Nýtt skipulag stjórnar knattspyrnudeildar Sindra.Stjórn knattspyrnudeildar Sindra og yngriflokkaráð knattspyrnudeildar hafa undanfarið unnið saman að nýju skipulagi á stjórnarháttum knattspyrnudeildar Sindra. Ákveðið hefur verið að skipta stjórn knattspyrnudeildar upp í þrjár rekstrareiningar frá og með næsta aðalfundi sem verður í lok febrúar; stjórn knattspyrnudeildar, meistaraflokksráð og yngriflokkaráð. Rekstur knattspyrnudeildar er umfangsmikill og því er það með hagsmuni deildarinnar að leiðarljósi sem ákveðið hefur verið að fara þessa leið en samfara þessum skipulagsbreytingum hafa verksvið stjórnarmanna verið skilgreind svo auðvelt sé að gera sér grein fyrir hvaða verkefni falla undir hverja stöðu í stjórn og ráðum deildarinnar. Nokkur skref hafa jafnframt verið tekin til að verkferlar og reglur varðveitist og ekki þurfi stöðugt að finna upp hjólið við hverja áskorun sem deildin stendur frammi fyrir. Stefna deildarinnar er langt komin í vinnslu en framundan er að sjálfsögðu ákveðin vinna við að setja upp verkferla varðandi ýmis verkefni, þótt ágætis mynd sé komin á mörg verkefni deildarinnar.
Nýtt skipulag felur í fyrsta lagi í sér að stjórn knattspyrnudeildar verður 5 manna stjórn sem er einskonar regnhlíf yfir allri starfsemi deildarinnar. Í stjórn knattspyrnudeildar sitja formaður, gjaldkeri, ritari og formenn meistaraflokksráðs og yngriflokkaráðs. Ekki er gert ráð fyrir að formenn ráðanna hafa sérstök verkefni fyrir höndum á vegum stjórnar knattspyrnudeildar enda ærin verkefni í ráðunum. Þau verkefni sem stjórnin hefur fyrst og fremst með höndum er öflun styrktarsamninga fyrir deildina og útdeiling fjáraflana og fjármuna frá styrktarsamningum til ráðanna tveggja auk þess sem stjórnin hefur yfirumsjón og eftirlit með málefnum knattspyrnudeildar. Í öðru lagi verður stofnað meistaraflokksráð sem hefur umsjón með daglegum rekstri meistaraflokkanna og 2. flokks þegar það á við. Í meistaraflokksráði er gert ráð fyrir að sitji formaður, gjaldkeri, ritari og tveir meðstjórnendur. Glöggir lesendur sem þekkja til starfa knattspyrnudeildarinnar sjá að þarna hefur verkefnum sem stjórn knattspyrnudeildar hefur haft með höndum verið skipt í tvær einingar með því að stofna sérstakt meistaraflokksráð. Í þriðja lagi mun yngriflokkaráð starfa með svipuðum hætti og verið hefur undanfarin tvö ár og hafa yfirumsjón með starfsemi yngri flokka deildarinnar. Í yngriflokkaráði er gert ráð fyrir að sitji formaður, gjaldkeri, ritari og tveir meðstjórnendur.
Samfara þessum breytingum er gert ráð fyrir að á vegum stjórnar knattspyrnudeildar verði starfsmaður í fullu starfi sem sinni starfi yfirþjálfara auk ýmissa verkefna á vegum stjórnarinnar og ráðanna tveggja og búið er að gera drög að starfslýsingu fyrir þetta starf.
Það er von okkar að þessar breytingar verði til þess að bæta alla starfsemi knattspyrnudeildarinnar, dreifa verkefnum skipulega á stjórnarfólk, skýra skipurit og starfsemi deildarinnar og efla deildina á öllum sviðum.
Til að manna allar stöður er nauðsynlegt að fá fleira fólk til liðs við okkur og auglýsum við hér með eftir einstaklingum sem hafa áhuga á að taka þátt í starfi öflugrar og vel skipulagðrar deildar og vera þannig þátttakendur í uppbyggingu knattspyrnunnar á Hornafirði en framundan eru gríðarlega spennandi tímar með þeim frábæra efnivið sem við eigum í fótboltanum. Við leitum að fólki sem er tilbúið til að taka að sér setu í stjórn eða ráðum og öðrum þeim sem hafa áhuga á að aðstoða við einstök verkefni, fjáraflanir, leiki, akstur í útileiki og ýmislegt fleira. Áhugasamir einstaklingar geta sent tölvupóst á knattspyrna@umfsindri.is, sindri@umfsindri.is, yngriflokkar@umfsindri.is, eða haft samband við einhvern af stjórnarmönnum knattspyrnudeildar eða yngriflokkaráðs. Stjórn knattspyrnudeildar eftir núverandi skipulagi skipa Kristján Guðnason formaður, Jóna Benný Kristjánsdóttir gjaldkeri, Linda Hermannsdóttir ritari og meðstjórnendurnir Arna Ósk Harðardóttir, Gunnar Ingi Valgeirsson og Kristinn Justiniano Snjólfsson. Yngriflokkaráð skipa Sigurður Ægir Birgisson formaður, Trausti Magnússon og Eva Birgisdóttir gjaldkerar, Laufey Sveinsdóttir ritari og Guðrún Ása Jóhannsdóttir meðstjórnandi.
F.h. knattspyrnudeildar Sindra
Jóna Benný