er frá því að segja að Arnþór Gunnarsson fékk þriðju verðlaun fyrir bókina Félag unga fólksins – Saga Ungmennafélagsins Sindra 1934 – 1966.
Arnþór segir sjálfur frá því að hann hafi ekki átt von á þessum verðlaunum þar sem efnið, saga Sindra, er frekar sértækt og spannar ekki beinlínis sögu Íslands á breiðum grunni. Þrátt fyrir það er þetta mikil og góð viðurkenning fyrir Arnþór enda er bókin afar vel skrifuð og aðgengileg í lestri.
Í ritdómi sem birtist í Sögu – Tímariti sögufélags segir meðal annars um Félag unga fólksins:
Einn helsti kostur bókarinnar er hve vel Arnþór fléttar starfsemi Sindra saman við samfélagsþróun á því tímabili sem um ræðir. Þetta birtist annars vegar í því hvernig starfsemi félagsins hafði skýr áhrif á nærsamfélagið, einkum eftir að félagið reisti samkomuhús (Sindrabraggann) og byggði íþróttavöll. Ungmennaskólinn sem félagið stóð fyrir, fyrirlestrahald, námskeið og skemmtiferðir hafa vafalítið auðgað menningar- og menntalíf svæðisins til muna og gagnast bæði félagsmönnun, íbúum Hafnar og nærsveitungum. Sindri, líkt og mörg önnur ungmennafélög, tók líka á sig að sinna brýnum samfélagsverkefnum sem síðar komust á abyrgð hins opinbera, til dæmis að standa fyrir sundkennslu áður en hún var lögboðin (1940) og taka upp á unglingakennslu til viðbótar vid lögbundið skyldunám barna… Það sem ég álit þó vera helsta styrkleika bókarinnar er hvernig Arnþóri tekst að opna lesendum sýn á það hvernig samfélagsbreytingar verkuðu á starfsemi Sindra og hvernig viðhorf til þeirra birtust i skoðanaskiptum félagsmannam bæði í félagsblaðinu og í bréfum… Félag unga fólksins er vel ritað og vandað verk sem er mikilvæg viðbót við sögu íslensku ungmennafélagshreyfingarinnar og sem þáttur í byggðasögu Hornafjarðar. Arnþór Gunnarsson fylgir samviskusamlega því markmiði að tengja starfsemi Sindra við samfélagsþróun og þróun ungmennafélagshreyfingarinnar og gefur það þessu verki aukið gildi að höfundur hafi valið svo vítt sjónarhorn.
Umf. Sindri óskar Arnþóri til hamingju með verðlaunin og megi þau hafa góð áhrif á ritun áframhaldandi sögu Sindra en tilkynnt var á 90 ára afmælishátíð félagsins 1. desember sl. að Arnþór hafi tekið að sér það verk.
Hægt er að kaupa eintak bókarinnar meðal annars í Heklu félagshúsi Sindra að Hafnarbraut 15.