90 ára afmæli Sindra
Það var skemmtileg um leið hátíðleg stund sem átti sér stað þann 1. desember síðastliðinn þegar Umf. Sindri hélt upp á 90 ára afmæli en félagið var stofnað á þeim degi 1934.
Boðið var til afmælishátíðar í íþróttahúsinu í samstarfi við Menningarmiðstöðina og því var um að ræða stóra afmælis- og aðventuhátíð.
Dagurinn hófst með íþróttaglensi í Icelagoon höllinni þar sem nokkrar af deildum Sindra kynntu starf sitt og leyfu þeim sem vildu prófa. Einnig hafði rafíþróttadeildin komið sér fyrir í Heppuskóla með sína kynningu.
Aðventuhátíðin hófst klukkan eitt með opnun sölubása og kaffihúss í Heppuskóla, auk þess sem deildir Sindra voru með kynningu. Uppbrot var á dagskránni þegar 11. flokkur Sindra í körfubolta spilaði leik í Icelagoon höllinni en þeir gestir sem voru í Heppuskóla gátu því rölt á milli leiksins og aðventuhátíðarinnar í Heppskóla.
Hátíðardagskrá hófst klukkan fjögur þegar boðið var upp á afmælisköku í tilefni dagsins. Formaður Sindra, Einar Sigurjónsson hélt ávarp og skrifað var undir nýjan þjónustusamning Sindra og Sveitarfélagins. Var það bæjarstjórinn Sigurjón Andrésson sem skrifaði undir fyrir hönd sveitarfélagins og hélt hann stutt ávarp í tilefni þess.
Nýtt Sindralag var frumflutt og mun það bætast við í flóru annarra Sindralaga. Lagið heitir Fögnum, sigrum og er lagið eftir Axel Elí “Sela” Friðriksson. Textinn er eftir Hafdísi Hauksdóttur og Axel Elí “Sela” Friðriksson. Lagið er komið út á Youtube og er unnið að því að koma því á tónlistarstreymisveitur eins og Sportify.
Hátíðardagskránni lauk með afhendingu Gullmerkis Sindra og nýrrar viðurkenningar, Heiðurfélagi Sindra. Gullmerkið fékk Ásta Ásgeirsdóttir fyrir allt hennar starf í þágu Sindra í gegnum áratugina þar sem hún hefur staðið hlið við hlið manns síns, Albert Eymundssonar, en Albert var einmitt gerður að fyrsta heiðursfélaga Sindra við sama tilefni og var þeim klappað lof í lófa þegar þau stigu á pall.
Afmælis- og aðventuhátíðin lauk svo með því að haldið var út að jólatré bæjarins þar sem kveikt var á jólaljósunum.
Ungmennafélagið Sindri þakka öllum þeim sem komu og glöddust með okkur á 90 ára afmæli félagsins. Einnig viljum við þakka öllum þeim sem komu að hátíðinni með okkur og sérstaklega viljum við þakka starfsfólki menningarmiðstöðvarinnar og Sveitarfélagsins.
Án þeirra væri ekki hægt að halda svona hátíð. Við viljum einnig óska hjónunum Albert og Ástu með þær heiðranir sem þau hlutu.
Höldum áfram að byggja upp félagið, leyfa því að stækka og dafna, og fjárfestum þannig í framtíðinni eins og Sigurjón Andrésson bæjarstjóri komst svo vel að orði í ávarpi sínu á hátíðinni.
Hér fyrir neðan er hægt að horfa á hátíðardagskránna. Við biðjumst velvirðingar á hljóðgæðunum.